Morgunsvefninn rofinn
1.6.2007 | 15:32
Ég er vitlausari en ég lít út fyrir að vera. Ég sver það. Ég hélt í einfeldni minni að af því að svefnherbergið mitt er í austari hluta hússins, og grunnurinn sem er verið að grafa er vestan við mig, þá myndi ég ekki vakna þegar byrjað yrði að vinna í morgun. Doh! Hálfátta komu vélarhljóð og einhver undarleg högg, sem reyndust vera þegar grafan rakst á stórgrýti, í gegnum drauma mína og það var ekki hægt að hunsa þetta lengi. Ég reyndi auðvitað að gera þessi hljóð hluta af draumunum en það gengur ekki endalaust. Ég varð að játa mig sigraða og fara á fætur.
Þið vorkennið mér sjálfsagt ekkert að þurfa að skríða á lappir um hálfátta leytið, enda þið sjálfsagt farin að vinna á þeim tíma, en ég vinn heima og þarf því ekki að fara neitt. Svo mér þykir ákaflega notalegt að sofa til átta. Lesa svo blaðið í rólegheitum til níu og fara þá að vinna. Í dag fór þetta allt í köku því í stað þess að borða morgunverð og lesa blöðin fór ég að lesa bloggsíður og svo að skrifa þessa færslu. Sko, svefninum er rótað og þá hrynur allt.
En nú ætla ég að fara og fá mér kaffi, hálfa beyglu og fulla skál af ávaxtasalati (melónur, ananas, vínber - jamm).
Athugasemdir
Ég vorkenni þér mikið! Án gríns! Ekki vildi ég vakna svona, but then again ... þá sef ég yfirleitt mjög fast. Vakna spengilegur við vekjaraklukkur hvenær sem er og snooza í hálftíma eða svo ... vaknaði í morgun kl. 7:00, fór að vinna kl. 8:00. Annan hvern virkan dag í sumar vinn ég 8-17 og hina 12-19, sem þýðir auðvitað lengri svefn á þeim dögum - en ég er vanur að vakna samt um 9-leytið þá.
(psst: skerðu niður ávaxtasalatið kvöldið áður eða bara jafnóðum?)
kveðjur frá Akureyri hinni fögru!
Doddi - Þorsteinn G. Jónsson (IP-tala skráð) 1.6.2007 kl. 16:24
Það er rétt hjá þér, ekki skemmtilegt að vakna við hávaða. Best að maður líði inn í morguninn þegar maður er tilbúinn til þess að vakna. Ég bý til ávaxtasalatið áður. Kaupi ávexti á svona fimm daga fresti, sker niður, set í vel lokaða skál. Ótrúlega hollt og gott og ferskt. Hef tvær tegundir af melónum, vanalega vatnsmelónu og canteloupe (hvað sem hún heitir á íslensku). Nota honeydew þegar ég finn góðar slíkar (þær eru þó bestar vafðar í prociuttio-hráskinku). Sit stundum fyrir framan sjónvarpið og sker niður ávexti. Orðin ótrúlega leikin með ananasinn.
Ég er annars að hlusta núna á tónlistina úr Amelie, sem ég nefndi við þig áður. Ótrúlega flott tónlist.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 1.6.2007 kl. 16:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.