Kanadadagur
3.7.2006 | 14:52
1. júlí er þjóðhátíðardagur Kanada og að þessu sinni fagnaði landið 139 ára afmæli. Við Auður Atla, Íslendingur í námi hér í Ottawa, vorum mættar niður í bæ rétt eftir klukkan tíu og ætluðum að sjá verðina skipta um stöður (eins og fyrir framan Buckinghamhöll) en fjöldinn var þá þegar orðinn svo mikill að við hefðum þurft að horfa á það frá risastórum skjám fyrir framan þinghúsið. Við nenntum því ekki svo við löbbuðum bara um, skoðuðum fólkið, hlustuðum á tónlist sem flutt var út um allan miðbæinn, horfðum á listamenn leika listir sínar, o.s.frv. Þrjú aðalsvæðin voru Parliament Hill, eða þinghússhæðin, Majors Hill Park -garður sem er rétt við þinghúshæðina - og svo Jacques-Cartier Park, sem er hinum megin við ána, þ.e. í Gatinau, Quebec. Þetta er um 20 mínútna gangur þangað, yfir Interprovential brúna (millifylkjabrúna). Við löbbuðum um öll svæðin. Í Jacques-Cartier settumst við niður enda búnar að labba í marga klukkutíma, og hlustuðum meðal annars á keltneska tónlist, fyrst frá Norður-Vancouver og síðan frá Nýfundnalandi. Þaðan löbbuðum við síðan að Þjóðmenningarsafninu og fengum okkur að borða þar á kaffiteríunni. Þegar við vorum þar hringdi Martin og var kominn í bæinn, svo hann slóst í hópinn. Næstu klukkutímana héldum við áfram að labba um og sjá það sem í boði var í bænum. Settumst meðal annars niður í Majors Hill Park og horfðum á indjánakonur syngja og dansa. Mjög skemmtilegt. Þegar við vorum aftur orðin svöng (aðallega Martin sem hafði ekki borðað með okkur á kaffiteríunni enda vorum við búnar að borða þegar hann kom), fundum við veitingastað með ekki of langa biðröð (á flestum stöðum þurfti að bíða í alla vega hálftíma) og slöppuðum þar af í um klukkutíma. Að því loknu fórum við uppá þinghúshæð á nýjan leik og hlustuðum á kvöldtónleikana þar, fólk eins og Colin James, Michel Pagliaro og Stars. Þið Íslendingar þekkið þetta fólk sjálfsagt ekkert. Á mínútunni tíu hófst svo flugeldasýningin sem var býsna góð.
Erfiðast var að komast út af hæðinni því aðeins þrjú lítil hlið voru til að hleypa út yfir hundrað þúsund manns (um 300 þús. voru víst í bænum en ekki allir þeirra inni í garðinum). Það tók því nokkurn tíma að skríða út og þegar við komum út á Wellington, sem síðan breytist í Rideau, var þvílíkt mannhaf að ég held ég hafi aldrei séð slíkan fjölda. Alveg ótrúlegt. Og að komast í gegnum miðbæinn tók hreinlega heillangan tíma. Auður hélt svo heim enda á hún heima rétt við miðbæinn en við Martin fórum að leita að bílnum hans sem var í einni af litlu hliðargötunum í Byward market hverfinu. Þá tók að mígrigna svo við urðum holdvot. Það hafði rignt allt kvöldið en vanalega bara lítið svo við höfðum bara setið í grasinu með regnhlíf yfir okkur, og um tíma með tarpet yfir fótunum (það sem maður setur á tjaldbotna til að halda sér þurrum). Þessi rigning var margafalt verri. En flugeldasýningin var búin svo það mátti rigna. Og þótt maður yrði holdvotur var það allt í lagi því þetta var í lok kvölds og ekkert annað að gera en að fara heim og skríða undir sæng.
En sem sagt, fínn Kanadadagur - pottþétt sá besti sem ég hef upplifað, enda Ottawa höfuðborgin og hér er víst alltaf meira um að vera en annars staðar í Kanada.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.