Mikilvægi þess að fara á leiki
19.6.2007 | 23:53
Þegar ég var ung fór ég stundum á fótboltaleiki með Þór. Vanalega fór ég með pabba og við sátum í stúkunni á Akureyrarvelli. Afi átti hins vegar sinn stað í klöppunum þar sem hann stóð jafnan meðan á leikjum stóð. Löngu eftir að hann dó átti ég það til að líta á staðinn hans eins og hann væri þarna ennþá. Nú er hins vegar búið að jafna út þarna á klöppinni og afi hefði þurft að finna nýjan stað.
En það var alltaf skemmtilegt á leikjum þótt stundum hafi verið eins og liðsmenn aðkomumanna væru miklu fleiri. Og stundum þótti dómarinn ekki alveg sanngjarnt. Þá var öskrað og kallað og margt sagt sem ekki er hafandi eftir. Skemmtilegast var alltaf á leikjum gegn KA. Þær voru nokkrar KA-kerlingarnar sem höfðu alveg ótrúlegan kjaft (sérstaklega ein) og það var stundum alveg drepfyndið að hlusta á þær. Yfirleitt fannst mér þær auðvitað hafa rangt fyrir sér. En þetta kryddaði tilveruna.
Þegar ég flutti suður fór ég sjaldan á leiki enda voru Þórsarar þá orðnir svo lélegir að þeir spiluðu aldrei í meistaradeildinni og þau voru ekki svo mörg liðin í fyrstu deild úr Reykjavík. Svo ég komst ekki oft á Þórsleiki á höfuðborgarsvæðinu. Ég man reyndar að ég sá þá einu sinni spila á móti Fylki eða Leikni, einhvers staðar í úthverfunum.
En ég fann æ meira fyrir því hve mikið vantaði í líf mitt að fara ekki af og til á leiki. Þannig að ég ákvað að ættleiða reykvískt fótboltalið. Valið stóð á milli Vals og KR. Valur kom til greina af því að bræðrasynir mínir spiluðu fótbolta með yngri flokkum Vals, og KR af því að ég bjó á Nesveginum, í aðeins fimm mínútna gang frá KR vellinum. Þar að auki fór ég oft í leikfimi á KR svæðinu. Þetta sumar, sumarið 1999, spiluðu Valur og KR hvort gegn öðru í þriðja leik sumarsins (eða kannski var það annar leikurinn) svo ég ákvað að þeir myndu spila um hylli mína. Það lið sem ynni þann leik yrði þar með uppáhaldsliðið mitt. KR vann leikinn, held ég bara 5-1 (en ég þori nú ekki að fara með það), og þar með var ég orðinn KR-ingur. Ég fór meira og minna á alla KR leiki það sumarið og átti meira að segja KR trefil. Ég flutti hins vegar til Kanada þegar einir þrír leikir voru eftir af tímabilinu og missti því af því að sjá þá hampa bikarnum.
Þegar ég sé stöðu þeirra í deildinni núna er ég bara ánægð yfir því að KR áhugi minn takmarkaðist fyrst og fremst við þetta síðasta sumar sem ég bjó á Íslandi. Ef ég flyt aftur til Reykjavíkur mun ég sjálfsagt fara afturá leiki með þeim, en á meðan ég bý hér í Kanada læt ég mér nægja að vera Þórsari. Jafnvel þótt þeir hangi nú í neðri deildum og muni aldrei ná þeim hæðum sem þeir náðu á meðan liðið samanstóð af mönnum eins og Dóra Áskels, Bjarna Sveinbjarnar, Nóa Björns, Mola, Hlyni og fleiri góðum.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.