Auglýst eftir lukku og hamingju
4.7.2007 | 17:56
Ég er að verða fremur afbrýðisöm út í vini mína (ekki þó öfundsjúk) því það er eins og eitthvað nýtt og spennandi sé að gerast í lífi allra nema mín. Sjáið bara:
Rut eignaðist barn
Helena eignaðist barn
Þyrí eignaðist barn
Tim keypti sér íbúð
Marion keypti sér hús
Júlíanna keypti sér hús OG gifti sig
Helga Fanney er farin til Íslands þar sem hún ætlar að gifta sig.
Rosemary er í rosaferð til Íslands og Englands sem hún er búin að vera að hlakka til í mörg ár að fara í.
Og þetta allt síðan síðustu dagana í desember. Og hvað hef ég verið að gera? Sitja heima og reyna að skrifa ritgerð en ganga illa við það. Upphafleg áætlun var að útskrifast í haust en það mun ekki gerast. Ég verð heppin ef ég næ að klára næsta vor. Og ekki nóg með að ekkert nýtt gerist heldur er verið að taka frá mér í þokkabót. Samband mitt við Martin virðist vera endanlega búið og húsakaup Marion þýða t.d. að hún er að flytja til Victoria, sem þýðir að eini vinurinn sem ég umgengst reglulega er að flytja í burtu. Áður fluttu í burtu Leszek og Jeremy sem voru þeir vinir sem ég umgekkst mest áður, og Julianna flutti til White Rock sem þýðir að ég sé hana á kannski fjögurra til sex vikna fresti . Já, ég veit hvað þið eruð að hugsaég virðist hreinlega hrekja fólk burt úr bænum.
Hvernig væri nú að smá lukka komi til mín. Sendið alla orku og lukku sem þið þurfið ekki á að halda til mín. Mér veitir ekkert af.
Athugasemdir
Sendi þér fullt af orku og gæfu og góðu gengi og hamingju og ást yfir hafið. Gangi þér vel, elsku bloggvinkona! Öll þessi OG áttu að leggja sérstaka áherslu á þetta hjá mér!
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 4.7.2007 kl. 18:14
Svo er ráð að plana safaríka heimsókn frá Íslandi, hehhehe. „Flissið“ býður sig fram ... sjá mína síðu, Stína.
Berglind Steinsdóttir, 4.7.2007 kl. 19:08
Takk kærlega Gurrí mín. Ég vona að ég hafi náð sendingunni þinni óbrenglaðri yfir hafið. Netið er pottþétt áreiðanlegra en pósturinn. Berglind mín, vertu ævinlega velkomin og þótt þú dragir sex aðrar með þér.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 4.7.2007 kl. 19:36
Sendi þér lukku í poka héðan frá Skagaströnd, vona að hún smjúgi í gegnum netið. Annars allt gott að frétta héðan, en ekkert stórt að gerast svo sem. En engar fréttir eru góðar fréttir er það ekki?
Elva (IP-tala skráð) 4.7.2007 kl. 20:04
Nú mér sýnist þú vera lukkunnarpamfíll, ef ég skil þig rétt þá ertu hvorki nýgift né nýbökuð móðir, þú færð þá svefnfrið fyrir hvorutveggja (manni og ungabarni) Fagnaðu frelsinu kona
Aðalheiður Ámundadóttir, 4.7.2007 kl. 21:16
Ást og hlýju ætla að tjá
yfir hafið kveðjan fer.
Lukku færðu líka frá
ljótum kauða eins og mér.Már Högnason (IP-tala skráð) 4.7.2007 kl. 22:29
Bestu lukku og orku til þín, ásamt óendanlega mikið af knúsum (sem eru virkilega orkugefandi!)
Þú ert að gera heilmikið: Þú ert að skrifa já ritgerð, þú hefur verið að spila fótbolta og standa þig vel þar, skora t.d. mark á móti Wildcats sem undirritaður var mjög hrifinn af, og svo gleðurðu svo marga með skrifum þínum hér.
Kærar kveðjur frá Akureyri!!
Doddi - Þorsteinn G. Jónsson (IP-tala skráð) 5.7.2007 kl. 00:23
Takk fyrir hvatningarorðin elskurnar mínar. Már, frábært ljóð. Það var tími til kominn að einhver yrkti ljóð til mín.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 5.7.2007 kl. 05:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.