Wilbrod

Wilbrod 455

Ég er loksins búin að taka mynd af húsinu þar sem ég bý. Mér fannst ég yrði endilega að sýna ykkur. Húsið er frá því um 1890, stórt og mikið múrsteinshús með stigum og rangölum út um allt. Ég var kannski búin að segja ykkur það. Húsið er í skemmtilegu hverfi þar sem blandast saman háskólanemendur í Ottawa háskóla og hin ýmsu sendiráð. Á móti mér er til dæmis brasilíska sendiráðið, við hliðina er austurríska sendiráðið og í hverfinu eru Ghana, Mali, Króatía, Rússland og svo framvegis. 

Herbergið mitt er í risinu þar sem gerfi uglan situr. Hún á víst að hræða burtu dúfurnar en ég held að enginn hafi sagt dúfunum það. Tvær búa við gluggann minn. Sem betur fer höfum við samkomulag þar sem þær mega vera þar svo framarlega sem þær þegja. Ef þær byrja að mala þá sussa ég á þær og þær þegja. 

Í gær fór ég aftur á blúshátíðina og horfði að þessu sinni á Michael Franti, Maraccas og Ani DeFranco. Það var mjög gaman. Ani DeFranco er mjög góð. Svolítið eins og blanda af Alanis Morisette og Chantal Kreviatzuk. Michael Franti er svona reggí rokkari og við dönsuðum eins og vitleysingar allan tímann sem hann spilaði. Ég var ekki komin heim fyrr en um ellefu sem var of seint fyrir sunnudagskvöld þar sem ég þarf að vakna klukkan hálfsjö. Enda er ég þreytt í dag. Ég mun hins vegar ekki fá neitt sérstaklega hvíld í nótt því ég ætla bráðum að fara niðureftir og horfa á Sam Roberts og svo verð ég að vakna í fyrramálið fyrir sex því ég ætla að taka rútuna klukkan sjö til Montreal. Hef aldrei komið þangað og er spennt að fara.  Segi ykkur frá Montreal þegar ég kem til baka.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband