Á tónleikum með Björk

Í gær hélt hún Björk okkar tónleika hér á StórVancouversvæðinu, nánar tiltekið í Deer Lake Park í Burnaby. Á miðanum mínum stóð 5pm svo ég skellti mér í strætó klukkan fjögur og kom því að garðinum um fimm leytið. Þetta er  nokkuð  langt ferðalag sem samanstendur af strætó-lest-strætó-finna leið að garðinum frá stoppistöðinni. Það var risaröð fyrir framan hliðið þegar þangað kom og þegar ég labbaði meðfram röðinni í leit að endanum var kallað í mig. Í röðinni reyndist vera Heidi Maddess, fyrrverandi íslenskunemandi minn. Björk á sviðiHún var ein líka svo ég skellti mér í röðina hjá henni og það reyndist heillaráð því í ljós kom að þótt hliðið opnaði klukkan fimm (reyndar ekki fyrr en tuttugu mínútur yfir fimm) þá hóst ekki upphitunaratriðið fyrr en korter í sjö. En veðrið var fallegt og við sátum þarna í aflíðandi brekkunni og spjölluðum. Ég fékk meðal annars fréttir af Nýsjálendingnum John sem einnig var nemandi minn á sama tíma og Heidi, og sem nú hefur flutt aftur til Nýja Sjálands. 

Korter í sjö steig á sviðið enginn annar en Einar Örn Benediktsson, gamli moli, og ávarpaði lýðinn á alveg ágætri ensku með sterkum íslenskum hreim. Tvær gamlar kerlingar voru ekki langt frá okkur (við Heidi vorum sannfærðar um að þær væru af íslenskum ættum því við eigum erfitt með að trúa því að aðdáendahópur Bjarkar nái eins hátt og aldur þeirra). Þær fengu næstum hjartaáfall þegar Einar og félagar byrjuðu að spila (vissi ekki að hann væri í Gostdigital) enda komu af og til ótrúleg óhljóð af sviðinu sem skáru í eyrun. Ég hafði nú glettilega gaman af. Einar var fyndinn og þótt þetta sé kannski ekki sú tónlist sem ég almennt hlusta á þá fannst mér þetta skemmtilegt upphitunaratriði. Ekki síst þegar maður horfir til sögunnar og sambandsins sem svo lengi hefur verið milli Bjarkar og Einars. Ég varð að segja Heidi frá því þegar ég fór einhvern tímann á 22 með fólki af Gamla Garði og bað um vatn. Einar var að vinna á barnum og fannst alveg ómögulegt að ég drykki bara vatn. Ég sagðist ekki drekka áfengi og mér þætti gos alltaf svo vont úr vél, svo vatn yrði það að vera. Honum fannst það samt alveg ómögulegt svo hann gaf mér sódavatn og seti sneið af sítrónu út í. Mér þótt það mjög sætt af honum (guði sé lof að ég drakk sódavatn).Stína á tónleikum með Björk

Björk steig sjálf á sviðið um átta leytið og hóf dagskránna á Earth Introducers, sem er glettilega gott lag. Takturinn er flottur og erfitt að hreyfa sig ekki með.  Hún skellti sér síðan í Hunter, og síðan tóku lögin við hvert af öðru. Ég hafði aldrei séð Björk áður á tónleikum (nema í sjónvarpi) og verð að segja að hún frábær á sviði. Hreyfingar hennar eru engu öðru líkar og orkan ótrúleg. Það verður líka að segjast að tónlistin er enn betri þegar maður heyrir hana á tónleikum en þegar maður situr heima og hlustar á plötu. Og það er ekki hægt að segja um alla.

Mér fannst brasssveitin alveg frábær og ég held að hluti ástæðunnar fyrir því hversu magnaðir tónleikar þetta voru, hafi einmitt verið hljóðfæraskipanin. Björk hefur greinilega valið góða tónlistarmenn með sér.

Fólkið á svæðinu var töluvert öðruvísi en ég á að venjast. Ég kem ekki alveg orðum af því en það var eins og hópurinn skipist í þrennt. Í fyrsta lagi svona nokkurs konar feral ungmenni (ástralskt heiti yfir ákveðna menningu, sjá hér: http://en.wikipedia.org/wiki/Feral_%28subculture%29). Annars vegar samkynhneigðir. Annað hvort er Björk vinsælli meðal samkynhneigðra en aðrar hljómsveitir sem ég farið að sjá, eða aðdáendur hennar sýna væntumþykju sína betur. Það var alla vega mjög mikið um að tveir strákar eða tvær stelpur héldust í hendur. Í þriðja lagi svona sama einsleita liðið og sést annars vegar. Feral liðið var langskemmtilegast enda dansaði það öðru vísi og klæddi sig öðruvísi (mikið um föt úr náttúrulegum efnum og hárið í dreadlocks). Það var minna um grasreykingar en ég hefði haldið - svona miðað við hvað fólk í Vancouver reykir annars mikið af því.

IMG_8129Margir voru orðnir alveg pissfullir löngu áður en Björk steig á sviðið og voru því kannski farnir að sofa. Þessi á myndinni reis úr rekkju um miðja tónleika, var þá búinn að hvíla sig nóg og hoppaði um um eins og vitleysingur þar til hann tilkynnti að hann væri svangur og hvarf í leit að mat.

Það tók um einn og hálfan tíma að komast heim enda þurfti ég að bíða eftir strætó í 20 mínútur í Burnaby og svo aftur í 10 eða 15 mínútur á Commercial drive. Klukkan var því orðin ellefu þegar ég loksins komst heim og var ég þá bæði köld og þreytt.

En þetta voru hinir skemmtilegustu tónleikar. Skemmtilegast fannst mér að heyra Earth Intruders, Army of Me, Hunter, Declare Independence, Wanderlust og The dull flame of desire (ég held það  heiti það - á plötunni er þetta dúett en hún söng það ein á tónleikunum...eða er ég að rugla saman lögum?).

P.S. Hér má sjá umsögnina um tónleikan úr Vancouver Sun.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Sá Björk einu sinni í Laugardalshöll og það voru ansi skemmtilegir tónleikar. Það hefði verið gaman að vera þarna ... en þvílíkt ferðalag!

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 24.5.2007 kl. 22:33

2 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Ég hef hitt (eða séð eða hitt á) Björk í Vesturbæjarlauginni, hehhe, en ég treysti því þá ekki að hún myndi eftir mér sem þekkti bekkjarsystur hennar þegar þær voru í 12 ára bekk. Svo lágt sjálfsmatið hjá mér ...

Ég hef margoft reynt að spila hana fyrir túristana mína en þeir kunna ekki að meta hana (fyrr en ég syng sjálf It's ohh so quiet).

Berglind Steinsdóttir, 24.5.2007 kl. 22:40

3 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Berglind, mín reynsla var svipuð. Eina skiptið sem ég hef hitt Björk var þegar við vorum saman í sturtu eftir leikfimi í líkamsræktarstöðinni við KR heimilið. Þá var hún orðin vel fræg. Ég passaði mig á að gjóa ekki einu sinni til hennar augunum því maður vill leyfa fólki að vera í friði. Sérstaklega Björk-Ísland á að vera hennar friðland þar sem hún getur farið heim og slappað af án ágangs ókunnugra. 

Kristín M. Jóhannsdóttir, 24.5.2007 kl. 22:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband