Hvað kemur það okkur við?
7.6.2007 | 15:28
Ég las mjög athyglisverða grein áðan sem fjallar um hvernig fólki er alveg sama um smitsjúkdóma, svo framarlega sem þeir eru langt í burtu. Asninn sem flaug frá París til Montreal fyrir viku eða svo, var greindur með alvarlegt afbrigði af berklum sem virðist ónæmt fyrir nokkurs konar lyfjum. Þetta er því illlæknandi afbrigði og því mjög lífshættulegt. Hann var greindur áður en hann fór frá Tékklandi og honum sagt að ef hann færi um borð í flugvél myndi hann hætta lífi allra sem í kringum hann væru. Hann ætti því í staðinn að hafa samband við yfirvöld. Og hvað gerir fíflið, fer um borð í tvær flugvélar, fullar of mögulegum sjúkdómum. Enn hefur enginn tilkynnt um smit, sem er sennilega vegna þess að hann var ekki byrjaður að hósta, en það hefði auðvitað getað gerst hvenær sem var. Hann er álíka saklaus og maður sem keyrir blindfullur á bíl en er svo heppinn að enginn verður á vegi hans.
Greinarhöfundur minntist á að í hvert skipti sem hann hefði skrifað grein um ástand heilsugæslu í fátækari löndum og hvernig betur sett þjóðfélög gætu hjálpað, fengi hann alltaf fjölda bréfa frá lesendum sem segðu beinlínis: Hvað kemur þetta okkur við og hvers vegna ættum við að eyða okkar peningum í að hjúkra fólki sem við þekkjum ekki neitt? Kannski ættu þau að spyrja allt fólki sem deildi flugvél með hálfvitanum.
Athugasemdir
Það að hjálpa náunganum virðist vera sumum svo fjarlægt - það er hræðilegt! Sjálfur borga ég eitthvað í hverjum mánuði í annað hvort krabbameinsfélagið, sáá, ýmis happadrætti o.s.frv. Það er ekki mikið en það er eitthvað. Þetta er sama og með t.d. að flokka ruslið sitt: einstaklingurinn per se gerir ekki mikið en samt meira en ekki neitt - sem er ávallt gott. Hjá mér er það pappír, rusl og dósir/plastflöskur. Sem ansi margir gera held ég.
En varðandi nágrannann og ástand á heilsugæslu, þá kemur það okkur við af þeirri einföldu ástæðu að við erum partur af þessum heimi! Þessi fáviti sem fór í flugvélarnar ... glæpamaður, ekkert minna! Mér finnst svo ótrúlegt að við skulum þurfa Bob Geldof og aðra til þess að skipuleggja tónleika til að geta reitt eitthvað af hendi til góðgerðarmála. Um leið og mér fannst Idol Gives Back alveg frábært framtak ... þá langar mann auðvitað að spyrja fólkið: af hverju gerðirðu ekki þetta áður?
Ég er ekki mannanna bestur í góðgerðarmálum, en ég reyni alltaf sem ég get og ætlast til þess sama af öðrum. Fólk sem stofnar lífi annarra mögulega í hættu (með mögulegu smiti í flugvél eða með því að vera drukkið við akstur), það á refsingu skilið. En í hvaða formi veit ég ekki ...
Doddi - Þorsteinn G. Jónsson (IP-tala skráð) 7.6.2007 kl. 18:25
Vel sagt Doddi. Tekk undir hvert orð. Og mér sýnist þú leggja ýmislegt af mörkum.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 7.6.2007 kl. 19:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.