Hvað hefur orðið um sjómannadaginn?
3.6.2007 | 18:11
Hvað er eiginlega að gerast með sjómannadaginn? Ég var að tala við mömmu og pabba og þau sögðu mér að það hefði akkúrat EKKERT verið um að vera á Akureyri. EKKERT. Engin róðrakeppni, engin sundkeppni, engar ræður, ekkert. Og ekkert á Dalvík, ekkert á Árskógssandi.
Þegar ég var barn var sjómannadagurinn einn skemmtilegasti dagur ársins, ja eiginlega skemmtilegasta helgi ársins. Á laugardeginum var vanalega róðrakeppni. Ég mætti með pabba áður en keppnin byrjaði og hann tók rúðurnar úr glugganum á skipaafgreiðslunni á Torfunefsbryggjunni og þar var starfræktur veðbanki. Keppt var í þremur flokkum; sjómenn í einum flokki, landmenn í öðrum og konur í hinum þriðja. Fyrst var keppt á tveimur bátum, Eldingu og Leiftri, en síðan var Blossa bætt við og enn síðar fjórða bátnum sem ég veit ekki hvað heitir...Funi? Þetta var æsispennandi og allir komu til að horfa. Ég fékk alltaf ís þennan dag. Um kvöldið var svo haldið ball.
Á sunnudeginum var haldin skemmtun uppi í sundlaug með keppni í björgunarsundi, stakkasundi, reiptogi, koddaslag og fleiru. Auk allra ræðnanna. Þá voru líka sjómenn heiðraðir fyrir þeirra störf. Þetta var alltaf skemmtilegt.
Það er eins og verkamenn skipti engu máli lengur, sjómenn skipta engu máli...bráðum verða þessir dagar lagðir niður og í stað farið að halda upp á bankadaginn. Fjármálamennirnir virðast vera þeir einu sem skipta máli í dag.
P.S. Við þetta má bæta að áhöfnin á Akureyrinni var víst heiðruð í gær þannig að dagurinn er ekki alveg gleymdur.
Athugasemdir
Ég hef nú ekki hjólað um allan bæinn en ég hef samt farið út og ekkert orðið var við neitt. Mamma var á ferðinni í gær og í dag ... ekkert orðið vör við neitt. Skrítið.
Vona bara að Júlli sprengi upp gleðina með frábærum Fiskidegi í ágúst ... en mér þætti gaman að vita af hverju dagurinn er ekki haldinn hátíðlegur núna ... hefur það eitthvað með kvóta eða svoleiðis að gera? (ég veit það ekki, ég hef ekki kannað það).
Bestu kveðjur frá Akureyri,
Doddi
Doddi - Þorsteinn G. Jónsson (IP-tala skráð) 3.6.2007 kl. 19:13
Það er víst til svar við þessu. Það hljóðar einhvern veginn svona: Leitað var til útgerðarfyrirtækja um fjármögnun og þau höfðu ekki áhuga. Og ef ég man rétt ætlar einmitt Brim að einbeita sér að fiskideginum mikla í ágúst.
Reyndar heyrði ég viðtal við Akureyri í morgun þar sem einhver staðkunnugur sór þess dýran eið að það yrði svo mikið húllumhæ að ári að annað eins hefði ekki sést. Hann ætlaði að standa fyrir því sjálfur ef þyrfti - en því miður man ég ekki nafnið.
Og mig grunar að hátíðahöldin hafi verið látin niður falla í nafni hagræðingar!
Berglind Steinsdóttir, 3.6.2007 kl. 21:11
Ah. Nú er ÚA auðvitað ekki lengur í eigu Akureyrarbæjar heldur í einkaeign og þá skipta svona hlutir auðvitað engu máli lengur. Allt gengur út á að græða sem mest. Ég skil það svo sem alveg. Ef maður kaupir fyrirtæki vill maður að því gangi vel og maður vill ekki setja peninga í að viðhalda menningu bæjarins - ekki á manns verkahring. En þetta sýnir bara vel hvað gerist þegar við einkavæðum allt.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 3.6.2007 kl. 21:36
Einu sinni voru það sjómenn sem mestar mætur voru á í okkar samfélagi en nú eru það bankamenn. (menn og aftur menn). Kannski ættum við að halda bankamannadag og sjá hvort þá yrðu ekki einhver hátíðarhöld.
Halla Rut , 4.6.2007 kl. 00:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.