Nýja Michael Moore myndin - Sicko

Ég var að enda við að horfa á viðtal við Michael Moore um nýju heimildamyndina hans, Sicko, sem fjallar um heilsugæslukerfið í Bandaríkjunum. Bandaríkin eru í 37. sæti yfir bestu heilsugæslu í heimi, sem er all lélegt miðað við að þetta er ríkasta land í heimi. Margt af því sem Michael Moore sagði er sláandi. Hann tók t.d. sem dæmi að þegar árásin var á tvíburaturnana, 11. september 2001, tók fjöldi sjálfboðaliða þátt í að hreinsa svæðið, hjálpa sjúkum og látnum, o.s.frv. Stór fjöldi þessa fólks varð fyrir alvarlegum skaða af völdum eiturefnanna á svæðinu og eiga nú við alvarlega öndunarsjúkdóma að etja. Bandaríkjastjórn hefur ekkert gert til þess að hjálpa þessu fólki og harðneitar þeim um nokkra aðstoð, nema að það sé vel tryggt. Þetta fólk hætti lífi sínu til þess að bjarga samferðarmönnum sínum og nú er margt þeirra deyjandi.

Hryðjuverkamennirnir sem voru handteknir í kjölfar árásanna voru sendir til Guantanamo Bay á Kúbu þar sem þeir fá topp heilsugæslu. Michael Moore fannst það ósanngjarnt svo hann fór með nokkra sjálfboðaliða út að Guantanamo Bay (á bát) og kallaði svo yfir að fangelsinu að hann hefði með sér fólk sem væri veikt eftir að hafa hjálpað til 11. september og að það eina sem hann bæði um væri að það fengi sömu heilsugæslu og glæpamennirnir sem ollu árásinni. Þessu var ekki svarað og í stað þess að fara með fólkið til baka fór Michael með það til Kúbu þar sem það fékk toppþjónustu - ókeypis - frá kúbönsku læknunum.

Nú er Bandaríkjastjórn búin að kæra Michael Moore fyrir að fara til Kúbu, en Bandaríkjamönnum er ekki heimilt að koma þar. Og það eina sem hann gerði var að leita hjálpar fyrir fólk sem Bandaríkjastjórn hefur yfirgefið.

Þarna var líka sýnt frá yfirheyrslum yfir lækni sem lýsti því hvernig hún neitaði manni um aðgerð sem hefði bjargað lífi hans. Hann var ekki með sjúkratryggingu og átti ekki fyrir aðgerðinni. Hann dó stuttu síðar. Þetta voru tilmæli hennar frá yfirmönnum. Ef þú getur ekki borgað þá færðu ekki hjálp. Á hverju ári deyja þúsundir Bandaríkjamanna vegna þess að þeir geta ekki borgað fyrir læknaþjónustu. Og þetta á að vera besta land í heimi? Ég held að Íslendingar ættu að hugsa málið áður en þeir reyna að einkavæða heilsugæsluna. Eitt af því sem Moore sagði í viðtalinu var að Bandaríkjamenn ættu að taka önnur vestræn fyrirtæki sér til fyrirmyndar þar sem heilsugæslan er á ábyrgð stjórnvalda. Við ætlumst ekki til þess að slökkviliðið skili hagnaði af því að þeirra vinna er spurning um líf og dauða. Af hverju ættum við að ætlast til þess af heilsugæslunni.

Ég hlakka til að sjá myndina. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Jamm, Michael Moore lætur ekki að sér hæða. Ég hlakka líka til að sjá Sicko.

Berglind Steinsdóttir, 6.6.2007 kl. 20:58

2 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Það segi ég með þér, ég hlakka mikið til að sjá þessa mynd. Vona að nýi heilbrigðisráðherrann okkar horfi á myndina áður en hann tekur ákvarðanir í þessa veruna. Annars hef ég trú á Guðlaugi Þór en hann á auðvitað eftir að sanna sig í embætti.

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 6.6.2007 kl. 21:00

3 Smámynd: Ibba Sig.

Jamm, Michael Moore er oft beittur. 

En ég held að heilbrigðiskerfið okkar sé að skila gífurlegum hagnaði eins og er. Hann er bara ekki mældur í krónum og aurum i ríkiskassanum heldur í lífi og heilsu landsmanna.  

Ibba Sig., 6.6.2007 kl. 23:00

4 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Góð athugasemd Ibba. Það er einmitt þannig hagnaði sem við viljum skila.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 6.6.2007 kl. 23:14

5 identicon

Nú er ég vitlaus að eðlisfari þegar kemur að bisness í pólitík ... en ef ég skil það rétt ... þá borgum við skatta og hluti af þessum sköttum borgar undir heilbrigðiskerfið okkar - ekki satt? Ég hef borgað skatta í mörg ár og gert það með glöðu geði (æ, you know what I mean!!), því ég tel þetta vera eitthvað sem kemur mér til góða (samgöngur, heilbrigðiskerfið ... o.s.frv.)

En þegar verið er að tala um að heilbrigðiskerfið hafi farið svo og svo langt fram úr áætlun eða að það þurfi að draga úr kostnaði - og að einkavæðing yrði betri ... við hvað er verið að miða? Er sem sagt skatturinn ekki að standa undir kerfinu? Hvað er málið?

Ég er skíthræddur við að fá einkavæðingu í heilbrigðismálin ... tek undir með Gurrí að mér líst ágætlega á Guðlaug Þór sem ráðherra, en ég er satt best að segja skíthræddur við sjálfstæðismann í heilbrigðisráðuneytinu. Nú er tími Guðlaugs til að koma mér á óvart!!

Michael Moore myndirnar eru frábærar. Fahrenheit 9/11 og Bowling for Columbine voru snilldarmyndir, og þessi heyrist mér ekki vera síðri. Ég hlakka til að sjá myndina! 

Doddi - Þorsteinn G. Jónsson (IP-tala skráð) 7.6.2007 kl. 02:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband