Húðflúrsaga

Ég er ekki hrifin af stórum húðflúrum sem þekja stóran hluta líkamans, en minni húðflúr geta verið ótrúlega flott. Það eru mörg ár síðan mig fór að langa í eitt lítið á ökklann, en ég ákvað að hugsa málið vel og vandlega, enda er þetta ákvörðun sem ekki er auðveldlega tekin til baka. Þar að auki vildi ég velja húðflúrið sjálft vel. Mig langaði annað hvort í fótspor skógarbjarnar, eða fugl. Helst hrafn. En ég fann aldrei hrafn sem ég var sátt við en ég fann ágætt fótspor. Þegar ég talaði hins vegar við húðflúrsérfræðing var hann svolítið í vafa með að fótsporið yrði flott - það myndi svolítið líta út eins og klessa ef maður sæi það ekki mjög vel. Stakk upp á að ég setti þrjú lítil fótspor í staðinn fyrir eitt stærra. En það vildi ég ekki. Fann að lokum dásamlegan fugl (svolítið eins og skógarþröstur) og féll algjörlega fyrir honum.

IMG_6193Svo ég skellti mér til húðflúrmeistara þegar ég var í Ottawa í fyrra og lét skella þessu á. Ég var svolítið stressuð því þótt ég óttaðist ekki sársaukann svo mikið var ég hrædd um að ég fengi sjokk. Ég á það til, t.d. þegar ég gef blóð, að fara í einhvers konar sjokk þar sem ég verð hvít í framan, funhitna öll og missi tilfinninguna í fingrunum. Varð að hætta að gefa blóð út af þessu því hjúkkunum fannst svo leiðinlegt að þurfa að þekja mig með köldum tuskum til að kæla mig niður og fá lit í mig. Svo ekki sé talað um hversu kalt mér verður þegar ég fer að jafna mig og líkamshitinn lækkar. Þá snarlækkar hann af því að ég er orðin öll blaut. En það er önnur saga. Ég var sem sagt svolítið hrædd um að þetta myndi gerast því þetta hefur gerst þegar ég fór í ofnæmispróf, og þá er bara smárispað í húðina á manni. 

Myndin gekk vel og ég spjallaði við meistarann á meðan hann skellti þessu á. En þegar ég fór að finna fyrir kunnuglegri dofatilfinningu í fingrunum bað ég hann að stoppa til að ég gæti fengið eitthvað að drekka. Ég var með vatn með mér en hann sagði að ég myndi þurfa sykurinn (sem er alveg rétt). Svo hann sótti mér kók sem ég drakk, skellti á mig blautri tusku og svo lagðist ég á bekkinn. tattooEigandinn kom að athuga með mig og eftir nokkrar mínútur leið mér betur og ég spurði meistarann hvort hann gæti klárað tattúið á meðan ég lægi á maganum. Það var ekkert mál og ég lá því á bekknum og spjallaði áfram við eigandann á meðan húðflúrið var klárað.

Eftir á fríkaði ég út því húðflúrið er nokkurn veginn varanlegt, og svo hélt ég að myndin væri kannski of lík fálka Sjálfstæðisflokksins (athugaði merkið á vefnum þegar ég kom heim og sá að líkindin voru ekki mikil).

Nú er ég himinlifandi. Er búin að hafa húðflúrið í um það bil ár og ég elska það.  

P.S. Á myndinni er húðflúrið glænýtt og þakið kremi. Þess vegna er það svona glansandi.  


mbl.is Elsta tískubóla mannkynsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Ferlega flott !!! Æðislegur fugl og ekkert líkur Sjallafálkanum

Heiða B. Heiðars, 6.6.2007 kl. 15:55

2 identicon

Flott tattú!!! Sjálfur er ég með tvö og ætla að fá mér fleiri (sko lítil). Fékk mér kínverskt tákn fyrir "hugrekki" á hægri upphandlegginn minn árið 2002 og svo í Danmörku í fyrra fékk ég mér kínverskt tákn fyrir "góða lukku, gangi þér vel" á vinstri upphandlegginn. Þegar ég eignast svo börn, þá ætla ég að setja táknið fyrir hamingju fyrir neðan hugrekkið og svo nöfn barnanna fyrir neðan góða lukku ...

Doddi - Þorsteinn G. Jónsson (IP-tala skráð) 6.6.2007 kl. 17:47

3 Smámynd: Júlíus Valsson

Sýnist þetta vera svala. Til hamingju með hana! Sá einmitt fallega svölu í Skaftafelli fyrir nokkrum dögum. Nú er hún kominn á fótlegg í Kanada. Svona er heimurinn lítill. 

Júlíus Valsson, 6.6.2007 kl. 18:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband