Risessa????? Hvað með skessustelpa eða tröllstelpa
11.5.2007 | 18:00
Ég á þess ekki kost að sjá þetta götuleikhús en miðað við það sem ég sé á netinu er þetta mun skemmtilegra en bölv. risabrúðurnar sem vekja svo mikla athygli í Barcelona á septemberhátíð þeirra. Ég vil hins vegar kvarta yfir þessu nafni risessa. Ég geri mér grein fyrir að þetta er sett saman úr orðunum risi og prinsessa (eða geri alla vega ráð fyrir því) en þetta er samt sem áður algjör orðskrípi. Við eigum ógrynnin öll af ævintýrum þar sem talað er um risa og tröll og skessur og allan þann óþjóðalýð, og hvergi er talað um risessu. Ef ég man Búkollu rétt þá var stelpan þar nú bara skessustelpa eða tröllstelpa. Því ekki nota gömul og góð orð sem þegar eru til. Je minn góður, hvað ef fólk fer að nota þetta orð almennt:
Segir þá skessan við risessuna: "Farðu heim risessa og náðu í stóra nautið hans föður þíns"
Púkinn er heldur ekki hrifinn af þessu orði því hann merkir það sem vitleysu þegar ég renni honum yfir það sem ég hef skrifað. Sko, við púkinn erum sammála.
Þúsundir fylgdust með risabrúðu á gönguför | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Jú, skýring þín er ekki ólíkleg. Og það er svo sem vel sennilegt að þeir sem réðu þessu vilji forðast neikvæða tengingu. En eru ekki sögurnar um Siggu og skessuna ennþá mjög vinsælar? Þar er nú gert ljóst að skessa er ekki endilega skrímsli.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 11.5.2007 kl. 19:30
Ég verð að fá að svara þessu ....
,,Við eigum ógrynnin öll af ævintýrum þar sem talað er um risa og tröll og skessur og allan þann óþjóðalýð, og hvergi er talað um risessu.''
Já veistu það er rétt hjá þér, við(sem íslendingar) eigum fjöldan allan af þessum sögum. En þetta er frönsk menningarhátíð, menningin okkar á ekkert skilt með þessari brúðu.
Ég skil ekki afhverju þetta ætti að vera kallað einhvað annað en Risessa, þar sem þetta er fyrir börn, auk þess sem hún er ekki risessa, hún heitir Risessa. Það má vel vera að hún sé tröll, en hún heitir samt Risessa.
Bara mitt álit :)
Haraldur (IP-tala skráð) 11.5.2007 kl. 20:29
Já alveg rétt Haraldur, nei Frakkar eiga engar sögur um risa, tröll, skessur né önnur ómennsk kvikyndi, eða kanski...
Stína mér finnst þetta flott heiti ,,Risessa" gefur tón um nýtt ævintýri, framandi og heillandi í senn. Af hverju ætti stórgert fólk með framandi nöfn ekki líka að flytja til landsins á tímum fólksflutninga?
Pétur Björgvin, 11.5.2007 kl. 21:08
Já, en Stína, hún er PRINSESSA, ekki skessa ... hmm? Mér finnst þetta líka hálfgert orðskrípi en er þegar byrjuð að venjast því - og það vísar aðeins út fyrir sagnahefðina okkar, sum sé. Ég held samt að Haraldur hafi rangt fyrir sér, ég hef ekkert séð um að hún heiti Risessa, það er a.m.k. skrifað risessa.
Berglind Steinsdóttir, 11.5.2007 kl. 21:53
Já, það er auðvelt að misskilja fólk ef maður leggur sig fram Pétur Björgvin..
