Í nafni trúar

Ég hef verið að horfa á sjónvarpsþættina um Elísabetu fyrstu, með Helen Mirren og Jeremy Irons í aðalhlutverkum (stórleikarar bæði tvö). Nýlokið er atriðinu þar sem María Stuart Skotlandsdrottning er hálshöggvin. Ég get ekki annað en hugsað um hversu margt slæmt í veröldinni er afleiðing af því að fólk getur ekki þolað öðrum að hafa aðrar trúarskoðanir. Hversu margir hafa verið drepnir í nafni Guðs?

Fyrir nokkrum árum hringdi í mig vottur Jehóva og spurði mig: Finnst þér ekki hræðilegt hversu mikið er um stríð í veröldinni? Jú, sagði ég, vissulega. Þá sagði hann: Veistu, að trúin getur hjálpað okkur að binda enda á þessi stríð. Ég gat ekki annað en svarað (og var ekki að reyna að vera fyndin): Mér sýnist trúin hafa skapað flest þessi stríð.

Ég uni öðru fólki þess vel að vera ekki sammála mér um trúmál. Af hverju geta aðrir það ekki? Trú á að vera fólki til huggunar, á að vera af hinu góða. Ekki að skapa dauða og skelfingu.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Brattur

Hver er eiginlega tímamunurinn á milli okkar? Var að reyna að átta mig á klukkunni á færslunni þinni, en er bara hálf vaknaður og heilinn alveg dofinn... Já, varðandi trúna, þá spyr maður sig stundum af hverju öll þessi stríð og fórnir í nafni hennar? Það er eiginlega fátt heimskulegra. Ég er sjálfur "hálf trúlaus" hvað Guði varðar, en hef þó trú á það góða í manneskjunni.

Brattur, 28.5.2007 kl. 09:03

2 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Tímamismunurinn er annað hvort sjö eða átta klukkutímar. Ég ruglast alltaf í þessu af því Ísland breytir ekki klukkunni. 

Kristín M. Jóhannsdóttir, 28.5.2007 kl. 15:12

3 Smámynd: Magnús V. Skúlason

Endilega kynntu þér starf www.sik.is til þess að sjá það góða sem trúin leiðir af sér!

Magnús V. Skúlason, 31.5.2007 kl. 16:56

4 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

ó ekki misskilja mig. Ég sagði aldrei að það væri ekki  margt gott sem trúin leiddi af sér. Ég á sjálf vini sem væru illa staddir í dag ef þeir hefðu ekki leitað til trúarinnar. Það eina sem ég sagði var að það væri hræðilegt hversu margt illt hefði verið gert í nafni trúarinnar.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 31.5.2007 kl. 22:19

5 Smámynd: Magnús V. Skúlason

Umræðan hinsvegar snýst alltaf upp í það að trúin sé sök allra helstu stríða mannkynssögunnar og slíkt er ekki umræðunni til framdráttar. Trúin sem slík er ekki völd þessum spellvirkjum, heldur eru það menn með miður ógeðfelld markmið og skoðanir á bakvið sig.

Ég held að við séum alveg sammála um það trúin sé góð og leiðir gott af sér og best sé að trúin sé þekktari af þeim verkum.

Magnús V. Skúlason, 2.6.2007 kl. 12:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband