Íslendingar í öðru landi

Þjóðhátíðardagurinn var haldinn hátíðlegur í Maple Ridge á sunnudaginn. Maple Ridge er svona Hafnafjörður, nágranni nágrannaborga Vancouver. Til að komast þangað frá Vancouver þarf að keyra til Burnaby, þaðan til Coquitlam, svo til Port Coquitlam, Pitt Meadows og þá loksins kemst maður til Maple Ridge. Þetta er svona einn til einn og hálfur klukkutíma - fer eftir umferð.

Ég hafði verið beðin um að fara fyrst niður í bæ og hitta þar Jónas Þór og kóra úr Borgarfirði sem hann var með á söngferðalagi um vesturströndina. Ég taldi mig nú ekki besta leiðsögumanninn þar sem ég ætti engan bíl, færi aldrei til Maple Ridge og vissi ekki um neitt áhugavert á leiðinni þangað. Efaðist um að Íslendingum þætti spennandi að sjá IKEA, þótt mér þyki alltaf gaman að koma þangað. En ég gerði þetta nú samt. Hópurinn gisti á Holiday Inn á Howe street í miðbænum og þar hitti ég fólki á slaginu tólf. Þá voru allir tilbúnir til að fara upp í rúturnar. Planið hafði verið að stoppa á Burnaby fjalli þar sem er fagurt útsýni yfir borgirnar en það var svo þungskýjað að ég taldi ekki miklar líkur á útsýni. Í staðinn fórum við smá hring í kringum Stanley Park og stoppuðum við Totem súlurnar í garðinum. Þar tók hinn sameiginleg kór eitt lag við hrifningu ferðamanna sem þarna voru. Þaðan lá svo leiðin í gegnum austurhluta Vancouver og svo í gegnum fyrrnefndar borgir. Ég reyndi að benda á það sem spennandi var á leiðinni og segja svolítið frá hinu og þessu.  

BorgarfjardarkorarBílstjórinn var frá Seattle og þekkti svæðið því lítið betur en ég. Hann hafði hins vegar keyrt þangað nokkrum sinnum með hokkílið þannig að hann var nokkuð öruggur á leiðinni þótt hann þekkti ekki áfangastaðinn. Við vorum með útprent frá yahoo maps en viltumst samkvæmt þeim upplýsingum. Sem betur fer var ég líka með upplýsingar frá Naomi og samkvæmt þeim vorum við á réttu róli. Við viltumst því aldrei út af leiðinni þótt um stund hafi ég haldið það. Ég hringdi reyndar í Maggý til að sjá hvort hún þekkti svæðið og hún hló eins og vitleysingur þegar hún heyrði að ég var ekki bara einhvers staðar ein að villast heldur með tvær rútur með mér. Reyndar kom í ljós að næstum allir villtust á leiðinni, og það verr en við. Þannig að þetta var ekki svo slæmt.

Kórinn (ég held þetta hafi verið þrír kórar slegnir saman í einn) var geysilega góður. Lagavalið var skemmtilegt en á sama tíma hátíðlegt, einsöngvararnir þeirra voru góðir og þegar þau tóku Í fjarlægð táraðist ég alveg. á eftir var borðað í einhverja klukkutíma. Yrsa litla hans Gunnars var í miklu stuði og þegar foreldrar hennar voru að fara tilkynnti hún að hún ætlaði ekki með - hún ætlaði að vera eftir hjá mér. Pabbi hennar sagði að þau yrðu bara að fá mig í heimsókn, bjóða mér í mat. Já, Yrsu leist vel á það og svo sagði hún: Komdu, komdu nú. Hún fór í heilmikla fýlu þegar henni var sagt að  ég kæmi ekki núna heldur seinna.

Ég spjallaði við fjölda Íslendinga og fannst mjög fyndið þegar mér var alla vega tvisvar sinnum sagt að ég væri alveg geysigóð í íslensku. Ég varð að segja þeim að það væri kannski ekki skrítið - ég væri Íslendingur. En það sýnir kannski hversu vön þau voru orðin að heyra í Vestur Íslendingum talandi fullkomna íslensku. Eða að ég er orðin svo slæm í móðurmálinu að ég hljóma eins og útlendingur sem er óvenjugóður í málinu. Ég var bara fegin að enginn sagði mér að ég talaði næstum jafnvel og innfæddur Íslendingur.  

Ferðin til baka gekk vel og klukkan var ekki orðin of margt þegar ég var komin heim. Það eina sem vantaði var að syngja Hæ hó jibbíjei, ég hefði átt að gera það.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mikið var gaman að lesa þessa færslu

Kveðja úr Borgarfirðinum....

Auður H Ingólfsdóttir (IP-tala skráð) 20.6.2007 kl. 12:22

2 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Tíst, fliss, ég hef einu sinni villst með ferðamenn og það, Stína mín, var á heimaslóðum þínum, í Eyjafirðinum. Bílstjórinn var úr Mývatnssveitinni og vissi ekki hvar Þórunnarstræti var. Þori ekki að segja meira - en ég hafði mikið gaman af að lesa um Maple Ridge.

Næst segirðu okkur að þú hafir sungið í míkrófóninn, lofaðu því!

Berglind Steinsdóttir, 20.6.2007 kl. 23:07

3 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Þegar ég var í MA keyrði ég Þórunnarstrætið á hverjum degi og á ákveðnum tíma ársins bar sólina við enda götunnar þegar ég keyrði í skólann á morgnana, sem gerði það að verkum að ég sá ekki nokkurn skapaðan hlut.

Ég söng ekki í míkrafóninn en ef ég væri atvinnuleiðsögumaður held ég að ég væri einmitt enn af þeim sem gerði það.  

Kristín M. Jóhannsdóttir, 21.6.2007 kl. 01:36

4 Smámynd: Páll Ingi Kvaran

Hehe, hvað ertu búin að búa lengi úti?

Páll Ingi Kvaran, 21.6.2007 kl. 12:18

5 identicon

Halló, hér skrifar ein úr kórnum, sem kom vestur. Þetta var afskaplega skemmtilegt allt saman, eitt æfintýri fyrir okkur af klakanum. Móttökurnar glæsilegar og hlýjar. Það má geta þess, að á leiðinni til baka var í annarri rútunni brugðið á leik með míkrafóninn. Þá gekk hann á milli fólks, sem sagði frá því helsta sem það hafði upplifað á skemmtuninni. Þar kom fram, hvert gildi slíkra heimsókna er, bæði fyrir okkur og þá, sem búa svo fjarri rótunum. Innilegt þakklæti vestur í þessa fögru borg vestast í vestrinu, þú flytur hana Kristín þegar færi gefst.

Jónína Eiríksdóttir (IP-tala skráð) 21.6.2007 kl. 14:37

6 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Páll, ég er búin að búa átta ár erlendis og þar af tæp fjögur í Vancouver. Hef hins vegar aðeins einu sinni komið til Maple Ridge áður. Það var fyrsta veturinn minn hér í Vancouver, í æpandi rigninu og leiðindum og við spiluðum fótbolta. Það var svö ömurlega kalt og blautt að hendurnar urðu loppnar svo við gátum ekki lengur reimað skóna. Ein stelpan bað dómarann um að reima fyrir sig skóna þegar reimarnar losnuðu einhvern tímann í seinni hálfleik.

Jónína, það var alveg yndislegt að fá ykkur í heimsókn og þið sunguð eins og englar. Ég skila kveðju til heimamanna og skila þú endilega kveðju til kórsins frá mér með þakklæti fyrir diskinn. 

Kristín M. Jóhannsdóttir, 21.6.2007 kl. 15:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband