Bréfahrúgan

Ég stóð mig alveg geysilega vel í kvöld. Ég hef hreinlega setið við og skrifað bréf. Hrúgan af ósvöruðum tölvupósti var komin í yfir 70 bréf og sum orðin allt of gömul. Það er gallinn við það þegar maður bloggar, maður lætur bréfaskriftir sitja á hakanum af því að maður er búinn að segja allt. En það er auðvitað algjör vitleysa. Það má ekki missa persónulegu tengslin sem maður hefur við vini og kunningja. Þannig að ég tók mig til í andlitinu og skrifaði ógurlegan fjölda af bréfum, sinnti öðrum málefnum sem ég þurfti að sinna (í gegnum tölvupóst) o.s.frv. Nú eru bréfin í pósthólfinu mínu 14 og ég vona að ég geti svarað þeim á morgun. Og þetta kom allt eftir að ég spjallaði við Auði á msn í ábyggilega tvo tíma. Ég hafði ekki kveikt á msn svo lengi að við höfðum um nóg að spjalla.

Á morgun þarf ég reyndar að fara og kíkja á íbúð. Nei, ekki fyrir mig. Ég er rosalega ánægð í minni risíbúð með útsýni yfir hafið. Nei, ég ætla að kíkja á íbúð fyrir stelpu sem er að koma hingað sem post-doc. Það þarf einhver að kíkja á íbúðina svo hún viti hvað hún er að leigja og ég bauð mig fram. Hún er merkingarfræðingur og það er ágætt að hafa slíkt fólk vinveitt sér. Reyndar kom svo í ljós að við hittumst í fyrra á ráðstefnu á Spáni. Hún mundi eftir mér en ég hafði ekkert tengt nafnið hennar við þá ráðstefnu. Enda vildi ég helst gleyma þeirri ferð.  

Í dag fór ég líka upp í skóla og prentaði út greinarnar sem ég þarf að lesa yfir fyrir Salish ritið af málfræðitímaritinu okkar. Ég og Martin Oberg, kunningi minn úr klifrinu, erum ritstjórar. Við erum búin að lesa allt yfir einu sinni, sendum greinar til baka með leiðréttingum og nú eiga höfundar að vera búnir að laga allt og senda okkur nýjar útgáfur. Því miður hafa ekki allir sent inn leiðréttar greinar. Veit ekki af hverju fólk sinnir ekki tímatakmörkum. En ég prentaði samt út það sem ég var búin að fá og á morgun ætla ég að setjast út í sólina, annað hvort úti í garði eða niðri á strönd, og lesa yfir bunkann. Þá kem ég einhverju í verk en næ mér í D vítamín í leiðinni.

En nú er ég farin að sofa. Klukkan er orðin allt of margt. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Þér tekst ekki svo glatt að gleyma þessari ferð sem þú vildir helst gleyma því að nú spyr ég: Hvers vegnavildirðu helst gleyma henni? Og mun post-doc-stúlkan ekki endalaust minna þig á - bara með tilvist sinni? Hmmm?

Berglind Steinsdóttir, 8.7.2007 kl. 07:55

2 identicon

Hvað er 'merkingarfræðingur' ?

Les hún í merkingu þess hvort maður lætur inniskóna snúa að rúminu eða frá, á kvöldin ?

Hefurðu borðað kanadíska réttinn 'poutine' (eða hvernig er þetta annars skrifað ?)  Sem samanstendur af Frönskum kartöflum og brúnni sósu.

Ég var að vinna með nokkrum frá Québec og þeir drógu mig með á Kanadískan veitingastað hérna í París til að borða 'Poutine'.    Það eru örugglega 1+E99 hitaeiningar í skammtinum og ég hélt ég fengi kransæðastíflu + hjartaslag um leið og seinasta franskan rann niður.

Svo brostu kvikindin bara þegar ég var farinn að svitna og arðinn andstuttur

Fransman (IP-tala skráð) 8.7.2007 kl. 10:54

3 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Fransman, já ég hef smakkað poutine og eins og Auður segir, þvílíkt ógeð. Ég smakkaði það fyrst fyrir nokkrum árum og fannst vont en svo þegar ég var í Québec í fyrra fannst mér að ég yrði að gefa þessu annan séns, fyrst þetta er þjóðarréttur þeirra í Québec en nei, það var eins og í fyrra skiptið. Heillaði ekki. Þegar við fengum franskar með steikinni hér áður fyrr og sósa var höfð með, þá passaði ég mig alltaf á því að fá ekki sósu á franskarnar, þannig að maður fer nú ekki að borða rétt þar sem franskarnar eru löðrandi í sósu, og með ost ofan á í þokkabót. Enda finnst mér franskar hrikalega góðar og finnst ég leyfi mér af og til slíkar kaloríur þá fer maður nú ekki að drekkja bragðinu í öðru. Skil vel að þú skyldir hafa svitnað.

Berglind, þetta var ljóta ferðin. Það var ráðist á mig úti á götu, fékk svo hrikalega meðferð hjá málfræðingum yfir fyrirlestri mínum (að ósekju að mínu mati), svo var flugið  mitt frá Spáni til Englands fellt niður og ég eyddi heilum degi í biðröð á vellinum til að geta bókað annað flug. Missti tengiflugið til Kanada og varð að borga sjálf fyrir nýtt flug af því að flugin tvö voru  með tveimur mismunandi flugfélögum. Skrifaði á sínum tíma um árásina frá rónanum hér  http://stinajohanns.blog.is/blog/stinajohanns/entry/38226/ en virðist hafa verið of pirruð til að skrifa um heimferðina. Er svolítið hissa á því. En það gerðust alla vega mjög leiðinlegir hlutir í þessari ferð.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 8.7.2007 kl. 16:51

4 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Hefði átt að gera tengilinn aðgengilegri, geri það hér: http://stinajohanns.blog.is/blog/stinajohanns/entry/38226/

Kristín M. Jóhannsdóttir, 8.7.2007 kl. 16:52

5 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Gleymdi að svara fyrstu spurningu Fransman. Merkingarfræði er undirgrein málfræði og gengur út á að skilja hvernig í ósköpunum við getum tengt merkingu við þann hljóðfræðlega streng sem kemur út úr munninum á okkur þegar við tölum.  

Kristín M. Jóhannsdóttir, 8.7.2007 kl. 17:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband