Moskíturnar komnar á stjá
30.5.2007 | 03:42
Jæja, þá er moskítótímabilið byrjað. Í kvöld labbaði ég niður á Alma til að skila vídeóspólu og náði mér í eitt moskítóbit á upphandlegginn. Og núna sá ég eina inn í stofu. Á meðan ég fór að sækja flugnaspaðann hvarf hún mér sjónum en ég mun hafa augun opin. Vona að ég finni hana áður en ég fer að sofa því annars veit ég hvernig nóttin verður: Ég reyni að sofa, þegar ég er um það bil að sofna heyri ég suð við eyrun. Ég kveiki ljósin og fer að leita að moskítunni. Finn hana ekki. Fer aftur að reyna að sofa...og svo hefst leikurinn á ný. Í fyrra eyddi ég einu sinni bróðurpartinum af nóttunni í að drepa moskítóflugur. Veit ekki hversu mörg morð voru framin þá nótt en dugði ekki til fyrr en um fjögur leytið um morguninn.
Ég verð að fara að tjasla saman heimatilbúna flugnanetinu og festa það á gluggana með teiknibólum (hér í Vancouver eru nær aldrei flugnanet fyrir gluggum, ólíkt Winnipeg). Gallinn er að það er ekki auðvelt að opna og loka gluggum þegar búið er að koma slíku verki upp. Og það er enn of kalt á morgnana til að hafa gluggana opna allan sólarhringinn. Vona að hlýni fljótt svo ég geti leyst moskítuvanda minn.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.