Flugnanet, moldarryk og rökfræði

Í gær negldi ég flugnanet fyrir eldhúsgluggann eftir að stærsti geitungur sem ég hef nokkurn tímann séð flaug inn til mín. Ég greip skordýrasprey og lét vaða á kvikyndið sem hrundi niður og flaug ámáttlega yfir að eldavélinni og hálfdatt ofan í helluna (þessi hringaða af gamla taginu). Það kvarflaði að mér að kveikja undir en ég vildi ekki eldaðan geitung svo ég lét það ógert. Greip í staðinn handfylli af tissjú og þegar ég náði góðu lagi (þ.e. þegar flugan var ekki lengur á hellunni) marði ég hana með tissjúnni og skellti svo öllu í ruslið. Þetta var hins vegar flugnanetið sem ég hef vanalega í svefnherberginu á sumrin svo nú verð ég að fara út í búð og kaupa net fyrir svefnherbergisgluggann því þess verður varla langt að bíða að ég þurfi að fara að sofa með gluggann galopinn.

Nú er búið að hreinsa spýtnabrakið við hliðina á mér og farið að grafa grunn að nýja húsinu. Það hafa sem sagt verið hávaði og læti hér í allan dag og stundum svo að húsið mitt skelfur. Ég sem hafði hugsað mér að grilla kannski í kvöld. Af því verður ekki því hér er moldarryk og drulla. Það er ekki einu sinni hægt að sitja úti í garði fyrr en þessu lýkur sem vonandi verður fljótlega. Ég var reyndar í skólanum í morgun þannig að þetta angraði mig ekki þá, og ég hefði líklega átt að grípa bók og fara niður á strönd þegar ég kom heim úr skólanum. ég er hins vegar að hugsa um að fara með Marion á eftir að horfa á manninn hennar spila ultimate leik. Hann hefur verið að reyna að fá mig til þess að ganga í liðið. Ég hef aldrei spilað ultimate en þá vantar svo sárlega stelpur að þeim er alveg sama þótt ég hafi enga reynslu. Það er hugsanlegt að ég spili með þeim þegar fótboltinn er búinn í lok júní því þá þarf ég að finna mér eitthvað að dunda mér við.

Á þriðjudaginn fer ég í þriðja prófið í rökfræðinni. Mér hefur gengið vel hingað til; fékk 38 af 40 mögulegum úr fyrsta prófinu og 40 af 40 mögulegum úr því næsta. Prófið á þriðjudaginn verður hins vegar mun erfiðara því við þurfum að gera afleiðslur og ég hef aldrei séð þær áður. Þetta er svona eins og munurinn á venjulegum stærðfræðidæmum annars vegar og sönnunum hins vegar. Við þurfum í raun að sanna afleiðslurnar okkar. Þetta er mjög stærðfræðilegt, nema skemmtilegra. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband