Hið besta mál
19.5.2007 | 19:20
Það væri geysilega gott fyrir Ísland að fá fleiri kvikmyndir teknar upp á landinu.
Kvikmyndaiðnaðurinn er geysisterkur í Vancouver og hér er tekið upp nóg af kvikmyndum og sjónvarpsþáttum til að halda stöðugt a.m.k. fjórum kvikmyndagengjum allan ársins hring. Þetta skapar gífurlega atvinnu; ekki bara þeirra sem hafa fullt starf af þessu heldur einnig þeirra sem leika aukahlutverk. Ég hef t.d. kennt náunga (íslensku) sem er ellilífeyrisþegi en fær alltaf svolítinn vasapening fyrir að vera aukaleikari í kvikmyndum og bíómyndum. Þar að auki segir hann að það sé ótrúlega skemmtilegt.
X-files þættirnir voru teknir upp hér á sínum tíma og sama má segja um Stargate seríurnar. Men in Trees þættirnir, sem hafa nýlokið fyrsta ári, voru teknir upp hér (en eiga að gerast í Alaska), Supernatural þættirnir hafa verið teknir upp hér tvö síðustu ár, og nýlega las ég að Criminal Minds þættirnir væru líka teknir upp hér. Og þetta er bara brot. Í vetur sýndu sjónvarpsstöðvarnar bandarísku um 46 sjónvarpsþætti sem teknir voru upp í Vancouver eða nágrenni, og fjöldi mynda sem er tekinn upp hér er hærri en það.
Þetta gerir það líka að verkum að ef maður er á réttu stöðunum getur maður oft séð fræg andlit. Ég er reyndar ekki mikið á réttu stöðunum því réttu staðirnir eru vanalega flottustu veitingahúsin niðri í bæ - sem ég hef ekki efni á að sækja. En stundum sé ég einhvern út á götu eins og ég hef áður bloggað um. Um daginn var ég í kjörbúðinni minni hér í hverfinu og sá þá mann sem líkist ótrúlega einum þessara leikara sem maður sér alls staðar í smáhlutverkum en veit ekki hvað heitir. Ég hef nokkrum sinnum séð hann áður að versla en vanalega ekki hugsað út í það. En síðast þegar ég sá hann þá loksins áttaði ég mig á því að þetta gæti alveg verið sá náungi því hér búa auðvitað fjölmargir leikarar árið um kring, eða í einhverja mánuði á meðan tökur fara fram, og þeir þurfa víst að borða líka. Þannig að leikari í matvöruverslun er ekkert sérlega ótrúlegt. Og ég bý í góðu og notalegu hverfi og ekkert skrítið að leikarar vildu búa hér.
Ég veit reyndar ekki hvaða áhrif ein og ein mynd hefði á kvikmyndaiðnaðinn á Íslandi en ég myndi giska á að ef alla vega tvær þrjár myndir væru teknar upp þar, utan við þær örfáu íslensku myndir sem gerðar eru í landinu, þá ætti það að skapa töluverðan fjölda starfa og ég myndi giska á að nokkrir sem í dag geta ekki lifað af kvikmyndaiðnaðinum, gætu gert þetta að fullu starfi. Landkynningin er auðvitað mikilvæg líka en þá aðeins ef það er nokkuð vel vitað hvar myndin er tekin upp. Það mun ekki hjálpa Íslandi ef fólk veit ekki hvar þessi náttúruundur eru. Það hefur t.d. ekki haft nein sérstök áhrif á ferðamannaiðnaðinn í Kanada hvað margar myndir eru teknar upp hér. Ef myndin á að gerast í Alaska þá heldur fólk vanalega að hún sé tekin upp þar. Allt er að sjálfsögðu gert til að staðurinn sé trúverðugur. Bandaríski fáninn blaktir t.d. oft við hún uppi í háskóla og lögreglubílar merktir 'Seattle Police' keyra fram hjá. Winnipeg er vanalega notuð þegar teknar eru upp bíómyndir sem eiga að gerast í Chicago, o.s.frv.
Sem sagt, ég held það gæti verið mjög gott fyrir Ísland ef fleiri myndir yrðu teknar upp í landinu, en auðvitað vitum við öll að kvikmyndageirinn er fallvaltur og þótt standi til að taka þessa mynd á Íslandi þá er best að trúa ekki of miklu fyrr en liðið er mætt á staðinn.
Stórmynd líklega tekin á Íslandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.