Ekki spurning
6.7.2007 | 16:08
Ég er algjörlega sammála því að þeir Lennon og McCartney eru besta rokktvíeyki allra tíma. Það er ekki spurning að tónlistin sem þeir sömdu hefur haft meiri áhrif en tónlist nokkurra annarra tónlistarmanna, og það er staðreynd, hvort sem mönnum líkar Bítlarnir eða ekki.
Sjálf varð ég aðdáandi þegar ég var tíu ára gömul og heyrði rauðu safnplötuna í fyrsta sinn. Pabbi var að skipta um gólfteppi á stofunni og þegar ég setti plötuna á, og Love me do kom út úr hátölurunum, var grænn filtersdúkur á gólfinu, sem átti að vera undir teppinu. Nú er parkett á gólfinu en ég man enn eftir þessum græna dúk sem er nátengdur minningunum um þetta lag. Ég man líka rósailminn sem var í húsinu því mamma var nýbúin að spreyja um allt úr einhverjum bauk. Sennilega hefur lyktin af gömlu gólfinu ekki verið svo góð. En svona sterk var sem sagt þessi upplifun að ég man enn smáatriðin í kring.
Frá því ég fyrst heyrði í Bítlunum var ekki aftur snúið, rétt eins og frá því Paul hitti John var óumflýjanlegt að þeir ættu eftir að skapa eitthvað stórkostlegt.
Það sem stakk mig þó í þessari grein var þetta með að Paul hafi skaffað bílskúr föður síns undir æfingar. Þetta hef ég aldrei heyrt og stórefa að það geti verið satt. Ég búin að lesa fjölmargar bækur um Bítlana og hef aldrei lesið neitt um bílskúr. Ég veit þeir æfðu eitthvað heima hjá Paul en ég held það hafi bara verið inni í húsinu. Enda voru þeir ekki með trommara lengst af, bara nokkrir strákar með gítara (og þvottabretti) svo æfingahúsnæðið þurfti ekki að vera eins stórt. Þar að auki tóku þeir upp á því að læðast inn í hús kærasta Júlíu, mömmu Johns, og þeir hefðu varla gert það ef þeir hefðu bílskúr til æfinga. Annars sver ég auðvitað ekkert fyrir þetta. Kannski hef ég lesið vitlausar bækur.
Ég er reyndar að reyna að muna hvort það er einhver bílskúr við hús pabba Pauls. Ég kom þangað fyrir mörgum árum í skoðanaferð og leit aðeins út í garðinn en ég man ekki nákvæmlega hvað var þar. Ég hef óljósar minningar um að það hafi hugsanlega verið einhver skúr þar en mig minnir að það hafi bara verið garðskúr. Kannski man þetta einhver annar betur. Hápunkturinn á þessari ferð var hins vegar það að sitja á rúminu hans Pauls (og ímynda sér að maður hefði verið þar þrjátíu árum fyrr, hehe).
Besta rokktvíeyki allra tíma | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Blessuð
ég ætla nú eiginlega að biðja þig um að senda mér netfangið þitt.
Ég hef nefnilega áhuga á dvalarhorfi en hjá öðru fólki en þú þ.e. hjá börnum, sérstaklega hjá börnum með frávik í máþroska. Ég hef alltaf talið að þau hafi fest á nafnháttarstigi (eins og það er kallað af Sigríði Sigurjónsdóttur) og ekki lært beygingu sagnorða eðlilega. Kannski kemur þessi málbreyting þeim sérstaklega vel. Þau munu kannski ekki mælast með frávik í málþroska eftir allt saman, ef þessi málvenja festist.
kveðja
Þóra Sæunn, talmeinafræðingur.
Þóra Sæunn Úlfsdóttir (IP-tala skráð) 6.7.2007 kl. 16:29
Blessuð Þóra. Netfangið mitt er stina at mail2skier.com. Settu @merkið inn fyrir at, og náttúrulega engin bil. Ég vil bara ekki að netfangið birtist í heild sinni hér svo tölvur sem leita að netföngum geti ekki gripið það og farið að senda ruslpóst á mig.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 6.7.2007 kl. 16:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.