Midsommarfest

Á sunnudaginn fór ég á Midsommarfest í Burnaby. ég hefði reyndar átt að fara á laugardeginum þar sem meira var um að vera. Þá var maístöngin reist og dansað í kringum hana og þvíumlíkt, en ég ætlaði að hitta þar Juliönnu, manninn hennar og mömmu, sem var í heimsókn hjá þeim þessa helgi. Við höfðum talað um að hittast þar um eitt leytið.

Það voru hins vegar hátíðir út um allan bæ, þar á meðal grísk hátíð í gríska hverfinu sem lokaði strætóleiðinni og útúrdúrinn og öll umferðateppan á veginum seinkaði strætó um tuttugu mínútur. Það þýddi að ég þurfti að taka mun seinni lest en ætlað var og missti því auðvitað af strætó í Burnby og varð að taka mun seinni vagn. Ég hringdi því í Juliönnu um eitt leytið svo hún vissi að ég sæti og biði eftir strætó. En hvar náði ég henni? Heima hjá sér.....í Suður fokkíng Surrey. Það er alla vega fjörutíu mínútna ferð fyrir hana til Burnaby. Hún sagðist hafa gleymt því að maðurinn sinn væri með nemanda í aukatíma. Það var ekki mikið verið að hringja í mig og láta mig vita að þau yrðu svona sein. Ég mætti því ein á svæðið og þekkti næstum engan. Hitti reyndar Irene í Íslandsbásnum og svo Óla Leifs sem var að fara heim. Ég vafraði því um ein, settist svo niður með roast beef snittu...ein. Löngu seinna kom ég aftur að Íslandsbásnum og þar var Julianna. Ég skammaði hana fyrir að hafa ekki hringt í mig þegar hún kom á svæðið - svona af því að við ætluðum nú að hittast þarna. Hún sagðist vera nýkomin - væri varla búin að vera þarna nema í um hálftíma. HÁLFTÍMA. Ég var þá búin að vera þarna ein í næstum tvo tíma. Ég þarf ekki að taka það fram að ég fór í fýlu. Lágmark að láta mann vita þegar plön fara út um þúfur - sérstaklega þegar allir hafa síma. 

Um hálffjögur var farið að taka saman og ég hjálpaði við að pakka dóti niður í kassa og bera það út í bílinn hans Joe, sem er sonur Ninu Jobin. Hann er alveg ótrúlega líkur Bjarna móðurbróður sínum (Tryggvasyni - geimfara). Ég nefndi það við Juliönnu eftir á (þegar mér var runnin reiðin að mestu) og hún var alveg sammála. Sömu andlitsdrættirnir, sama brúna hárið. Algjörar dúllur báðir tveir. Trúi því ekki að Bjarni sé kominn um sextugt. 

Það minnir mig reyndar á alveg ótrúlega skemmtilegan útvarpsþátt sem ég hlustaði á fyrir nokkrum árum. Þar var viðtal við Svavar heitinn Tryggvason, pabba Bjarna og Ninu, og hélt hann þrumandi ræður yfir útvarpsmanni. Sérstaklega var hann stórorður um Vestur Íslendinga og sjávarútveg. Ég kynntist Svavar eftir að ég flutti hingað til Vancouver og við áttum oft langt tal saman á samkomum í Íslandshúsi. Hann fylgdist greinilega vel með því sem gerðist á föðurlandinu og skammaðist mikið yfir stjórnvöldum. Var alveg sannfærður um að Davíð og hans gengi væru að ganga algjörlega frá landinu. Stundum var honum svo mikið um að maturinn skyrptist út úr honum og þá var betra að sitja ekki of nærri. Það var alltaf gaman að tala við Svavar og hans er sárt saknað. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Bjarni er alveg gæðanáungi. Ég hitti hann fyrir nokkrum árum þegar hann flutti fyrirlestur hjá okkur í Manitoba. Ég beið eftir honum fyrir utan skólabygginguna og labbaði svo með honum út í Stórasal þar sem hann talaði við hóp grunnskólabarna. Þau alveg elskuðu hann og höfðu fullt af spurningum handa honum. Sérstaklega höfðu þau áhuga á að vita hvernig maður fer á klósettið úti í geimi! Um kvöldið talaði hann svo yfir ráðstefnugesetum á fyrstu Kanada-Íslands ráðstefnunni.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 26.6.2007 kl. 19:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband