Gamla myndin (úr Nolli)

 björnogannameðsigguogömmu

Gamla myndin að þessu sinni er líklega ein af elstu myndunum sem til eru hjá mömmu og pabba og er að öllum líkindum tekin snemma á árinu 1906. Á myndinni má sjá Björn langafa minn og Önnu langömmu mína með elstu dætur sínar tvær. Ég veit ekki hver stúlkan er sem stendur að baki þeim. Amma Stína, á fyrsta árinu, situr í fangi móður sinnar en Sigga í fangi föður síns. 

Fyrir þá sem hafa ættfræðiáhuga mun ég nú gefa aðeins betri upplýsingar.

Langafi minn, Björn Jóhannesson var fæddur á Nolli í Grýtubakkarhreppi, Suður-Þingeyjarsýslu þann 1. febrúar 1877 og kona hans Anna Pálsdóttir fæddist í Hrísey 14. mars 1883. Ef það er rétt hjá mér að þessi mynd sé tekin 1906 þá eru þau hjú sem sagt 29 og 23 ára á myndinni. Sigríður Þóra Björnsdóttir fæddist á Nolli 2. nóvember 1903 og amma, Kristín Björnsdóttir fæddist tæpum tveimur árum síðar, 6, október 1905.  Þar á eftir komu svo Jóhannes Kristján, Guðbjörg, Hólmfríður, Snæbjörn og Ingibjörg (eða Jói, Bogga, Fríða, Snæbjörn og Inga eins og amma kallaði þau). Björn og Anna, svo og börn þeirra sjö mynduðu svo Nollarættina svokölluðu. 

Amma talaði stundum við mig um móður sína. Hún hafði þetta svarta krullaða hár sem ömmu fannst það fallegasta í heimi. Hún sagðist alltaf hafa öfundað móður sína af hárinu. Og langamma var líka duglegust allra. Hún var alltaf að vinna. Þegar amma vaknaði var matur á borðum og mamma hennar á fullu, og þegar allir voru farnir að sofa þá var langamma enn að. Það er svolítið skemmtilegt að löngu seinna lýsti pabbi móður sinni á nákvæmlega sama hátt. Þannig að þótt amma hafi ekki fengið hárið frá móður sinni þá fékk hún greinilega dugnaðinn þaðan.

Ég vildi óska að ég hefði skrifað niður sögurnar sem afi og ömmur mínar sögðu mér. Það er svo hræðilegt að hugsa til þess að minningar þeirra skuli meira og minna allar glataðar.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég held að það sé svolítið út af þessu og svipuðu, að ættfræðin er svo vinsæl hérna hjá okkur Íslendingum. Auðvitað hef ég ekki hugmynd um neinn samanburð við önnur lönd, en mér finnst eins og þetta sé svo ríkt á íslandi.

Ég hef stundum talað við ömmu og afa um gamla tíma, og því miður er ekkert af því til á prenti. Ég tek því undir með þér að ég vildi að maður hefði gefið sér tíma til að skrifa þetta niður.

Við bræðurnir skiptumst á stríðnissögum og skemmtilegum "minningum" um móður okkar t.d. þegar við komum saman. Í 60 ára afmælisgjöf gáfum við henni m.a. 20 minningar okkar þriggja af henni, og henni þótti ofboðslega vænt um það. Í þessum minningum voru auðvitað grínskot á hana, en við höfum líka djókað með það að við stríðum henni svo mikið og hún hlær svo mikið með okkur að hún eigi eftir að verða 120 ára (þar sem hláturinn lengir lífið svo rosalega).

En eldri sögur hefði maður alltaf vilja eiga skrifaðar ...  

Doddi - Þorsteinn G. Jónsson (IP-tala skráð) 24.6.2007 kl. 03:12

2 Smámynd: Hermann Ragnarsson

átti ekki amma þín systur,munnsvipurinn er sá sami.

Hermann Ragnarsson, 24.6.2007 kl. 11:10

3 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Ertu að meina að sú sem stendur fyrir aftan gæti verið langömmusystir? Veistu það er góð hugmynd. Þegar ég athuga Íslendingabók kemur í ljós að pabbi Önnu lést ári eftir fæðingu hennar svo mamma hennar giftist aftur og eignaðist sex börn í viðbót, þar af þrjár dætur sem voru átta, tólf og sextán árum yngri en Anna. Á bakvið gæti þá verið hin fimmtán ára Elín Björg, fremur en hin ellefu ára Bjarney. 

Kristín M. Jóhannsdóttir, 24.6.2007 kl. 16:49

4 Smámynd: Hermann Ragnarsson

ef myndin er tekin á Húsavík þá eru frummyndirnar þar í safnahúsinu;stórhluti þess með upplýsingum um fólkið á myndunum.alúðlegur safnvörður. kveðja.

Hermann Ragnarsson, 24.6.2007 kl. 19:54

5 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Takk fyrir upplýsingarnar Hermann. Ég myndi reyndar fremur giska á Akureyri vegna þess að Nollur er rétt sunnan við Grenivík og því mun styttra til Akureyrar en Húsavíkur. En ætli það sama gildi ekki á Akureyri - að  myndirnar séu til? Kannski ég verði að senda pabba í leitir.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 25.6.2007 kl. 00:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband