Af hverju í fjandanum er ég í Kanada?
19.5.2007 | 04:53
Af því að það skrifar aldrei neinn í gestabókina mína líða yfirleitt mánuðir á milli þess að ég kíki þangað inn. Nú hef ég hins vegar séð kveðju frá Huldu Magg, gamalli bekkjarsystur minni úr MA þar sem hún vill fá að vita hvað í ósköpunum ég sé að þvæla í Kanada. Það er best ég svari því hér fremur en á gestabókinni sjálfri.
Fyrir um það bil átta árum sá ég auglýsingu um stöðu íslenskukennara í Winnipeg í Kanada. Ég var þá að vinna á Orðabók Háskólans og fannst spennandi hugmyndin að búa í útlöndum um tíma. Ef mér þætti ekki skemmtilegt þá væri það allt í lagi því staðan var bara auglýst til eins árs hvort eð var. Ég var reyndar tiltölulega nýbúin að kaupa mér íbúð og því kannski ekki endilega tilbúin að pakka niður og flytja til útlanda en sótti samt um og ákvað að láta það bara ráðast. Ég fékk stöðuna í byrjun ágúst og hafði mánuð til að pakka niður í kassa, senda dótið mitt til mömmu og pabba, taka bara það sem ég þyrfti á einu ári, ganga frá íbúðinni, finna leigjanda, o.s.frv. o.s.frv. Fyrsta september var ég komin til Kanada, byrjaði að kenna viku síðar og var stuttu síðar beðin um að vera annað ár. Árin urðu fjögur og ég átti mér dásamlegan tíma í Winnipeg. Kynnist fullt af góðu fólki, kanadískri og vestur-íslenskri menningu og þroskaðist og dafnaði ákaflega vel. Bjó megnið af tímanum með ákaflega geðugum, ungum, kanadískum heimspekiprófessor. Þegar það samband leið undir lok ákvað ég að fara eitthvert annað en var ekki tilbúin til að fara heim svo ég sótti um inngöngu í doktorsnám í Vancouver og fékk inn. Ég hafði alltaf hugsað um að fara í frekara nám og þetta var gott tækifæri.
Og þess vegna er ég núna í Vancouver. Ég er að ljúka fjórða ári í doktorsnáminu og er nú að skrifa doktorsritgerðina mína. Það mun taka nokkurn tíma því miklar kröfur eru gerðar til þessara ritgerða. Maður þarf víst að segja eitthvað af viti (haldiði nú)!
Utan við það að vera í skóla reyni ég að fá góða hreyfingu og þá helst með því að spila fótbolta og stunda klifur. Ég reyni líka að komast á skíði af og til enda frábærar brekkur ekki langt frá Vancouver, ég fer út að hlaupa og á sumrin fer ég á línuskauta. Í sumar langar mig að fara oftar á kajak en ég hef gert undanfarin sumur en það er fremur dýrt.
Það er annars dásamlegt að búa í Vancouver. Hér er mildasta veðurfar í landinu (fer varla undir frostmark) og sumrin dásamleg. Af því að borgin er á strönd Kyrrahafsins eru hér frábærar strandir þar sem hægt er að sóla sig á sumrin. Maður þarf ekki að fara til Spánar til að hafa það gott í sólbað. Fyrir norðan og austan borgina eru fjöllin og þar er ótrúlegt útivistarsvæði jafnt sumar sem vetur. Skíði á veturna, fjallgöngur og fjallahjól á sumrin. Og ef hvessir fyllist sundið af seglbátum. Fólk hér er almennt mjög heilsusamlegt og hugsar mikið um hreyfingu, útivist og náttúruna.
Hulda spurði líka hver Martin væri. Hann er vinur minn frá Gatineau í Quebec sem ég kynntist þegar ég vann í Gatineau í fyrra (og bjó í Ottawa). Hann vinnur fyrir kanadíska utanríkisráðuneytið og er því nokkuð fastur fyrir í höfuðborginni. Við höfum verið í fjarsambandi í vetur en það er erfitt að þróa slík sambönd þannig að við verðum bara að sjá hvað gerist í framtíðinni. Annars vita auðvitað þeir sem hafa lesið bloggið mitt undanfarið að ég er laumulega skotin í þjálfara Vancouver í hokkí!!!! Hehe, get ekki staðist þessa Quebec gæja!
Athugasemdir
Bíddu já og þessi ágæta ritgerð þín er eitthvað um hljóðfræði, er það rétt hjá mér, eða hef ég ekki lesið bloggið þitt nógu vandlega?
Pétur Björgvin, 19.5.2007 kl. 08:57
Flott að vita þetta, því sem "nýr bloggvinur" þá er maður eðlilega að læra og lesa meira um þig ... mér finnst þetta frábært hjá þér og óska þér alls hins besta í doktorsritgerðinni.
Kveðjur frá Akureyri!
Doddi - Þorsteinn G. Jónsson (IP-tala skráð) 19.5.2007 kl. 11:27
Pétur, nei, ekki hljóðfræði. Ég hef reyndar skrifað um hljóðfræði og er að vinna að slíkri grein núna með einum kennara mínum, en ritgerðin mín er í merkingarfræði. Ég er að skrifa um svonefnt 'dvalarhorf' (Jón er að lesa) í íslensku og um hvernig við táknum tíma í setningum.
Takk fyrir Doddi, ekki veitir af góðum kveðjum því ég er strax búin að fá leið á að skrifa. En þetta er alltaf eins og rússibani—stundum er maður í skapi til að skrifa og stundum ekki.
Bjarni - Oilers!!!! Hvar voru þeir nú aftur í Stanley Cup í ár?....bíddu, þeir komust ekki áfram!!! Hehehe. Að öllu gamni slepptu. Það er rétt hjá þér að Canucks eru ekki nógu góðir núna. En ég ef fulla trú á að með Vigneault við stýrið muni þeir verða mjög góðir á næsta ári, eða í síðasta lagi árið þar á eftir þegar strákarnir úr Manitoba Moose hafa fengið nóga reynslu til að verða sóttir á slétturnar.
Takk fyrir kveðjurnar strákar.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 19.5.2007 kl. 18:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.