Vigneault vann Jack Adams bikarinn
15.6.2007 | 06:59
Í kvöld voru NHL verðlaunin veitt. Þetta er svona nokkurs konar óskarsverðlaun hokkísins. Veitt eru verðlaun fyrir verðmætasta leikmanninn, besta nýleiðann, besta varnarmanninn, besta þjálfarann, prúðasta leikmanninn, og eitthvað fleira. Markmaður Vancouver Canucks, Roberta Luongo var tilnefndur til þrennra verðlauna en spáði því á rauða teppinu fyrir hátíðina að hann fengi engin þeirra. Það fór enda svo. Maður skilur ekki alveg hvernig maður sem er tilnefndur sem verðmætasti leikmaðurinn nær ekki að vinna sinn eigin flokk, besti markmaður, sérstaklega þar sem sá sem valinn var besti markmaðurinn, Martin Brodeaur var ekki tilnefndur sem verðmætasti leikmaðurinn. En svona er þetta stundum.
Það sem kætti mig framar öðru var hins vegar það að Alain Vigneault, þjálfari Canucks fékk Jack Adams verðlaunin sem besti þjálfarinn. Hann hafði verið tilnefndur til þessa verðlauna þegar hann var þjálfari Montréal Canadiens árið 2000 en fékk ekki þá.
Alain er vel að þessum verðlaunum kominn enda tók hann síðastliðið haust við liði sem hafði ekki einu sinni komist í umspilskeppnina árið áður (playoffs). Liðið spilaði þokkalega í haust þegar þeir voru að venjast algjörlega nýju kerfi, nýjum anda og nýjum þjálfara en eftir jólin spiluðu strákarnir eins og englar og unnu Norðvestur deildartitilinn að lokum. Þá unnu þeir fyrstu seríuna í umspilinu en voru svo slegnir út af Anaheim Ducks sem unnu Stanley bikarinn. Hver veit hversu langt Vancouver hefði komist ef þeir hefðu ekki lent á móti öndunum svo snemma. Úrslitakeppnin er hins vegar ekki tekin til greina við veitingu NHL verðlaunanna því það er reglulega tímabilið sem gildir.
Vigneault var flottur þar sem hann mætti á hátíðina í smóking, ásamt táningsdætrum sínum tveimur. Hann var og mjög hógvær í þakkarræðu sinni og benti á að ef einhver verðlaun endurspegluðu liðsheildina fremur öðrum þá væru það verðlaun þjálfara. Hann hefði aldrei getað þetta ef hann hefði ekki frábæra aðstoðarmenn, skilningsríka yfirmenn og góða stráka á skautum.
Hann er svo mikil dúlla.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.