Kosninganótt
13.5.2007 | 06:19
Það verður að segjast eins og er að það er ákaflega gott að vera sjö tímum á eftir Íslandi á kosninganótt. Klukkan hjá ykkur er að nálgast sex að morgni og enn eru ekki komnar lokatölur úr þremur kjördæmum. Hjá mér er klukkan aðeins um ellefu og þótt ég sé að verða svolítið þreytt þá er nú ekki mikið á sig leggjandi að bíða eftir lokatölum, nema þessi endurtalning í norðvestri dragist marga klukkutíma í viðbót. Ég fór til Gunnars og Suzanne í dag og við fórum í gegnum nokkrar máltíðir. Ja, kaffitíma og kvöldmat. Um hálftíu ákvað ég að fara heim og halda áfram að horfa á útsendinguna í náttfötum. Það var nú aðallega vegna þess að ég bý í vesturbænum og Gunnar í austurbænum og það er býsna löng ferð á milli og tveir strætisvagnar.
Ég er reyndar pínulítið pirruð eins og er því ég næ ekki sjónvarpinu þessa stundina. Þótt það sé frábært að geta horft á útsendinguna í gegnum netið þá er tengingin ekki mjög stöðug. Og ef maður dettur út þá tekur stundum heillangan tíma að komast aftur í gegn.
Bíddu bíddu bíddu. Nú koma upplýsingar um að sjónvarpið sé ekki sent út í beinni eins og er. Á ég að trúa því að þeir séu hættir að senda út? Og enn eftir að koma tölur? Hvurslags þjónusta er þetta við okkur í útlöndum. Við erum þau einu sem erum vel vakandi og þá er útsendingin tekin frá manni. Það er best ég kvarti við rúv.
Ég vona bara að ég vakni á morgun við þær fréttir að stjórnin sé fallin!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.