Mikilvægi gúmmíhanska
3.6.2007 | 06:54
Þetta hefur verið góður dagur. Við höfðum okkar árlega grillpartý í fótboltanum sem hófst á hádegi leik gegn eiginmönnum, kærustum og vinum. Við höfðum tveimur fleiri stelpur en stráka en það veitti ekkert af því sumir þessa stráka eru feikna góðir og allir nema einn spila fótbolta reglulega. En rétt eins og í fyrra stóðum við í þeim og leikurinn endaði með jafntefli. Við vorum býsna stoltar af okkur. Og eiginlega ættum við að spila meira á móti strákunum því ef við lærum að leika á strákana þá getum við tekið hvaða stelpu sem er í fjórðu deild.
Við spiluðum í venjulegan tíma, 2x45 mínútur og fórum svo sveitt og þreytt heim til Daves þjálfara og Lucy konu hans þar sem við átum langt fram á kvöld. Klukkan er að nálgast miðnætti og ég er nýkomin heim. Reyndar tekur næstum klukkutíma að keyra alla leið vestur í bæ úr New Westminster þar sem Dave og Lucy búa. En þetta var mjög skemmtilegt. Margt var rætt og mikið hlegið.
Sonya átti bestu söguna svona undir lokin þegar flestir voru farnir heim. Fyrir rúmri viku lokaðist hún inni í lyftu í tæpa tvo tíma. Alein. Það versta við þetta var að hún var alveg að pissa á sig þegar hún fór í lyftuna. Hún var sífellt að hringja í viðgerðarmennina og biðja þá um að flýta sér nú í guðana bænum en það tók sinn tíma að komast á staðinn. Að lokum gat hún ekki meira því hún var komin í keng á gólfinu. í töskunni sinni er hún alltaf með svolítið sjúkraskrín og í því eru gúmmíhanskar. Sonya vippaði sem sagt út öðrum gúmmíhanskanum og pissaði í hann. Þetta vakti mikla umræðu og við komumst að því að nú væri klósettvandamál liðsins leyst. Á veturnar þegar klósettin á völlunum eru læst, þá munum við bara rífa fram gúmmíhanska og gera okkar þarfir í þá. Minnst mál. Nú mæli ég með að allir fari að ferðast um með gúmmíhanska í töskunni.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.