Samband mitt við Apple

Í fyrra fór diskadrifið í fartölvunni minni að haga sér illa og ég varð að lokum að horfast í augu við að það var bilað. Svo ég fór að lokum með tölvuna í Apple búðina uppi í skóla og fékk þann dóm að drifið væri búið að vera. Ég varð að fá nýtt, og af því tölvan var orðin eins og hálfs árs varð ég að borga fullt verð fyrir drifið og vinnuna, $425 CA (tæplega 30.000 krónur). Um jólin tók ég tölvuna með mér til Íslands enda nota ég hana fyrst og fremst þegar ég ferðast. Allt gekk vel þangað til ég kom til Ottawa eftir jólin. Þá fór drifið að hegða sér álíka undarlega og gamla drifið. Ég endurræstu tölvuna og allt var í lagi. Ég hélt að þetta væri bara svona PC vandræði - nóg að endurræsa tölvuna og þá allt í lagi. Ég notaði tölvuna mína ekki aftur í þó nokkrar vikur því ég ferðaðist ekkert og þá nota ég bara iMac tölvuna heima. Það kom þó að því að ég ætlaði að spila einhvern tölvuleik í fartölvunni og þá virkaði ekki drifið. ég endurræsti og drifið var í lagi en næst þegar ég reyndi að nota það var allt komið í köku. Tölvan fann ekki einu sinni drifið og ég gat ekki einu sinni tekið diskinn út úr því. Að lokum fór ég með tölvuna aftur í Apple búðina. Þrjár vikur eru liðnar og ég hringdi loksins í búðina í dag til að forvitnast um afdrif tölvunnar. Fékk að vita að drifið væri ónýtt (fékk greinilega gallað drif) og að það hefði aðeins verið þriggja mánaða ábyrgð á því - sem rann út í febrúar. Mér var bent á að hringja í Apple fyrirtækið sem ég og gerði. Þar talaði ég við hinn vænsta mann sem lofaði að sjá hvað hann gæti gert. Hann kom mér í samband við yfirmann og eftir að hafa útskýrt stöðuna, vælt svolítið og spilað út fátækur-námsmaður-kortinu, sagði hann að Apple myndi láta mig fá nýtt drif, mér að kostnaðarlausu. Ég þyrfti bara að borga vinnuna. Ég var ákaflega þakklát og sagði manninum frá því að ég væri ákaflega trúr og dyggur Apple-notandi og ég væri ánægð með að heyra að viðskiptin mín væru virt nóg til þess að þeir væru tilbúnir til þess að sveigja reglurnar aðeins þegar upp kæmu svona sérstök dæmi. Þeir hafa auðvitað bara mín orð fyrir því að tölvan hafi lítið sem ekkert verið notuð á þessu síðasta hálfa ári, en jafnvel þótt ég hefði notað hana daglega ætti drifið augljóslega að endast lengur. Og í raun fór það að hegða sér illa rúmum mánuði eftir að ég keypti það, eftir að ég hafði kannski notað tölvuna fimm sinnum. 

En það er gott að Apple metur trygglyndi mitt við vörumerkið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Kemur enn ein ástæðan fyrir því að næst fæ ég  mér Apple,  hætti þessari áratuga vitleisu og ergelsi með hriplegt kerfi frá B.G.

Guðjón Guðvarðarson (IP-tala skráð) 26.5.2007 kl. 12:56

2 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Flott hjá þér Guðjón. Apple eru æðislegar tölvur. Vertu bara viðbúinn tvennu: 1) Þú gætir farið að elska tölvuna þína. Við makka-fólk erum næstum eins og sértrúarhópur; höfum óvenju sterkar tilfinningar til tölvunnar okkar. 2) Þú munt af og til verða pirraður á því að það eru ekki eins mörg forrit gerð fyrir makkann og stundum er það meira að segja svo að maður getur ekki horft á eitthvað á netinu því það er ekki sett upp fyrir makka. Þetta er þó að verða betra.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 26.5.2007 kl. 15:47

3 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Ég er hér með búin að endurmeta álit mitt á Apple. Hef hatað Makkatölvur (af því að ég kann ekki á þær) en fyrst það er svona gott fólkið sem stendur að fyrirtækinu þá er algjörlega búið að breyta áliti mínu. Fólkið að baki skiptir ótrúlega miklu máli þegar velja á tölvu. Húrra!!!

