Dásemdarmatur á borðstólum
26.6.2007 | 20:38
Við Marion komum við á Granville island í gær eftir klettaklifrið. Granville island er risastór markaður þar sem má kaupa ferska ávexti og grænmeti, nýjan fisk, kjöt, brauð og allt sem mann dettur í hug, eða sama sem. Sá ég þá ekki mér til mikillar gleði að fíkjur eru orðnar þroskaðar og komnar í sölu. Mmmmmm....fíkjur! Á Íslandi fékk ég aldrei svoleiðis gúmmulaði (bara þurrkaðar) og í Manitoba var hægt að kaupa þær í sirka þrjár vikur í kringum mánaðamótin júlí-ágúst. Hér koma þær fyrr og fást lengur. Ég keypti dollu af fíkjum, bungt af grænum baunum og poka af mandarínumjá, það er hægt að fá mandarínur núna þótt engin séu jólin, og það góðar mandarínur. Ótrúlegt. Í dag fór ég svo út í ítalska delíið hér á tíunda stræti og keypti alvöru ítalskt procuttio (svipað og hráskinka), rosemary/hvítlauksbrauð og svolítið af ólífu-tapanade. Stoppaði svo í súkkulaðibúð á leiðinni heim og keypti pínulítið af súkkulaðihúðuðum appelsínuberki og einn mola með banönum og hvítu súkkulaði ganache. Mmmm, þetta ætti að vera góður síðbúinn hádegisverður. Ég vef svo procuttioinu utan um fíkjurnar (líka gott með hunangsmelónu), ólífurnar fara ofan á brauðið og ásamt súkkulaðinu fer þetta allt saman í munninn á mér.
Nú, ég varð að gera eitthvað. Á þessari stundu eru vinir mínir Rosemary og Doug í mat hjá mömmu og pabba og ég giska á að þau séu annað hvort að borða nýtt lambalæri eða hangikjöt. Ég þarf að forðast heimþrá.
Athugasemdir
Engin soðbrauð en mér skilst á mömmu að hún hafi verið búin að baka kleinur, horn og gerbollur fyrir heimsókn Kanadamannanna. Ef ég þekki hana rétt mun hún ofala greyið fólki á góðgæti. Einu sinni bauð hún upp á tertur sem eftirrétt í morgunmat þegar fyrrum nemendur mínir frá Manitoba voru á ferðalagi um Ísland. Þau höfðu aldrei áður fengið rjómatertur í morgunmat en voru víst býsna ánægð með veitingarnar.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 26.6.2007 kl. 21:13
Mikið rosalega hljómar þetta girnilega hjá þér! Mig langar svolítið ... svolítið mikið að prófa procuttio utan um fíkjur! Ég elska mat sjáðu til, og þegar maður heyrir um eitthvað "nýtt", þá verður maður forvitinn.
Soðbrauð með laxi eru náttúrlega ótrúlegt nammi ...
Doddi - Þorsteinn G. Jónsson (IP-tala skráð) 26.6.2007 kl. 22:03
Var sem betur fer nýbúin að úða í mig dýrindismáltíð þegar ég ráfaði hér inn. Annars.. hefði ég rifið í mig borðstofustól með áklæði og alles. Namm!
Jenný Anna Baldursdóttir, 26.6.2007 kl. 23:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.