Tveir nýir sjónvarpsþættir
31.5.2007 | 06:13
Ég horfði á tvo nýja sjónvarpsþætti í kvöld. Flestar vetrarseríurnar eru komnar í sumarfrí og þá reyna sjónvarpsfyrirtækin að halda áhorfendum föngnum með nýjum sumarseríum. Slíkar seríur hafa af og til slegið í gegn en oftar en ekki hverfa þær eftir eitt sumar.
Fyrri þátturinn sem ég horfði á kallast Hidden Palms. Hugsið OC, bara verra. Þetta er um ríkan unglingsstrák sem flytur til Palm Springs með mömmu sinni og nýjum stjúpföður. Pabbi stráksins drap sig og sjálfur var strákurinn kominn á kaf í eiturlyf og drykkju. Strax fyrsta daginn kynnist hann nágrannastráknum sem hefur óhreint mjöl í pokahorninu, og nágrannastelpu sem hegðar sér eins og skógardís, hlaupandi í hvítum sumarkjól innan um úðarana á golfvellinum sem liðið býr við. Hún á hins vegar líka dimma fortíð sem tengist dauða kærasta hennar. Þetta var alveg ótrúlega lélegur þáttur með leiðinlegum karakterum, fullur af klisjum og ótrúverðugri rómantík. Það er nokkuð ljóst að ég mun ekki fylgjast með þessum þáttum.
Hin serían byrjar mun betur. Hún heitir Traveler og er tvo stráka sem leigðu saman hús, ásamt þeim þriðja, á meðan þeir voru í framhaldsnámi í háskóla. Að námi loknu ákveða þeir að keyra þvert yfir Bandaríkin áður en þeir þurfa að fara að vinna fyrir sér. En þeir komast ekki lengra en til New York. Þar virðist sem þriðji félaginn hafi leitt þá í gildru því áður en þeir vita að þér eru þeir eftirlýstir fyrir hryðjuverk (fyrir að sprengja upp listasafn). Við tekur þvílíkur eftirleikur þar sem ekki bara FBI er á eftir þeim heldur einhverjir aðrir líka - hugsanlega þeir sem standa á bakvið sprengjurnar. Fólk hrynur niður í kringum þá og þeir geta ekkert gert nema reyna að bjarga sér. Tveir þættir voru sýndir í kvöld og ég sat límd við sjónvarpið. Ég er hrædd um að ég muni eiga stefnumót við imbann á miðvikudagskvöldum.
Mín skilaboð til íslenskra sjónvarpsstöðva: Krækið í Traveler en sleppið Hidden Palms.
Athugasemdir
Vá, en spennandi. Þótt ég fylgist með sápuskelfingunni þarna B&B fyrir bloggvini mína hef ég aldrei getað horft á OC. Ef þessi fyrrnefndi er líkur OC og verri þá á hann ekki séns hjá mér. Líst óhemjuvel á þann seinni, vona að hann komi til Íslands. Takk fyrir að láta vita.
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 31.5.2007 kl. 08:08
Allt er þetta menning. Það er kannski alveg jafn mikilvægt að fylgjast með lágmenningunni eins og hámenningunni. Einhvernveginn verður maður/kona að núll-stilla.
Þorbjörg Ásgeirsdóttir, 31.5.2007 kl. 08:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.