,,Við eigum ógrynnin öll af ævintýrum þar sem talað er um risa og tröll og skessur og allan þann óþjóðalýð, og hvergi er talað um risessu. Ef ég man Búkollu rétt þá var stelpan þar nú bara skessustelpa eða tröllstelpa. Því ekki nota gömul og góð orð sem þegar eru til. Je minn góður, hvað ef fólk fer að nota þetta orð almennt: "
Ég var bara að benda á að þetta ætti ekki að skipta neinu máli fyrir íslenskuna, þó svo að við eigum einhverjar sögur um risa, þurfum við ekki að segja að þetta nafn sé einhvað slæmt. Takk samt fyrir góðan útúrsnúning.
Já það er rétt hjá þér Berglind, hún er greinilega risessa, en heitir það ekki. Góður punktur með prinsessa en ekki skessa, held heldur ekki að þetta sé neitt úr frönsku(amk ekki samkvæmt orðabók né Google Translate) þannig ég er orðinn forvitinn hvaðan nafnið er komið. Kannski einhvað gamalt franskt ævintýri eða einhvað, sem er verið að setja á stokk hér?
Haraldur (IP-tala skráð) 11.5.2007 kl. 22:32
Hefur ekki einhver orðsnjall maður búið til þetta orð úr risi og prinsessa, risaprinsessa verður að risessa?
Þetta er svo sem ekki galið - nema að ég hef ekki heyrt orð um að þessi tröllastelpa sé af neinni þeirri ætt að hægt sé að tengja hana við prinsessu. Til þess þyrfti faðir hennar að vera kóngur. Það er heldur ekkert konunglegt við þessa tröllastelpu af myndum að dæma þetta er bara tröllvaxin stelpa.
Valdimar Gunnarsson, 11.5.2007 kl. 23:13
Á mínu heimili var talað um fátt eitt annað en risessuna í dag. Þriggja ára hnáturnar fóru niður í bæ að fylgjast með henni og fannst hún meiriháttar. Sex ára stúlkan mín fór með mér niður í bæ áðan og sá hana sofa í stóra rúminu sínu og fannst það magnað. En stóru orðin eru um umerki pabba hennar, risans, þar er eitthvað mikið á seyði. Orðið risessa vandist á sirka einni mínútu og er einstakt fyrir þessa stelpu. Pottþétt hitt...
Hrafnhildur (IP-tala skráð) 11.5.2007 kl. 23:27
Ég googlaði risessa og það kom ekki upp ein einasta franska síða þannig að ég er nokkuð viss um að þetta er ekki franskt heiti á stelpunni. Einu síðurnar sem komu upp voru íslenskar síður sem vísuðu í þessa sömu risessu, svo og finnskar síður. Plús ein á ensku þar sem þetta var í ljóði.
Ég held enn að þetta sé íslensk samsetning á prinsessa og risi, eins og ég sagði í upphaflega blogginu (og mér sýnist Valdimar vera sammála mér þar). Og ég held líka að ef við erum með stelpu sem er risi þá ætti hún ekki endilega þurfa að vera kölluð eitthvað annað, jafnvel þótt hún sé frönsk. Við myndum kalla franskan draug draug jafnvel þótt hann væri franskur.
Kannski á ég bara svona erfitt með að sætta mig við þetta orð því það er svo undarlega sett saman hljóðkerfislega. Orð sem dregin eru af orðinu risi hafa aldrei samsetninguna ris+..., alltaf risa+... Orð með samsetninguna ris+... eru alltaf dregin af orðinu ris. Og kannski er það vegna þess að hljóðkerfislega skiptist þetta í atkvæði þannig að við höfum langt ri eins og sést í ri-ses-sa, og ég held það sé ekki algengt í þriggja atkvæða orðum. Við sjáum það í tveggja atvkæða orðum, ri-si, en takið eftir að prin-ses-sa hefur stutt i. O jæja. Ég ætti ekki að hafa áhyggjur af hljóðkerfisfræðinni.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 12.5.2007 kl. 00:46
Ég held þetta sé rétt hjá þér Kristín :o
Haraldur (IP-tala skráð) 12.5.2007 kl. 23:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.