Hinir fínustu dagar

Síðustu tveir dagar hafa verið fínir. Ég hef skrifað svolítið í  merkingarfræði, ekki mikið en meir en undanfarið.

Í gær fór ég að klifra með Marion og náði að klára V2 sem ég hafði verið að vandræðast með en komst ekkert áfram með þessar þrjár V3 leiðir sem ég hef verið að vinna að. Um kvöldið fór ég svo í ultimate með manninum hennar Marion, Ryan. Þetta ultimate er ekkert smá erfitt. Ef þið viljið komast í gott form er ultimate fullkomið. Við spiluðum tvo leiki og maður er hlaupandi allan tímann. Fyrri leikurinn hófst um tuttugu mínútur yfir sex og síðari leiknum lauk laust fyrir tíu. Þetta voru sem sagt vel rúmir þrír tímar. Ég held svei mér þá að ég hafi misst heilt kíló. Því miður gleymdi ég moskítóspreyinu heima svo ég náði mér í nokkur bit. Þar af heitt á hálsinn. Þegar ég kom heim uppgötvaði ég að ég hafði skilið gluggana eftir opna svo ég var búin að ná mér í moskítur inn í herbergi. Ein þeirra byrjaði að suða í kringum höfuðið á mér þegar ég reyndi að sofna svo ég náði í flugnaspaðann og kom henni fyrir kattanef eftir ekki of langan eltingaleik. Endaði svo á því að sofa með flugnaspaðann við hliðina á koddanum ef ég þyrfti að drepa fleiri flugur.

Í dag hélt ég áfram að leysa vandamálið um endurtekið dvalarhorf og mér miðaði aðeins. Ekki mikið. Horfði aðeins á smiðina út um eldhúsgluggann og sprangaði svo fram hjá þeim í stuttu pilsi í von um að þeir tækju eftir mér (held þeir séu blindir). Bjó síðan til sænskt kartöflusalat. Fékk uppskriftina frá Guðrúnu Helgu fyrir mörgum árum. Fór svo og keypti grillolíu og grillteina, dró fram gamla kolagrillið hennar Alison í kjallaranum og grillaði þennan fína mat. Paprika, laukur, sveppir og nautakjöt (í fínu grillsósunni sem ég keypti á matarsýningunni); allt saman á teini. Mmmm, þetta var virkilega gott. Bauð Alison í mat með mér enda skemmtilegra að hafa félagsskap þegar maður borðar grillmat. En algjörlega var ég búin að gleyma því hversu lengi það tekur kolin að grána. Er virkilega að velta því fyrir mér að kaupa lítið gasgrill. Það er hægt að fá mjög ódýr svoleiðis. Alison kom út með flösku af hvítvíni - sætu með sterku ávaxtabragði. Ég drekk yfirleitt ekki áfengi en það getur verið gott að drekka glas af góðu víni. Og ég er svo mikill sælkeri, og svo lítill vín connaisseur, að mér þykir sætu vínin betri en þau þurru. Já já, hlæið bara að mér. Mér er alveg sama. 

Við enduðum á því að sitja á kjaftatörn yfir þessum góða mat fram að níu eða svo. Þá var orðið aðeins of kalt úti svo ég fór inn og horfði á The Devil wears Prada. Kannski hefði verið gáfulegra að fara út á lífið en svei mér þá, ég nenni því ekki. Mér fannst það aldrei sérlega skemmtilegt þegar ég var yngri þannig að það er ekki við því að búast að mér finnist það svo spennandi núna. Og svo kóróna ég allt saman með því að vera að skrifa þennan pistil. En svei mér þá, mér þykir þetta hinn fínasti föstudagur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Naut þess að horfa á Pradafjárann, vegna klæðanna í myndinni.  Er fatasjúk sko (slef-og öfundarkarl).

Gef oss uppskrift af sænsku kartöflusalati.  Har tappat bort mitt.

Smjúts.

Jenný Anna Baldursdóttir, 7.7.2007 kl. 13:48

2 Smámynd: Björg K. Sigurðardóttir

The Devil wears Prada er frábær mynd og yfirleitt ósköp notalegt að kúra fyrir framan einhverja svona "kellingamynd".

Björg K. Sigurðardóttir, 7.7.2007 kl. 14:01

3 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Mér fannst myndin ágæt en svo sem ekkert sérstök. Kannski af því að ég er lítið gefin fyrir tískuna. Velti því hins vegar fyrir mér, haldiði að þessi mynd hafi verið fyrirmyndin að Ljótu Bettý? Ótrúlega margt líkt, nema hvað Bettý er auðvitað gerð mun hallærislegri en Andy....ó vá, heyriði, Bettý-Andý. Þetta getur ekki verið tilviljun.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 7.7.2007 kl. 17:38

4 Smámynd: Þorsteinn Gunnarsson

Ég er forfallin á rómantískar gamanmyndir og leist svo vel á leikkonurnar að ég keypti þessa á dvd. Varð fyrir skelfilegum vonbrigðum verð ég að segja.

Þorsteinn Gunnarsson, 7.7.2007 kl. 21:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband