Talað við Bandaríkjamenn
21.5.2007 | 18:35
Ég sá að Bjarni var nýlega að kynna kanadískan húmor fyrir landanum með því að sýna myndband frá Kids in the hall. Eitt það fyndnasta sem ég hef séð í mörg ár var þegar grínistinn Rick Mercer ferðaðist um Bandaríkin og kannaði vitneskju þeirra um Kanada. Vanalega var það þannig gert að hann sagði þeim einhverja vitleysu um landið og spurði svo álits, eða fékk fólkið til að óska Kanadamönnum til hamingju með að hafa loksins breytt hlutunum þannig að þeir samræmdust Bandaríkjunum. Þarna má m.a. sjá hann segja fólki að Kanada hafi aðeins 20 tíma í sólarhring og spyrja hvort þeir ættu að breyta því. Einnig virðist fólk trúa því að ráðhúsið í Kanada sé gert úr ís, að vídeótæki hafi loksins verið lögleidd, o.s.frv. Fyndnast er auðvitað þegar hann talar við George Bush í kosningabaráttunni og biður um viðbrögð við ummælum forsætisráðherra Kanada, Jean Putin. Það fyndna er auðvitað að Putin var forseti Rússlands. Forsætisráðherra Kanada var Jean Crethien og það fyndist manni nú að verðandi forseti Bandaríkjanna ætti að vita. Í lokin er talað um að stór hluti Kanadamanna geti ekki fundið eigið fylki (state) á landakorti (sem hefur verið sagt um Bandaríkjamenn) og grínið hér er auðvitað að Kanada hefur ekki states. Stjórnsýslueiningarnar þar eru kallaðar Province. Það eru bara Bandaríkin sem hafa states (sbr. United States).
Myndgæðin eru léleg í myndbandinu hér að neðan, en hljóðið er fullkomið og það er það sem skiptir máli. Tek það fram í lokin að yfirleitt var Mercer ekki að týna til hvaða fólk sem var á götunni. Flestir sem hann talaði við voru annað hvort á háskólasvæðum hinna svo kölluðu Ivy league háskóla (Harvard, Stanford, Princeton o.s.frv.), svo og stjórnmálamenn (í þessu myndbandi, ekki svo mikið í öðrum þáttum).
Athugasemdir
blessuð,
takk fyrir skemmtunina, hafði held ég séð hluta af þessu, en aldrei er góð vísa of oft kveðin.
Ég held samt að hann hafi verið að kalla forsætisráðherrann Jean Poutine, tilvísun í "þjóðarrétt" Quebec-búa. Allavega finnst mér það ennþá fyndnara.
kveðja af klakanum,
Hildur
Hildur (IP-tala skráð) 21.5.2007 kl. 22:45
Það er alveg rétt hjá þér Hildur að það var tvöföld merking í þessu hjá Mercer, og vissulega er poutine þjóðarréttur Quebec (þótt ég hafi aldrei skilið af hverju fólk vill brúna sósu á franskarnar sínar). Ég held líka að Kanadamönnum finnist það fyndnara, svo og þeim sem þekkja tenginguna. Ég man líka að þegar ég heyrði þetta fyrst þá datt mér poutine í hug áður en ég hugsaði til rússneska forsetans. Á hinn bóginn er frekar hægt að ætlast til þess að Bush viti að forseti Rússlands er Putin, fremur en að hann viti eitthvað um mat í Quebec. Efast að hann viti mikið um menningu annarra landa yfir höfuð.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 21.5.2007 kl. 23:15
Hehe, góð hugmynd. Ég held að það geti verið að þú hafir hitt naglann á höfuðið.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 22.5.2007 kl. 21:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.