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 27.5.2007 kl. 12:22

4 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Gurrí, Apple tölvurnar eru alveg yndislegar. Það er mjög auðvelt að vinna með þær (þú þarft bara örfá skref til að skilja næstum allt); þær koma með fjöldamörgum gagnlegum forritum, svo sem til að vinna myndir, vídeó, tónlist, o.sfrv. Og já, reynsla mín af fyrirtækinu hefur verið mjög góð. Þegar ég hef verið að Íslandi hef ég stundum stoppað í umboðinu í  holtunum til að fá hjálp við eitthvað og þeir hafa alltaf verið ofsalega hjálpsamir þrátt fyrir að ég eyði næstum aldrei neinum peningum hjá þeim (því ég kaupi mitt allt úti). Svo eru þeir með hjálparsíðu á vefnum sínum þar sem fjöldi sérfræðinga (starfsmenn og aðrir Makkaaðdáendur) svara öllum manns spurningum. Þar get ég alltaf treyst á að fá hjálp. Þetta er mjög góð vara og gott samfélag þar í kring.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 27.5.2007 kl. 17:37

5 identicon

Hef reyndar ekki reynslu af makkanum síðustu ár, en langaði til að benda þér á þá í Atic á West Broadway og Granville. Er viss um að þeir eiga dót í vélina þína hvaða nafni sem hún heitir, á góðu verði, og dótið sem þeir selja dugir (skrifa hér á 7 ára gamla vél frá þeim sem hefur verið í gangi í ... 7 ár).

Njóttu Vancouver-dvalar.

P.s. ef upp kemur þörf fyrir smá Ísland, þá var lengi vel hægt að fá uppþornað Prins Póló í gömlu umbúðunum á búð rétt fyrir neðan Safeway á 10th avenue. Ef það er ekki birtingarmynd Íslands þá veit ég ekki hvað. D.s. 

Ingimundur Stefánsson (IP-tala skráð) 30.5.2007 kl. 01:45

6 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Takk fyrir ábendingarnar Ingimundur. Manstu nokkuð hvaða búð þetta var sem seldi Prins Polo? Og þú ert að meina Safeway í Point Gray (milli Sasamat og Tolmie), er það ekki? Ég bý einmitt í því hverfi en hef ekki rekist á Prins Polo. Myndi hins vegar gjarnan vilja snæða eitt slíkt núna. Fann pólska búð í Ottawa sem seldi slíkt en hef ekki fundið neina hér.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 30.5.2007 kl. 03:28

7 identicon

Því miður man ég ekki hvað búðin heitir, ég þurfti afskaplega lítið af Íslandi í einu og fór sjaldan :)

En staðsetningin er rétt. Nú svo hlýtur að vera búið að benda þér á Jolly Foods við Second Narrows brúnna, norðan við Fraser. Búðin sú býr til hefðbundna íslenska kjötrétti bráðnauðsynlega, s.s. rúllupylsur og hangikjöt. Bara að biðja þá um að reykja meira og láta hanga lengur . Nú hvað get ég fleira sagt þér, jú það má ekki flytja þorramat íslenskan inn til Kanada, en hins vegar segir USA ekkert mál, og því er oft vel þess virði að fara á annað af tveimur þorrablótum í Seattle (það varð einhvers splittingur í félaginu þar).

En ef þér líkar ekki þorramatur þá verð ég að benda á Indian Candy, hunangsreyktan Coho eða Sockey lax a la indíánar - fæst niðri á Granville Island þegar vertíðin stendur yfir. Það er ekkert, eiginlega ekki einu sinni íslenskur harðfiskur, sem slær nammi indíána við, enda kostar það svipað og harðfiskur! Ef þú átt einhvern tíman leið á eyjarnar fyrir utan Campell River á Vancouvereyju, þá fæst besta nammið hjá innfæddum á Quadra Island. Held reyndar að þeir selji það ekki, en ef tekur með þér krukku af hákarli þá geturðu örugglega gert góðan díl. Svo er ekki verra að spjalla við hann Allan Chikæít indjánahöfðinga í leiðinni - frásagnarvíman ein dugir...

jæja best ég hætti þessu nostalgíukasti áður en ég panta miða vestur.

góða dvöl.

Ingimundur Stefánsson (IP-tala skráð) 30.5.2007 kl. 16:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband