Tvær frábærar bíómyndir

Ég fer ekki oft á vídeóleigu enda vanalega nóg að horf á í sjónvarpinu þegar mann langar að eyða kvöldi fyrir framan imbann. En í dag tók ég þrjár myndir á leigu (af því ég þarf ekki að skila þeim fyrr en á mánudag). Ég er búin að horfa á tvær og fannst þær báðar alveg magnaðar.

Fyrri myndin sem ég horfði á er finnska myndin FC Venus. Það er vel hugsanlegt að hún hafi komist í íslensk kvikmyndahús þar sem myndin fjallar um fótbolta, en ég vissi ekki af henni fyrr en í kvöld. Ég vissi ekki einu sinni að hún væri finnsk fyrr en ég fór að horfa á myndina. Þetta er mynd um eiginkonur karla í sjöundu deildar knattspyrnuliði og veðmál sem þær gera við karlana sína. Konunum finnst líf karlanna snúast of mikið um knattspyrnu og þær fá alveg nóg þegar þær komast að því að karlarnir eru búnir að kaupa miða á leiki í Heimsmeistaramótinu í Þýskalandi og ætla að vera þar í þrjár vikur. Þar með er sumarfríið upptekið, fyrir utan nú peninginn sem þetta kostar. Konurnar stofna því sitt eigið fótboltalið með það að markmiði að spila gegn körlunum síðar það sumar. Veðmálið er að ef konurnar vinna leikinn þá mega karlarnir ekki horfa á eða spila fótbolta framar. Auk þess verða þeir að láta konurnar fá miðana sína. Ef karlarnir vinna verða konurnar að hætta að kvarta yfir fótboltanum og verða þar að auki að borga undir karlana. Karlarnir halda að þetta verði létt verk og löðurmannlegt en þeir vita ekki að ein kvennanna æfði knattspyrnu í mörg ár, besta vinkona hennar er atvinnumanneskja í knattspyrnu (og þarf bara að sofa hjá einum karlanna til að komast í liðið) og þar að auki er pabbi hennar atvinnuþjálfari. Með þetta að vopni, og heilt sumar til að æfa, ná konurnar að komast í býsna gott form. Þetta er ofsalega skemmtileg mynd sem tekur sig ekki of alvarlega. Þarna eru margir góðir brandarar en þess á milli er tekist á við alvarlegri mál. Ég held ég hafi aldrei áður séð finnska mynd sem er ekki eftir Kaurismäki.

Seinni myndin er jafnvel enn betri. Það er kanadíska myndin Bon Cop, Bad Cop. Söguefnið hefur verið margtuggið í bandarískum bíómyndum. Tvær löggur eru látnar vinna saman að máli þrátt fyrir að líka illa hvor við annan. Þá hafa þeir mjög ólíkar vinnuaðferðir. Málið er hins vegar að þessi mynd tekur á þessu allt öðruvísi og ég hreinlega engdist um af hlátri yfir mörgum atriðunum. Í byrjun myndarinnar, t.d. finnst lík sem hangir á skilti sem skiptir Ontario og Quebec. Löggurnar tvær vilja báðar losna við málið (önnur er frá Toronto og hin frá Montreal) og rífast um hvor hluti líkamans eigi að gilda. Þetta leiðir til mjög athyglisverðra atburða sem enda á að líkið rifnar í tvennt. Og nei, þetta er ekki slapstick fyndni, þótt kannski megi lesa það út úr því sem ég skrifa hér. Mikið er gert úr tungumálamuninum þótt báðar löggurnar séu tvítyngdar og skipti stöðugt á milli mála (það kallast CodeSwitching og er mjög spennandi fyrirbæri). Til dæmis er þarna atriði þar sem frankofón löggan er að útskýra blótsyrði fyrir anglófón löggunni og byrjar á flóknum útskýringum um hvað gerist þegar orðið er sett í karlkyn, o.s.frv. Málfræðingurinn í mér hafði hina bestu skemmtun af.

Þessi mynd fékk nær öll kanadísk kvikmyndaverðlaun sem hægt er að fá nú í vetur og margir eru sammála um að þetta sé besta  kanadíska mynd sem gerð hafi verið (betri en Porky's hehe). Ég hef auðvitað ekki séð það margar kanadískar myndir, en ég get trúað því að þetta sé rétt. Eina myndin sem kannski kemst nálægt þessari er Rauða Fiðlan sem gerð var fyrir sirka tíu árum. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband