Montréal

Montreal

Í gær var frí í vinnunni hjá mér af því að nemandinn fór úr bænum, og ég notaði því tækifærið og skellti mér til Montreal. Ég vaknaði um sex leytið, greip eitthvert dót og rauk út. Var komin á umferðamiðstöðina vel í tæka tíð fyrir brottför klukkan sjö. Ég reyndi að sofa aðeins á leiðinni en það var erfitt. Ég fékk þó einhverja hvíld því ég var þokkalega vakandi allan daginn.

Ég kom inn í Montreal um klukkan hálftíu og síðan tóku við átta tímar af göngu. Þegar ég ferðast ein þá á ég það helst til að labba og labba, stoppa aðeins þegar ég er svöng, og þá gríp ég eitthvað, skelli því í mig og held svo áfram að labba. Þannig að ég náði að sjá ýmislegt. Gekk niður í gegnum latínuhverfið niður í gamla Montreal þar sem ég skemmti mér um stund. Síðan labbaði ég upp St. Laurent, sem sagt aftur í gegnum latínuhvervið og í gegnum Plateau Mont Royal, hvaðan ég labbaði upp fjallið, sem reyndar er ekki nema þokkaleg hæð. Þaðan er gott útsýni yfir borgina. Ég labbaði um "fjallið" um stund og gekk síðan niður að sunnan, í gegnum McGill háskólasvæðið og niður í miðborgina. Þar kíkti ég aðeins í búðir en labbaði svo niður að ráðstefnuhöllinni, jazzhátíðarsvæðinu og svo aftur að lestarstöðinni.

Montreal er býsna falleg borg, en nokkuð blandin. Miðbærinn sjálfur er lítið meira spennandi en Toronto, og ég er ekki mikill Toronto aðdáandi. En gamli bærinn er fallegur og mér skilst að það sé mjög gaman í bæði latínuhverfinu og Plateau Mont Royal. Ég labbaði þar í gegn og fannst gaman en ég held að það séu svæðin til að búa í ef maður býr í Montreal.

Þið vitið hversu lítill heimurinn er. Mér finnst ég alltaf vera að lenda í því að rekast á ólíklegasta fólk á ólíklegustu stöðum. Eins og þegar ég rakst á Trish og Richard frá Victoru í Rideau center í Ottawa fyrsta daginn minn hér. Þau voru á ráðstefnu. í Montreal var ég að labba norður St. Laurent þegar fram hjá mér gengur maður sem vinnur með mér í Asticou. Ég veit ekki hvað hann heitir, við höfum aldrei talað saman en við höfum alltaf brosað hvort til annars þegar við mætumst á göngunum eða sagt hæ. Hann hefur ekki verið í vinnunni undanfarið. Ég held að hann hljóti að búa í Montreal því þegar ég sá hann í strætó þá var hann yfirleitt með tösku með sér á föstudögum og mánudögum, sem benti til þess að hann byggi annars staðar en í Ottawa og kæmi þangað til vinnu. Það er alls ekkert óalgengt. En sem sagt, mér fannst það mjög ótrúlegt að ég skyldi mæta honum þarna á götu í svona stórri borg (1.5 milljón í Montreal sjálfri en um 3.6 í Stórmontrealsvæðinu).

Ég set eina mynd með hér en ef þið viljið sjá fleiri kíkið þá á myndasíðuna mína sem er hér: http://www.flickr.com/photos/stinamagga/

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband