Sigling á Ottawa vatni
23.7.2006 | 14:05
Hitbylgjan er búin. Veðrið er orðið þolanlegt og hitastig komið niður í 25 sem er afskaplega þægilegur hiti. Fyrir viku fór hitinn í 34 stig og hélst yfir þrjátíu í nokkra daga og það er hreinlega of heitt. Sérstaklega þegar rakastig er hátt í þokkabót.
Eini gallinn er að það kólnaði á röngum tíma. Við Martin sigldum burt frá Aylmerbryggju á föstudagskvöld og inn í nóttina. Sigldum alla leið út að Baskin's beach sem ég man ekki alveg hversu marga kílómetra er í burtu. En við höfðum góðan mótvind alla leiðina og bar hratt yfir. Við sigldum svona fram að miðnætti og köstuðum þá ankerum. VIð höfðum einhvern tímann um kvöldið (þegar vindur var enn sterkur) ákveðið að reyna að fara að Constance bay, en svo dó vindurinn niður (virðist alltaf gera það á kvöldin) og því notuðum við mótorinn til að komast til Baskin's bay. Það hefði tekið um klukkutíma í viðbót að komast til Constance bay með mótornum og enn lengur að sigla. Ég hef aldrei áður sofið um borð í bát (bara skipi) og það var því ofsalega skrítin tilfinning að liggja þarna inni í lúkar og finna hreyfinguna á vatninu. Báturinns snerist í hringi alla nóttina og það er ótrúlegt að maður skyldi ekki hafa orðið ruglaðri. Við höfðum ákveðið þegar við köstuðum ankerum að halda áfram til Constance bay þegar við vöknuðum en svo enduðum við á því að sofa frameftir og taka okkur svo tíma við að búa til morgunverð o.s.frv. þannig að það var komið undir hádegið þegar við loks settum upp seglin. Það var því augljóslega orðið of seint að halda áfram upp ána ef við ætluðum að vera komin til baka til Ottawa fyrir kvöldmat. Það var líka býsna kalt (ekki þó á íslenskan mælikvarða) og ég var meira að segja í minni íslensku flíspeysu. Þess vegna segi ég að það hafi kólnað á röngum tíma. Það kólnaði þegar ég ætlaði að vera að sóla mig á bátnum og að synda í vatninu - sem er ótrúlega heitt. En af hvorugu varð og við sigldum bara til baka. Vorum með sterkan vind aftur og gátum siglt á einu "attack"i (veit ekki hvað það kallast á íslensku). Ég var ótrúlega þreytt þegar við komum til baka, og svöng líka. Við skelltum okkur á víetnamískan veitingastað og ég borðaði á mig gat. ÞEgar ég kom heim hringdi ég í Auði, íslensku stelpuna hér í Ottawa, og við skruppum niður í bæ.
Nú er ég svona smámsaman að pakka niður dóti sem ég ætla að senda bara með rútu heim til Vancouver í stað þess að draslast með það til Nova Scotia. Enda verður bíllinn ábyggilega fullur af útilegu dóti. Hmmm. Var ég ekki búin að minnast á ferðina? Ég hreinlega man það ekki. En sem sagt, Martin ætlar að keyra til Nova Scotia á þriðjudaginn og taka fjóra daga í ferðina, stoppa á ýmsum stöðum, keyra eftir hægari en fallegri leiðum en þjóðveg 1 o.s.frv. Hann bað mig að koma með og ég ákvað að skella mér. Þetta verður ábyggilega mjög skemmtilegt. En það þýðir að ég á bara eftir að kenna í tvo daga og svo held ég austur eftir. Ég mun svo fljúga frá Halifax til Ottawa á föstudaginn (með viðkomu í Montreal) og síðan áfram til Vancouver. Þannig að eftir viku verð ég heima hjá mér. Skrítið.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.