Framhaldssagan um fartölvuna

Þeir sem kíkja hér inn reglulega muna kannski eftir því að ég þurfti að fá nýtt geisladrif í fartölvuna mín eftir að hafa keypt nýtt í nóvember og varla notað það áður en það nýja hætti að virka. Eftir langt samtal við Apple hér í Kanada lofuðu þeir að láta mig hafa nýtt drif án kostnaðar. Það eina sem ég þyrfti að borga væri vinnan í Applebúðinni uppi í UBC. Ég hringdi í þá og sagði þeim að þeir mættu panta nýtt drif sem Apple myndi borga og ég þyrfti bara að borga þeim. Þeir lofuðu að rukka mig aðeins fyrir klukkutíma vinnu þar sem ég hafði þurft að bíða svo lengi. Klukkutíma vinna með skatti myndi vera um sjö eða átta þúsund krónur (heldur meira en ég fæ í tímakaup). Í dag hringdu þeir loksins og sögðu að tölvan væri tilbúin og ég mætti koma og sækja hana. Ég skellti mér upp í skóla, komst inn rétt fyrir fimm (lokun) og fékk loksins reikninginn: $0. 

Þeir enduðu sem sagt á því að láta mig ekki borga neitt. Mér finnst það reyndar sanngjarnt að þeir sjái um þetta þar sem þeir létu mig ekki fá réttar upplýsingar á sínum tíma (sögðu mér aldrei hve löng ábyrgð væri á drifinu sem ég keypti), en ég bjóst samt ekki við því að þeir myndu ekki láta mig borga neitt.

Niðurstaðan úr öllu þessu geisladrifsævintýri er sem sagt sú að Apple fyrirtækið og Apple söluaðilinn sáu í sameiningu um að greiða fyrir allt og ég slepp við að borga krónu. Ég þurfti reyndar að vera án tölvunnar í rúmar fimm vikur en af því að ég er með iMac tölvu heima þýddi það aðeins að ég varð að vinna alla tölvuvinnu heima og gat aðeins tekið með mér bók á kaffihús, eða pappír og penna.

 

Það er byrjað að byggja húsið við hliðina. Þrír karlar búnir að vera að berja nagla í allan dag. Einn þeirra er býsna myndarlegur en hann er alltaf með sígarettu í kjaftinum sem gerir það erfitt að njóta útsýnisins. Verst þykir mér að klukkan er orðin sex og þeir eru enn að. Sá sem reif niður húsið og gróf grunninn vann bara til fimm þannig að maður fékk alla vega að njóta kvöldmatarins í friði. Það virðist ekki ætla að verða hér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband