Óíþróttamannsleg framkoma
4.6.2007 | 18:52
Ég þoli ekki óheiðarleika í íþróttum. Í gær spiluðum við gegn ríkisbubbastelpunum í West Van Screamers (ríkisbubbar af því að West Van er langríkasta borgin á svæðinu). Heimavöllurinn þeirra er gervigrasvöllur og það er töluvert erfitt að spila á slíkum þegar maður er ekki vanur því. Boltinn skoppar öðru vísi, hann rúllar öðruvísi, o.s.frv. Einhverra hluta vegna eru allir þeirra leikir á þessum velli, sem þýðir að þær þurfa aldrei að spila á öðru. Þær hafa því ás upp á hendi gegn hverju einasta liði sem þær spila gegn. Þar að auki virðast þær allar nýfermdar (en hljóta þó að vera alla vega nítján því þú mátt ekki vera yngri í þessari deild). Við gætum verið mömmur þeirra. Allt er þetta fyrirgefanlegt. Það sem er ekki fyrirgefanlegt er hegðun þeirra. Þær komust upp með allan fjandann. Í hvert skipti sem ég reyndi að komast fram hjá varnarmanni, t.d. gripu þær um handlegginn á mér, eða ýttu mér burtu með hendinni (sem auðvitað er harðbannað). Ein þeirra hrinti mér afturábak svo ég lenti á rassinum. Önnur (sem er mikið stærri en ég) ýtti á axlirnar á mér við innkast svo ég hálfhrundi niður. Litlu síðar þegar ég hljóp fram hjá henni (og boltinn ekki nálægt) þá ýtti hún á mig. Sú sama tók ekki í höndina á mér þegar við þökkuðum fyrir leikinn í lokin. Og samt gerði ég henni ekki neitt. Öll brotin okkar á milli voru hennar. Þar að auki suðuðu þær og skömmuðust í dómaranum ef við dirfðumst að taka á móti þeim. Ein þeirra braut á Meghan en dómarinn sá það ekki svo Meghan ýtti á móti, og þá lét hin sig fljúga áfram. Ég var ekki nálægt en þær sem voru það sögðu að Meghan hefði varla snert hana. Út á þetta fengu þær aukaspyrnu, þrátt fyrir að ekkert hafi verið sagt við hennar broti örfáum sekúndum fyrr. Og svona höguðu þær sér þrátt fyrir að þær hefðu unnið leikinn 4-0. Hvernig hefðu þær verið ef þær hefðu verið að tapa? Svona á ekki að sjást í fjórðu deild. Þessi deild er fyrst og fremst fyrir konur sem vilja leika sér og fá smá æfingu í leiðinni. Ef þú vilt spila af hörku, farðu þá upp um deild. Við höfum heyrt að þessar stelpur vilji ekki fara upp vegna þess að munurinn er töluverður á þriðju og fjórðu deild, og þær myndu tapa leikjum ef þær færu upp. Og nei, þetta er ekki eins og á Íslandi þar sem þú ræður engu um það í hvaða deild þú ert (nema getunnar vegna). Þær hefðu getað farið upp núna í vor.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.