Hlýnandi veður

Veðrið stórbreyttist í dag og hitinn fór upp í 24 gráður. Ég fór í skólann í morgun og svo að klifra strax á eftir og var því ekki komin heim fyrr en um hálffjögur. Þá fór ég í stuttbuxur, setti á mig sólgleraugu og settist út á tröppur með skólabók og vatnsbrúsa. Þetta er fyrsti dagurinn sem það er hægt án þess að vera beinlínis í sólinni. Undanfarna daga hefur nefnilega verið fallegt veður en býsna kalt í skugga. Það á hins vegar að kólna aftur á morgun og fara að rigna þannig að þetta var fallegt en stutt sumar.

Núna er hins vegar alveg ótrúlega heitt í íbúðinni. Undanfarna morgna hefur verið svo kalt að ég hef þurft að stinga litla hitaranum í stofunni í samband og svo gjörbreytist þetta á einum degi og maður verður að fækka fötum til að svitna ekki of mikið. Yfir hásumarið þarf ég vanalega að vera með viftu í gangi til að kæla loftið. Maður er víst aldrei ánægður.  

Það er annars búið að slá hjá okkur tvisvar sinnum í vor og nú er í loftinu einhver ofnæmisvaldur. Nefið á mér er alltaf stíflað. Það er kannski ekki skrítið. Allt orðið í blóma og alls konar frjókorn á sveimi. Geitungarnir eru líka komnir á staðinn en enn er nokkuð í moskíturnar. Ég verð hins vegar að fylgjast vel með og setja upp net í gluggana áður en þær verða of óðar. Ég hef stundum þurft að eyða hálfri nóttinni í að drepa moskítur og það hefur töluverð áhrif á svefninn.

Horfði á American Idol í kvöld. Aðeins þrír keppendur eru eftir og þetta er alveg hnífjafnt. Þau þrjú sem eftir eru eru öll mjög góð og stóðu sig vel í kvöld. Ég held samt að Melinda eigi eftir að taka þetta. Hún getur sungið allt og klikkar aldrei. Sorrí Doddi, en Melinda er einfaldlega betri en Jordan - eins og er. Hitt er annað mál að American Idol velur ekki endilega besta söngvarann heldur vinsælustu persónuna. Og þar eru bæði Jordan og Blake sterk. Spurningin er kannski hvað ræður mestu þegar kosið er.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég hlakka til að sjá þáttinn ... geri það væntanlega í kvöld. Ég er í raun sáttur við þessi þrjú sem sigurvegara American Idol ... Jordin er í mikilli sókn og það sem virðist hafa "háð" Melindu (eins asnalega og það hljómar) að hún hefur alltaf verið svo frábær ... á meðan maður hefur tekið eftir framförum hjá hinum. Melinda er frábær en vinsældarlega séð ... ég veit það ekki. 

Þetta verður spennandi en ég hlakka til að sjá þáttinn ... 

Doddi - Þorsteinn G. Jónsson (IP-tala skráð) 16.5.2007 kl. 16:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband