VISA-svindl

Þegar ég kom heim frá Íslandi eftir jólin voru skilaboð á símsvaranum mínum um að samningur minn við VISA væri að renna út og ég yrði að tala við þá til þess að halda áfram að hafa sömu lágu vextina á kortinu. Átti ég að ýta á 9 til að tala við starfsmann þeirra. Ég hunsaði þetta enda nóg að gera eftir heimferðina og ég nennti ekki að eiga við VISA. Þar að auki fannst mér þetta lykta eitthvað illa.

Um tveimur mánuðum síðar fékk ég aftur sama símtal og enn á símsvarann. Ég átti fund með bankafulltrúanum mínum stuttu seinna svo ég nefndi þetta við hana og hún hringdi fyrir mig í VISA deildina þeirra en þeir könnuðust ekki við neitt. Sögðu að ég skuldaði þeim svolítið en þeir höfðu ekki hringt í mig.

Núna áðan fékk ég enn eina hringinguna svo ég ákvað að gera eitthvað í málinu. Ekki að tala við þá auðvitað enda var ég orðin viss um að  þarna væri maðkur í mjölinu, heldur hringdi ég beint í VISA deildina hjá CIBC og sagði þeim frá þessum símtölum. Ég var spurð að því hvort ég hefði gefið þeim upp vísanúmerið mitt. Ég sagðist aldrei hafa talað við þá, bara lagt á. Konan sem ég talaði við sagði að það væri gott því þau vissu af þessu og  málið væri í rannsókn. Þetta var sem sagt kortasvindl eins og mig grunaði. Það eina sem ég get gert er að halda áfram að leggja á þegar þeir hringja.

Það er alveg ótrúlegt hvað maður þarf orðið að passa sig á öllu.

Fyrr í vetur fékk ég hringingu um að ég hefði unnið mér inn siglingu (sem gat passað því ég tók þátt í alls kyns getraunum á skíðasýningu sem ég fór á). Ég þurfti sjálf að koma mér til Flórída þaðan sem skipið átti að fara, og að auki varð ég að borga um $300 (18 þúsund) fyrir einhver ákveðin gjöld. Ég hélt nú ekki. Djöfulsins glæpamenn alltaf að plata mann.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Maðkur í mjölinu??? Stína, Stína, Stína, þú verður líka að passa þig á svona fasistum eins og mér. En nú þegar ég er búin að hlæja fæ ég samt þessar hollu efasemdir. Ég veit að maður segir maðkur í mysunni - en er þín útgáfa kannski akureyrsk? Ég meina, orðatiltæki eru ær og kýr okkar íslenskuspekúlantanna, ekki satt?

Berglind Steinsdóttir, 13.6.2007 kl. 20:04

2 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Maðkur í mysunni! Auðvitað. Nei, ég held þetta sé ekki akureysk útgáfa. Ég held þetta sé bara mín lógík að trufla: Ég hef aldrei séð maðka í mysu en ég hef séð þá í mjöli og korni. Ég held þetta sé einfaldlega ég að klúðra ósköp venjulegu orðatiltæki.

Ég man að Ólafur Sigurðsson fréttamaður sagði mér einu sinni að hann safnaði svona klúðruðum orðatiltækjum. Hann gaf mér nokkur dæmi sem voru alveg drepfyndin. Hann ætti eiginlega að gefa þetta út. 

Kristín M. Jóhannsdóttir, 13.6.2007 kl. 20:15

3 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Vil bæta við þetta að ég ætti náttúrulega að fara aftur inn í upphaflegu færsluna og laga þetta, en það er ástæðulaust að Berglind sé sú eina sem fær að hlæja að vitleysunni í mér.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 13.6.2007 kl. 20:16

4 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Já, það væri ljótt að ræna hina fasistana gleðinni, hehehhhe. En ég er alveg sammála þér um lógíkina og auðvitað er talað um maðkað mjöl - aðallega þó það sem Danir sendu okkur á tímum einokunarverslunarinnar. Ef nemandi hefði skrifað þetta í ritgerð hjá mér hefði ég sagt að villan væri góð ...

Berglind Steinsdóttir, 13.6.2007 kl. 22:35

5 identicon

Óháð allri málfræði þá finnst mér gott hjá þér að vekja athygli á þessu

Steinn (IP-tala skráð) 14.6.2007 kl. 12:46

6 Smámynd: Þorbjörg Ásgeirsdóttir

Já, heimur versnandi fer.........(stess-andvarp) vona að þetta sé rétt tekið til orða !

Þorbjörg Ásgeirsdóttir, 14.6.2007 kl. 16:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband