Sigling

Stína í siglingu

Í kvöld sigldi ég á Ottawa ánni í um átta klukkutíma. Martin, sem er tölvumaðurinn okkar, er mikill siglingamaður og hafði boðið mér að koma með og var áætlunin að fara strax eftir vinnu. Það leit hins vegar ekki vel út um fjögur leytið því það var alveg mígandi rigning og rok. En við keyrðum samt niður að Aylmer höfninni í Quebec og fórum inn á veitingahúsið við höfnina. Enda bráðsnauðsynlegt að fá sér kvöldmat áður en lagt yrði af stað - ef hægt væri að fara. Það var hins vegar heldur svo að veðrið versnaði eftir að við komum þangað svo starfsmenn veitingahússins urðu að rjúka til og lokum öllum gluggum því það hellti úr fötu og allt kom inn. En á meðan við sátum þarna og spjölluðum lægði veðrið og sólin braust í gegn. 

Klukkan var ábyggilega farin að nálgast hálfsjö þegar við loksins lögðum af stað og við tóku yndislegir klukkutímar í kvöldsólinni. Í júlí sest sólin seint svo við náðum býsna mörgum tímum áður en fór að dimma eitthvað af alvöru svo við sigldum bara upp í vindinn, upp  með ánni. Uppúr ellefu var orðið nokkuð dimmt og svo fljótlega eftir það ákváðum við að fara að halda til baka. En þá voru þeir Þór og Njörður búnir að vera að bralla eitthvað og datt sama sem í dúnalogn. Það var varla að báturinn hreyfðist. En okkur var eiginlega alveg sama. Við vorum dúnklædd (bættum fleiri og fleiri fötum á eftir að nóttin lagðist yfir) og því lítið sem ekkert kalt, félagsskapurinn var frábær og góð músík um borð (þar á meðal Sigur Rós). Martin var búinn að skipta um segl, hífa seglin upp eins og hægt var en ekkert gekk. Um hálf eitt leytið var orðið ljóst að það myndi taka hálfa nóttina að komast til baka með þessu áframhaldi svo mótorinn var settur í gang og við stímdum í land.

Mikið var þetta gaman. Nú erum við að ræða um að taka heilan dag og sigla eitthvað í sólinni, synda í ánni, borða pikknikk einhvers staðar á skemmtilegum stað og njóta sjómennskunnar (ármennskunnar). Ég hef alltaf sagt að það væri sjómannsblóð í æðum mér!


Martin í siglingu

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband