Ottawa Blues Festival og fleira
8.7.2006 | 06:42
Je minn hvað það er heitt úti. Það hefur reyndar hrunið niður í sautján stiga hita enda er klukan langt gengin í þrjú að nóttu til. Þegar ég athugaði veðrið um klukkan átta í kvöld var hitinn 27 stig. Á morgun á að fara upp í 29 stig með háum útfjálubláum geislum í kringum hádegið. Ég hef reyndar ekkert brunnið lengi enda aldrei of lengi í sólinni en ég er orðin nokkuð útitekin og komin með góðan lit á handleggina og andlitið. Það er bara á því að labba. Ég hef ekkert verið í sólbaði. Enda er það þannig þegar maður býr í landi þar sem sólin er mikil og heitt er úti, þá nennir maður kannski ekkert að vera eitthvað að sóla sig sérstaklega. Það er óþarfi að drekka upp hvern einasta dropa af sól sem fæst, eins og þegar maður býr heima á Íslandi þar sem hver einasta sólstund er dýrmæt.
En sem sagt, það er ógurlega heitt í herberginu mínu, sem er ástæða þess að ég er vakandi núna. Ég ætlaði upphaflega að fara til Montreal á morgun og eyða deginum þar en ég þyrfti að vakna um sex leytið og ef ég sofnaði strax þá fengi ég aðeins um þrjá og hálfan tíma af svefni og það er bara ekki nógu gott. Það þýddi líka að ég sofnaði líklega í lestinni og missti þá að því að virða fyrir mér landslagið á milli Ottawa og Montreal. Það er hugsanlegt að ég fari annað hvort á þriðjudaginn eða miðvikudaginn en þá mun ég eiga frí úr vinnunni.
Í kvöld fór ég á fyrstu tónleika á Ottawa Blues hátíðinni. Sá brot af einhverjum reggí gæja og svo kúbverskri hljómsveit en hlustaði aðallega á band sem kallast Broken Social Scene. Martin heldur því fram að þetta sé besta kanadíska hljómsveitin í dag. Þeir spila alternative pop/rock og nota ýmis óvenjuleg hljóðfæri (fyrir svona tónlist, þ.e.a.s.), fiðlur og trompet. Þetta býr til mjög spennandi hljóm og hljómsveitin er athyglisverð. Við misstum af Great Big Sea sem spilaði á stóra sviðinu á sama tíma en það er augljóslega ekki hægt að heyra allt. Það eru vanalega fjórar hljómsveitir að spila á sama tíma.
Annars hefur allt bara gengið fínt síðan ég bloggaði síðast. Anna, nemandinn minn, komst ekki í skólann í gær né eftir hádegið í fyrradag en John maðurinn hennar kom í staðinn svo ég vann töluvert með honum. Þau hjónin nota mjög mismunandi aðferðir til þess að læra málið, svo það er býsna spennandi fyrir mig að fylgjast með þeim.
Í dag var potluck hjá FLIO (Foreign Language Institute of Ottawa), sem er vinnunveitandi minn, og þar komu saman nemendur og kennarar og átu góðan mat. Nokkrir voru svo með skemmtiatriði. Þetta var mjög skemmtilegt.
Í gærkvöldi fór ég aftur í siglingu. Að þessu sinni vorum við sjö á bátnum. Paul, sem á bátinn með Martin, tók alla sína fjölskyldu með (konu og tvö börn) og vin sinn Derek þar að auki. Það var mjög skemmtilegt. Þetta var allt hið fínasta fólk. Við sigldum að eyju á Ottawa á, köstuðum þar akkerum og héldum veislu. Reyndar fór á sömu leið og síðast. Vindurinn dó á heimleiðinni og við urðum að nota mótorinn. Reyndar var meiri vindur en þegar við Martin sigldum um daginn, en krakkarnir voru orðnir of þreyttir til þess að hægt væri að eyða of löngum tíma í heimferðina.
Jæja, ég ætla að reyna að sofa í þessum hita. Ég ætla að sofa út á morgun - ef dúfurnar á svölunum leyfa mér það. Ég held þær séu að reyna að koma sér upp fjölskyldu. Það er reyndar nokkuð seint í ári til að verpa en sumar fuglategundir verpa tvisvar á ári og þá myndi seinna varp einmitt vera um þetta leytið. Og dúfur eru nógu leiðinlegar til þess að vera vísar til þess að verpa tvisvar. En sem sagt, stefni að því að sofa út. Og svo ætla ég að rölta um, læra kannski eitthvað ef ég helst við inni. Svo kíkí ég kannski niður á Blues svæðið og hlusta á einhverja tónlist þar. Ég ætla líka að fara og leita að vídeóleigu niðri á Bank stræti þar sem er víst gott úrval af erlendum kvikmyndum. Ég vonast eftir því að finna íslenskar myndir svo ég geti sýnt þær í tíma. Það er gott fyrir nemendurnar að hlusta á málið og lesa textann með. En sem sagt, rólegur dagur framundan.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.