Sigur gegn Wildcats
15.6.2007 | 17:46
Í gær spiluðum við gegn Vancouver Wildcats. Við erum í fjórða sæti deildarinnar og þær í fimmta sæti þannig að það var fyrirfram ljóst að þetta yrði spennandi leikur. Þær mættu með sirka nítján stelpur sem þýddi að þær gátu endalaust verið að skipta inn á og koma með óþreyttar stelpur (skiptingar eru ótakmarkaðar í deildinni). Við höfðum þrjá varamenn þannig að við gátum hvílt þreyttar en vorum ekki stanslaust að breyta til - sem mér finnst besta staðan. Ég verð pirruð ef við höfum of marga varamenn.
Ég stóð mig hins vegar óvenjuvel í þessum leik, skoraði eitt mark og átti stoðsendingu í öllum hinum. Ég vildi að fótboltinn væri eins og hokkí þar sem maður fær stig fyrir stoðsendingar, því þá hefði ég fengið fimm stig fyrir leikinn.
Við byrjuðum leikinn ótrúlega vel, sem er óvenjulegt. Vanalega tekur það okkur nokkurn tíma að komast í gang og við lendum einu eða tveimur mörkum undir áður en við tökum við okkur. Í þetta sinn var það betra. Fyrsta markið var nú ekki fallegt. Ég skaut á markið úr þröngri stöðu í hægra horni og markmaðurinn varði. Hún hélt hins vegar ekki boltanum og þvaga myndaðist fyrir framan og Katie náði loks að ýta boltanum innfyrir. Ljótt mark en þau gilda jafnmikið og hin.
Annað markið kom innan við tíu mínútum síðar. Ég hleyp upp hægri kantinn en er hlaupin niður af brussu sem fannst þetta víst mjög fyndið. Ég hreinlega flaug og rispaðist öll á hægri síðunni - sem nú er í stíl við marið á hægri mjöðm. Þetta gerðist ekki langt fyrir utan vítateig Wildcats og ég fékk aukaspyrnu. Sendi háan bolta inn í vítateiginn og beint á höfuðið á Benitu sem skallaði boltanum örugglega í markið. Þetta var glæsilegt mark hjá henni - eitt það flottasta sem liðið okkar hefur skorað, en náðist því miður ekki á myndband. Ég hafði tekið vídeóvélina mína með og stelpurnar filmuðu þegar mér var hent niður, en einhverra hluta hættu þær að mynda þar og tóku ekki aukaspyrnuna. Skil ekki hvers vegna. Benita var voða sár þegar hún frétti að markið hennar hefði ekki nást.
Þriðja markið var annað mark Katie. Ég fæ boltann um 35 metrum frá marki Wildcats en hafði tvo varnarmenn á mér. Ég vissi af Katie einhvers staðar fyrir framan mig með tvær stelpur á sér og af því að hún hleypur hratt sendi ég boltann bara inn í vítateiginn, en ekki svo fast að markmaður nái boltanum. Katie klikkaði ekki, komst að boltanum á undan varnarmönnum og skoraði örugglega.
Fjórða markið var mitt. Ég fékk boltann á miðju, sendi hann framhjá varnarmanninum sem var vinstra megin við mig (sem er óvenjulegt því ég fer nær alltaf til hægri), hljóp svo að boltanum og tók hann inn. Inn í vítateig voru tvær stelpur komnar á mig og önnur sparkaði mig nær niður en ég náði að halda jafnvægi og skjóta framhjá markmanninum. Þetta mark má sjá hér fyrir neðan.
Fimmta markið var næstum því alveg eins og þriðja markið. Ég sendi boltann inn í vítateig og Katie kom og skoraði. Hún er ný hjá okkur, 22 ára gömul stelpa sem hefur bæði gott vald á boltanum og getur hlaupið hratt að auki. Þannig að hún er eiginlega eins og Benita og ég settar saman. Benita hefur ótrúlegt vald á boltanum en hleypur ekki hratt. Ég hleyp hratt en er ekki nærri eins lipur með boltann. Gallinn er að Katie er hugsanlega að flytja til London þannig að við munum missa hana aftur í haust.
En mikið var gaman að vinna Wildcats stelpurnar. Og dómarinn var góður. Hún gerði ekki mörg mistök (en auðvitað einhver eins og þau öll) og hún mundi eftir okkur frá því í fyrra og spjallaði heilmikið við okkur.
Hún kom til mín eftir leikinn og sagði: Stína, hvernig stendur á því að kona kominn á þinn aldur getur hlaupið svona hratt? Ég sagðist ekki vita af hverju en ég væri ákaflega þakklát fyrir það.
Ég geri mér grein fyrir að þessi pistill virkar líklega eins og montpistill. Æi, það er ekki svo oft að ég fæ að monta mig á einhverju.
Athugasemdir
Allt er gott í hófi, og það má alveg monta sig í hófi! Og þú stóðst þig frábærlega - mér finnst bara frábært og gaman að geta fengið að lesa um það og sérstaklega að sjá markið. Ég horfði á það fyrst með bloggmyndina þína í huga, en þurfti nokkur replay til að festa andlitið á þessa feiknaflinku stúlku sem prjónaði sig glæsilega fram hjá og í gegnum vörn og skoraði vel! Meiddirðu þig í samstuði við markmanninn eitthvað?
Til hamingju annars með sigurinn. Frábært að eiga 4 stoðsendingar og 1 mark. Af þessu að dæma myndi ég hiklaust segja að þú værir kona leiksins! Gaman líka að lesa um að dómarinn hafi verið svona skemmtileg ... "kona kominn á þinn aldur ..."
Frá mínum bæjardyrum séð (lesist: sit fyrir framan tölvuskjá og horfi á myndband á netinu) hljópstu ótrúlega hratt og skoraðir flott mark.
Til hamingju með það!! Kveðja frá Akureyri!
Doddi - Þorsteinn G. Jónsson (IP-tala skráð) 15.6.2007 kl. 19:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.