Þátturinn eftir hádegið
28.5.2007 | 02:31
Þegar ég var bara pínulítið skott drógum við Gunni bróðir stundum fram gamla segulbandstækið hans pabba (þetta með stóru spólunum sem maður þræddi saman) og bjuggum til okkar eigin útvarpsþætti. Sumir þessa þátta eru enn til á bandinu og það er alveg stórskemmtilegt að hlusta á þá.
Vinsælastur var Þátturinn eftir hádegið með Jóni Gunnlaugssyni. Fyrir þá sem ekki muna var þetta einn af þeim þáttum þar sem hlustendur gátu hringt inn og beðið um óskalag. Af því að þurfti að fara og finna viðkomandi lag í plötusafni útvarpsins spjallaði Jón við gesti á meðan og í minningunni voru þetta helst spurningar um hvað viðkomandi borðaði í hádegismat (þátturinn var jú eftir hádegið). Alla vega voru þættir okkar Gunna þannig. Gunni var Jón og ég var hlustendur. Svo hringdi ég inn og bað um lag, og á meðan Gunni þóttist leita að því spurði hann mig hvað ég borðaði í hádeginu, og hvað ég héti o.s.frv. Hugmyndaflug mitt var nú ekki meira en svo að ég hét vanalega Jóhann (sem er nafn pabba - og var þá auðvitað uppáhalds strákanafnið mitt). Ég borðaði svo kannski graut eða rúgbrauð. Eftir smáspjall söng Gunni lagið og var ekki endilega að vanda sig. Eitt af þeim lögum sem ég bað mikið um var lagið Pétur af öllum pissaði, sem Gunni söng fyrir mig af ánægju. Textinn var svona:
Pétur af öllum pissaði
pungurinn á honum rifnaði
saumað'ann saman með seglgarni
sárt er að koma við hann.
Ég fékk líka stundum að heyra útgáfu af Jamaican Farewell sem var á þessa leið:
Eitt sinn kom til mín yngismær
með loðnar tær, hún bað mig að kyssa þær.
Ég gerðist bráður og beit þær af,
biddu fyrir þér þær voru eitraðar.
Á einni upptökunni höfum við snúið við hlutverkum og ég fæ að vera Jón Gunnlaugsson. Gunni biður þá um lagið 'How do you do', sem var vinsælt 1971 með hollenska dúóinu Mouth and MacNeal. Fyrir nostalgíusakir set ég þetta lag inn hér að neðan og þið sem eruð komin um eða yfir fertugt ættuð að muna eftir því:
Það skal tekið fram að á upptökunni geri ég laginu býsna góð skil þótt ég hafi varla verið nema fimm eða sex ára og að greinilega séu þarna nokkur ár liðin frá því lagið var sem vinsælast (þar sem ég var bara tveggja ára 1971).
Á einni upptökunni má líka heyra Geira bróður koma inn í herbergið, stríða okkur eitthvað og hlæja svo (þótt hláturinn virðist uppgerður). Þetta er alveg hrikalega fyndið vegna þess að Geiri er í kringum fjórtán ára þarna og í mútum. Röddin er því þessi fyndna brostna rödd sem einkennir stráka á þessum aldri. Gunni, sem er ári yngri, var ekki byrjaður í mútum og hafði því enn krakkarödd á þessum upptökum.
Mér þykir alveg ótrúlega skemmtilegt að hlusta á þessar upptökur og hálföfunda krakka í dag sem síðar meir geta fengið að horfa á æsku sína meira og minna á vídeói - meira að segja fæðinguna.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.