Hvers vegna meiðsli eru aldrei gefin upp
29.4.2007 | 06:58
Ég komst að því í dag af hverju er aldrei gefið upp hvað amar að hokkíleikmönnum þegar þeir meiðast. Hokkí er fremur hrottaleg íþrótt þar sem oft brjótast út slagsmál og þar sem það er ekki vítavert að henda mönnum til og frá og berja þá upp við vegg. Svo framarlega sem þeim er ekki brugðið og ekki er barið á hokkíkylfuna. Þar er algengt að góðir leikmenn séu teknir verr en aðrir en það sem ég frétti í dag var að slasaðir leikmenn fá enn verri meðferð. Ef til dæmis er vitað að einhverjum sé illt í náranum, má hann eiga von á því að flest höggin sem hann fær séu einmitt þar. Allt til að koma honum algjörlega úr leiknum. Það er vegna þessa sem þjálfarar og leikmenn segja aldrei opinberlega hvað er að meiddum leikmönnum. Í gær þegar Mithcell fór af velli var mikið lagt upp úr því að hann héldi áfram að spila því ekki var gott að viðurkenna fyrir öndunum að án Mithcell væri varnarlína Vancouver komin niður í fimm menn. Því þá hefði mátt búast við að þeir varnarmenn sem væru eftir fengju enn harðari meðferð. Þetta þykir manni ógeðfellt en leikmenn Vancouver verða að vera harðir af sér ef þeir vilja lifa af þessa seríu. Endurnar spila mjög líkamlegan leik og ráðast iðulega á mótherja sína. Vancouver Cancucks, aftur á móti, gera það ekki og synd er að segja að þeir verða að fara að berja til baka.
Ofbeldi í hokkíi er annars versti hnjóðurinn á þessarri annars ágætu íþrótt en því miður eru aðdáendur leiksins oft hrottalegir aular sem elska slagsmálin framar öllu öðru. Þeir vilja ekki láta breyta reglunum.
En sem sagt, nú veit ég af hverju Vigneault sagði að Mithcell þjáðist að flensulegu skautaheilkenni. Annars get ég nú lagað örlítið frásögn mína af þeirri umsögn í gær. Ég heyrði nefnilega aldrei spurninguna, bara svarið, og get því sagt að eftir að Vigneault sagði að Mitchell þyrfti nýja skauta og að þeir væru að leita að skautum handa honum sagði víst einhver blaðamanna: "Nú, er hann ekki með flensu?" Það var þá sem Alain sagði að hann hefði "flu-like skate syndrom". En sem sagt, aldrei er gefið upp hvað amar að leikmönnum svo hitt liðið ráðist ekki á viðkomandi líkamshluta í næsta leik.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.