Um dásemdir moggabloggsins
5.7.2007 | 16:45
Af því að ég veit að ýmsir hafa allt á hornum sér gegn moggablogginu finnst mér tímabært að segja mína skoðun á þessu kerfi: Mér finnst það frábært. Það er ekki bara vegna þess að það er mjög auðvelt að eiga við þetta kerfi og kostirnir eru margir, heldur vegna þess samfélags sem hefur skapast. Ég er búin að eignast marga bloggvini sem eru alveg yndislegt fólk; þessir vinir koma reglulega á síðuna hjá mér og lesa og skrifa athugasemdir, og uppörva mig þegar á þarf að halda, og í staðinn fer ég og les það sem þeir skrifa og fylgist með lífi þeirra (nefni Dodda og Gurríu alveg sérstaklega því þau hafa verið alveg einsaklega frábær, en ég heyri líka alltaf reglulega í Má, Bjarna og Þrymi). Þar að auki hef ég komist í samband við gamla kunningja frá því í gamla daga í gegnum bloggið, og ég hef einnig heyrt af öðrum sem lesa bloggið reglulega. Meðal bloggvina er fólk sem ég þekkti einu sinni en hafði misst tengslin við, svo sem Pétur Björgvin sem bjó við hliðina á mér á æskuárum okkar, Valdimar vinur minn úr MA sem ég hélt lengi vel sambandi við en missti svo, Berglind skólasystur mína úr háskólanum, Gísli þýðandi sem vann með mér á sjónvarpinu, Gunnar Kristinn frændi minn. Í gegnum gestabókina eða athugasemdakerfið hef ég heyrt í Huldu bekkjarsystur minni úr MA sem ég hef ekki talað við í mörg ár, Guðnýju Hansen sem var með mér á skíðum í gamla daga, Elvu vinkonu, Björg sem var með mér í MA, Rannveigu sem var með mér í BA náminu, og fleiri og fleiri. Fyrirgefið ef ég gleymi einhverjum. Fyrir utan Elvu sem ég hitti fyrir tveimur árum, og Rannveigu sem ég rakst á fyrir um fjórum árum, hef ég ekki hitt þessar stelpur í líklega ein tíu ár eða meira. Svo heyrði ég í gegnum mömmu að Lína sem var með mér í Glerárskóla kíkti stundum við (hæ Lína!) og ég hef heyrt af öðrum sem koma hér af og til. Mér þykir ákaflega notalegt að vita til þess að þessir gömlu félagar komi stundum á síðuna mína og sjái hvað ég er að gera. Ég myndi gjarnan vilja vita hvað þið eruð að gera líka.
Moggabloggið gerir það líka ákaflega auðvelt að rápa á milli blogga svo maður er að kynnast nýju fólki reglulega, svo sem bloggvinum bloggvina, o.s.frv. Ég vildi reyndar að umræðuboxið á aðalsíðunni væri aðeins fjölbreyttara. Þetta er svo mikið sama fólkið sem er þar, og ég veit orðið af þeim (og suma les ég og aðra ekki). Ég vildi sjá fleiri koma þar inn svo ég uppgötvi fleira fólk sem gaman væri að fylgjast með. Einhver sagði mér að vinsælustu bloggin kæmu bara þarna í boxinu, en það er ekki alveg rétt því ég hef lent þar nokkrum sinnum, án þess að hafa vinsælt blogg. En það gerði það reyndar að verkum að þegar bloggið lenti þar, þá jókst lesturinn ógurlega þann daginn (en ekki fram yfir það - ekki nógu spennandi). Þess vegna væri svo gaman að sjá fleira fólk koma þarna inn svo að umheimur geti uppgötvað fleiri ólesna penna.
Nú gæti vel verið að önnur bloggkerfi bjóði upp á það sama. Um það veit ég ekkert enda er ég ekki að skrifa um önnur bloggkerfi, er bara að segja hvað mér líkar við þetta. Ég hef hér fínan vettvang til þess að skrifa niður það sem mér liggur á hjarta og í leiðinni hef ég eignast nýja vini, og endurnýjað kynnin við gamla. Ég get ekki beðið um meira.
Athugasemdir
Sammála þér með Moggabloggið. Þægilegt og mikið af skemmtilegu fólki, þar á meðal þú.
Jenný Anna Baldursdóttir, 5.7.2007 kl. 18:06
Sammála þessu með þægindin hér á Moggabloggi. Verst hvað það er seinlegra fyrir óinnvígða að skrifa komment. Á gömlu síðunni minni gat ég ekki sett inn myndir og það var sársaukafullt að geta ekki skreytt pínulítið með myndum við hæfi ... Knús til Kanada!
P.s. Eftir túristakennslupistilinn hjá þér um daginn ætla ég aldrei til Kanada að sumri til. Pödduumfjöllunin fór alveg með mig! Fínt að koma bara í 18 stiga frosti, enda er ég ekki fyrir mikla sól og hita svo sem!
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 5.7.2007 kl. 18:15
Heyr heyr, skemmtilegur pistill hjá þér.
Maja Solla (IP-tala skráð) 6.7.2007 kl. 00:01
Algjörlega sammála þér með þessar unaðssemdir. Ég er enn tvöfaldur bloggari, þ.e. ég blogga á tveimur stöðum: á blog.central.is/dulla_og_doni og svo þessu moggabloggi. Ættingjar og vinir eru meira að skoða held ég hina síðuna en nýir bloggvinir eru fleiri á moggablogginu. Lítill er heimurinn og það hefur komið í ljós, ég hef fengið í heimsókn á safnið hana Ásdísi sem er bloggvinkona ... ung stelpa kom til mín um daginn og bar fyrir kveðju frá mömmu sinni (sem er anno bloggari hér) og svo mætti lengi telja. Að ég tali nú ekki um hana stinujohanns
Að blogga um fréttir er mun auðveldara og að einhverju leyti betur upp sett heldur en hjá visi.is - ég er sáttur á báðum stöðum samt.
Ég er með myspace síðu, svo er spurning hvort ég fari nokkuð í facebook ... varla, en svo er ég áskrifandi að tveimur erlendum síðum (myndasíðum, já skammið mig bara) og þar er bloggað stundum og vinskapur myndast ... en mest af öllu - nokkrum sinnum á dag - er ég á moggablogginu þessa dagana, en mitt vinsælasta blogg er enn á visi.is. Ég elska báða staðina!
Ég elska ykkur!
Doddi - Þorsteinn G. Jónsson (IP-tala skráð) 6.7.2007 kl. 00:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.