Sýningar og sjávarútvegur
27.5.2007 | 17:53
Í dag ætla ég niður í bæ á matarhátíð. Þar eiga allir bestu kokkar Vancouver að vera til að kynna veitingastaði sína (þar á meðal Iron Chef Rob Feenie), vörur verða kynntar, smökkun verður í gangi ofl. ofl.
Það er oft gaman að svona kynningum og fólk ótrúlega sækið í þær. Ég man bara hversu margir komu alltaf á sjávarútvegssýningarnar í Reykjavík, þótt fæstir stæðu í kaupum á trollum eða utanborðsmótorum. Ég fór þangað alla vega tvisvar því ég var að vinna fyrir frænda minn og frænku sem voru þar með bás. Ég man líka hvað ég varð pirruð þegar ég fékk pásu og labbaði um svæðið til að skoða uppá hvað aðrir byðu (og í leit að æti). Af því að ég var ekki miðaldra karl með bindi var ég vanalega hunsuð. Mér finnst það auðvitað ekkert óeðlilegt - það var alveg augljóst að ég ætlaði ekki að kaupa fiskleitartæki. En mér sárnaði nú samt. Ég hefði vel getað verið upprennandi útgerðarmaður. Pabbi átti t.d. einu sinni trillu sem hann seldi ári áður en kvótinn var settur á (fjandans!).
Annars hefur öll fjölskyldan meira og minna verið tengd sjávarútvegsiðnaðnum. Báðir afar mínir, pabbi og elsti bróðir minn voru/eru sjómenn (svo og föðurbróðir minn og móðurbróðir minn og alla vega tveir langafar). Afi, föðurbróðir minn og ég unnum öll við netagerð (ég bara í eitt sumar), Pabbi, mamma, ég og allir bræður mínir, auk elsta bróðursonar míns höfum öll unnið við Slippstöðina á Akureyri og þar náð yfir jafnmargar atvinnugreinar og trésmíði, vélsmíði, plötusmíði, rafvirkjun, lagervinnu, skrifstofustörf, veitingastörf og almenna verkamannavinnu. Mamma vann að auki í frystihúsi, eins og mágkona mín, og afar mínir, ömmur og pabbi unnu öll við síldina á Siglufirði. Við höfum því komið að næstum öllum greinum sjávarútvegs - nema að eiga kvóta!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.