Róleg helgi

Capitol Hill

Það er sunnudagur og ég er búin að vera á fótum síðan laust eftir átta. Þegar maður þarf að vakna klukkan hálf sjö á vinnudögum er það hreinlega að sofa út að vakna um átta leytið. Þetta er mjög ólíkt mér. Ég vakna aldrei fyrr en um níu um helgar og oftast seinna. Ég sef reyndar yfirleitt ekki til ellefu eins og hér áður fyrr.

En ég nýtti morguninn þolanleg. Er búin að þvo þvott og hengja út, fá mér góðan morgunmat (sauð meira að segja egg) og laga grein sem verður birt í UBCWPL fljótlega. Fljótlega ætla ég út að labba og smá saman að mjaka mér vestur fyrir miðbæinn þar sem Rachel Wodjak býr. Ég er að fara í bröns til hennar. Rachel útskrifaðist úr málvísindum í UBC í fyrra og er alveg fanta góður málfræðingur.

Á föstudag skruppum við Auður - íslenskur nemandi hér í Ottawa - út að borða og löbbuðum svo um miðbæinn. Þar var alveg nóg að gera og ég held að það hafi allir verið í bænum. Hér er svo hlýtt að það sátu allir úti og drukku og átu og skemmtu sér. Við fórum reyndar heim upp úr ellefu, enda ég orðin þreytt og Auður ætlaði að vakna snemma og læra. Envið höfðum borðað á flottum stað sem heitir Touché og litirnir þar inni voru alltaf að breytast, borðin voru skær appelsínugul og þetta var svona almennt nútímastaður. Fékk mér vísundaborgara sem var bara alveg ágætur. Ég fékk mér reyndar svoleiðis stundum í Manitoba og verð ég að segja að þótt vísundakjötið sé býsna gott þá held ég að beljan sé nú bara betri.

Ég gær fór ég í brönns til Gurli Woods sem er danskur prófessor við Carlton. Ég þekki hana í gegnum Skandinavíu fræðin. Fékk svona ekta danskt hlaðborð. Alveg meiriháttar. Eftir á labbaði ég um bæinn svolítið, fór aðeins að versla. Kom svo heim og talaði við Danny vin minn á netinu í svolítinn tíma. Hann er náttúrufræðingur og er að fara sem leiðsögumaður á skemmtiferðaskipi sem mun koma við á Íslandi. Ja, ekki beinlínis leiðsögumaður. Frekar sem sérfræðingur í náttúruvísindum og ljósmyndari. Ég er ekki alveg viss um hvað hann gerir um borð - hann fer vanalega með fólk í alls kyns ferðir hér í Kanada, meðal annars til Hudson Bay að taka myndir af ísbjörnum, og svo mikið um Alaska, North West Territories, Yukon og Nunavut. Ég var að segja honum hvað hann ætti að gera; fá sér pylsu, fara í sund, labba upp kirkjutröppurnar, fá sér heitt kakó á Bláu könnunni. Þegar ég var að enda við að tala við hann hringdi mamma, langt komið fram yfir hennar háttatíma, og við spjölluðum heillengi. Alltaf gott að heyra að heiman. 

Ég læt hér fylgja með mynd af ráðhúsinu í Ottawa. Ég var búin að sýna ykkur mynd af því en frá öðru sjónarhorni. Þessi finnst mér flott og ég skil loksins af hverju alltaf er vísað til svæðisins í fréttum sem 'Capitol hill' - höfuðborgarhæðinnar. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband