Komin til Vancouver

Martin á rauðri strönd

Vá, ég er komin aftur til Vancouver eftir ótrúlega dvöl í austur Kanada. Ég ætlaði ekki að vilja fara en þessi ferð reyndist eitt það besta sem hefur komið fyrir mig í langan tíma. Það er auðvitað fyrst og fremst því út af Martin. 

Ég yfirgaf Ottawa á þriðjudagskvöld eftir vinnu. Það tók okkur um tvo tíma að gera allt klárt þannig að klukkan var orðin sex þegar við lögðum af stað. Við höfðum ákveðið að keyra eins langt þetta fyrsta kvöld og við gætum svo við keyrðum í gegnum Montreal án þess að stoppa, sem var allt í lagi því ég hafði verið þar um tveimur vikum áður. Við keyrðum svo fram hjá Quebec borg sem var heldur síður því þangað hef ég aldrei komið en hef verið sagt að þar sé fallegt. Hins vegar var orðið dimmt þegar við komum þangað þannig að ég hefði hvort eð er lítið séð. Við hefðum því þurft að gista þar og eyða einhverjum tíma þar um morguninn og það hefði einfaldlega tekið of mikinn tíma. Ég verð bara að fara þangað einhvern tímann seinna. Í stað keyrðum við alla leið til Rivére du Loup þar sem við áttum frátekið stæði á tjaldsvæðinu. Þegar við komum þangað, hins vegar, laust eftir miðnætti, var enginn vörður, hliðið var lokað og enginn svaraði í símann. Við eyddum næstum því klukkutíma í að reyna að finna einhvern og komast inn en ekkert gert svo við enduðum á því að fara bara á mótel.

Við tókum það fremur rólega morguninn eftir, lögðum ekki af stað fyrr en um ellefu leytið og keyrðum þá áfram meðfram St. Laurent ánni  sem breikkaði óðum. Það var eiginlega ekki hægt að sjá hvernær áin endaði og hafið tók við. Atlantshafið. Haf okkar Martins beggja. Við stoppuðum á nokkrum stöðum, löbbuðum eftir ströndinni, borðuðum, réttum úr okkur o.s.frv. Ferðin var fremur hæg á þessum slóðum því það er bær við bær og því ekki hægt að keyra mjög hratt. Þar að auki var allt fullt af bílum með tengivagna o.s.frv. sem hægði ennfremur á. Það var orðið dimmt þegar við komum í Forillion þjóðgarðinn í Quebec. Þar tjölduðum við, borðuðum kvöldverð og slöppuðum af. Um nóttina fór að mígrigna. Ja, eiginlega um það leyti sem við fórum að sofa. Ég var ekki sofnuð þegar ég heyrði í rigningunni. Spáð hafði verið þrumustormi en ég varð nú aldrei vör við þrumur, en það rigndi alveg nóg. Undir morgun hafði regnið náð að komast undir regntoppinn og þá fór að leka inn í tjaldið. Ég vaknaði upp við að stórar regnslummur féllu á andlit mér.  

Eftir morgunverð fórum við í gönguferð niður á strönd og sáum töluvert af fuglum; máva, dílaskarfa, teistur. Við héldum áfram að keyra eftir Gaspé ströndinni og héldum til Percé sem er algjör túristastaður. Þar var þokan svo svört að við sáum sama og ekkert. Percé er fyrst og fremst þekkt fyrir risastóran klett sem stendur langt út í vatnið, en við sáum hann aldrei. Við vorum ábyggilega svona hundrað metra frá honum en sáum ekkert. Þarna er líka stærsta súlnubyggð í Norður Ameríku en maður verður að fara þangað með bát og við höfðum ekki tíma til þess. Við vissum að við yrðum að keyra til Nova Scotia þennan dag svo við þyrftum ekki að vakna eldsnemma daginn eftir til að ég næði flugi. Svo við héldum áfram ferðinni. Í Carlton fundum við götu sem hét Rue Comeau. Það er nafnið hans Martins svo hann tók auðvitað myndir af skiltinu og sér með því. Síðar sáum við Martin's götu þannig að hann er greinilega mjög frægur. Þarna voru engar Kristínargötur, hvað þá Jóhannsdóttirgötur. Við keyrðum hratt í gegnum New Brunswick. Við höfðum upphaflega planað að keyra eftir Acadian ströndinni í New Brunswick en það hafði verið mun seinlegra að keyra eftir ströndinni í Quebec en við héldum þannig að við sáum að það yrði allt of seinlegt að fara ströndina í NB. Í stað keyrðum við inn í Nova Scotia og gistum þar á Super8 móteli. 

Daginn eftir, föstudag, vorum við mætt á flugvöllin í Halifax klukkan ellefu. Þar komst ég að því að flugvélinni minni til Montreal (ég ætlaði að fljúga til Ottawa í gegnum Montreal) hefði verið seinkað um tvo tíma þannig að ég myndi aldrei ná vélinni til Ottawa en önnur vél til Ottawa var um það bil að fara. Verið var að senda fólk út í vél. Ég varð því að flýta mér. En það var ekki allt, einnig kom í ljós að flugið mitt til Vancouver var alls ekki þennan dag eins og ég hafði alltaf haldið heldur daginn eftir. Ég fríkaði næstum því út því ég var búin að gefa eftir herbergið mitt í Ottawa og þar að auki var ég með hellings farangur sem ég yrði allt í einu að fara að draga eitthvert. Ég vissi að ég gæti ábyggilega fengið að gista hjá Auði en hún væri ábyggilega í skólanum þar til um sex leytið og þótt ég væri með númerið hennar í skólanum skrifað niður hafði ég ekki hugmynd um í hvaða tösku það var eða neitt. En ég hafði engan tíma til að reyna að skipuleggja neitt því ég varð að hlaupa að hliðinu. Ég hafði því bara rétt tíma til að faðma Martin að mér og varð svo að hlaupa. ég vissi ekkert hvað ég ætlaði að gera þegar ég kæmi til Ottawa. Ég ákvað að fara bara og athuga hvort ég gæti fengið fluginu mínu breytt þannig að ég flýgi heim þennan dag í stað þess að bíða til morguns. En þegar ég lenti og kveikti á símanum hringdi Martin og sagði mér að Neil vinur hans væri á flugvellinum að sækja mig og ég gæti gist hjá honum og Melanie í Wakefield þá nóttina. Þvílíkur léttir.  Í stað passaði ég strákana þeirra á meðan Neil var að taka upp tónlist fyrir einhverja hljómsveit og Melanie var í vinnunni. Það var ágætt að hitta þau aftur og ég náði að tala meira við þau. Þegar ég hitti þau fyrst stoppuðum við ekki lengi hjá þeim og ég kynntist þeim því ekki svo vel.

Daginn eftir keyrði Melanie mig á flugvöllinn og ég var komin heim um níu leytið að staðartíma. Klukkutíma áður en flugeldasýning hófst í Vancover.

Í dag hef ég verið að þvo þvott, versla í matinn og reyna almennt að ganga frá hérna. Það er alltaf leiðinlegt að taka upp úr töskum eftir ferðalag. Næstum því jafnleiðinlegt og að pakka.

Ég sakna Martins en við höfum símann og tölvupóst og Skype, msn og hvað þau heita nú öll þessi forrit sem gera manni það kleift að vera í sambandi við vini sína á öðrum stöðum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband