Nýjar bækur
9.5.2007 | 01:31
Í dag fékk ég þrjár nýjar bækur. Það var reyndar bara tilviljun því ég fékk tvær í póstinum en eina þurfti ég að kaupa sjálf. Þeir sem hafa gaman af hugvísindum hafa kannski áhuga á að heyra um þessar bækur en aðrir geta hlíft sér við lesturinn.
Í póstinum upp í skóla fékk ég bókina North American Icelandic eftir Birnu Arnbjörnsdóttur. Bókin er gefin út af mínum gamla skóla, Manitóbaháskóla og ég hef verið beðin um að skrifa ritdóm um þessa bók fyrir AASSC (The Association of the Advancement of Scandinavian Studies in Canada). Ég hef áður lesið doktorsritgerðina hennar Birnu sem þessi bók byggir á að hluta. Auk þess hef ég sjálf skrifað nokkuð um íslensku eins og hún er töluð í Kanada og safnað heilmiklu af efni. Þannig að þetta ætti að vera skemmtilegur lestur.
Heim fékk ég svo sent nýjasta heftið af Canadian Journal of Linguistics. Þetta heft er helgað kanadískri ensku og virðist hafa margar spennandi greinar. Ég sá einmitt nýlega sjónvarpsþátt um enska tungu eins og hún er töluð í Kanada og þar var ýmislegt sem ég vissi ekki. Ég hlakka til að lesa þetta hefti.
Eina bókin sem ég keypti var The Logic Book eftir Bergmann, Moor og Nelson. Þetta er kennslubók í rökfræði en í brjálæði mínu ákvað ég að heimsækja heimspekideildina og læra svolitla rökfræði. Það eina sem ég hef áhyggjur af er að ég muni ekki læra neitt gagnlegt. Ég held ég hafi skrifað um þetta áður en í svona kúrsi er fyrst og fremst unnið með setningarökfræði og umsagnarökfræði. Slík grunnrökfræði gagnast hins vegar merkingarfræðingum takmarkað þannig að ég veit ekki hvort ég læri eitthvað gagnlegt. ég er hrædd um að fyrst muni ég kunna allt, og svo, þegar farið verður í sannanir og þvíumlíkt, kunni ég ekki neitt, en ég þarf heldur ekki að kunna það fyrir málfræði. Ég hef áhuga á rökfræði sem tæki fyrir mig í málrannsóknum en hef takmarkaðan áhuga á rökfræði rökfræðinnar vegna. Þess vegna hef ég lítinn áhuga á sönnunum. En alla vega, keypti þessi bók sem kennd verður í tímanum og þurfti að borga óhugnarlega mikið fyrir hana. Það er eins gott að það sé þess virði.
En af því að ég er að tala um bækur. Ég er núna að lesa bók sem heitir Blackfly season og er eftir kanadíska höfundinn Giles Blunt. Þetta er spennusaga sem gerist í smáborg í norður Ontario. Ég hef býsna gaman af henni.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.