Um kvenréttindi í nútíð og framtíð.
8.7.2007 | 19:52
Íhaldsflokkurinn kanadíski hefur nýlega tekið upp á þeirri iðju að biðja ákveðna þjóðernishópa afsökunar á ýmsu óréttlæti sem viðkomandi hópar voru beittir fyrir tugum ára en það virðist alveg undarlegt að hóparnir sem beðnir eru afsökunar eru yfirleitt þrýstihópar með þokkaleg áhrif. Ekki hefur bólað á afsökunarbeiðnum til indjána, svo ég nefni nú bara þann þjóðfélagshóp sem hefur verið beittur meira óréttlæti en nokkur annar hópur í landinu.
Í Vancouver Sun í dag skrifaði svo Daphne Bramham góða grein um það óréttlæti sem konur hafa verið beittar í þessu landi í gegnum tíðina og bendir á að ekki virðist neinum detta í hug að biðjast afsökunar á því. Hún bendir m.a. á að
·Konur fengu ekki að kjósa fyrr en 1921, 54 árum eftir að sambandsríkið var stofnað, og indjánakonur fengu ekki að kjósa fyrr en 1960.
·Konur voru ekki viðurkenndar sem manneskjur fyrr en 1929, þrátt fyrir að vera um 51% af mannfjöldanum.
·Lögin um ríkisborgararétt frá 1947, og sem giltu til 1974, sögðu svo til um að konur hefðu ríkisborgararétt eiginmanna sinna. Þannig að ef karlmaður gaf upp ríkisborgararétt sinn þá missti konan hans sinn rétt sjálfkrafa.
·Börn kanadískra kvenna og erlendra feðra áttu ekki rétt á kanadískum ríkisborgararétti, þótt börn kanadískra karlmanna og erlendra mæðra ættu það. Sama ríkti um indjánastöðu barna.
·Þar til 1975 áttu konur ekki rétt á helmingi eignanna ef til skilnaðar kom. Indjánakonur eru enn í þeirri stöðu.
Og þótt búið sé að laga flest af þessu er enn margt óunnið:
·Konur eru einungis um einn fimmti af þingmönnum landsins.
·Konur í fullri vinnu fá aðeins 71 cent fyrir hvern dollar sem karlmenn fá.
·Tveir þriðju vinnandi kvenna vinna enn í svokölluðum bleiku gettóum, kvennastörfum, þ.e. heilsugæslu og skrifstofustörfum.
·38% einstæðra mæðra lifa undir fátæktarmörkum en aðeins um 17% einstæðra feðra.
Bramham bendir á að ef einhver hópur eigi rétt á afsökunarbeiðni frá kanadískum yfirvöldum vegna misréttar í gegnum tíðina þá séu það konur.
En kvenréttindahópar hafa ekki haft efni á því að berjast fyrir afsökunarbeiðni eða fárshagslegum bótum eins og hinir ríkisstyrktu þjóðernishópar hafa getað gert. Þær eru of uppteknar við það að reyna að halda í þá sigra sem náðst hafa.
P.S. Konan á myndinni er Nelly McClung sem er einn helsti kvenskörungur Kanadamanna og sú sem helst barðist fyrir því að konur yrðu viðurkenndar sem manneskjur. Þið getið lesið um hana hér.
Athugasemdir
Vá. Það er greinilega ýmislegt óunnið. En eru jafnréttislög í Kanada eins og hér (sem menn svo sniðganga)?
Berglind Steinsdóttir, 8.7.2007 kl. 22:19
Konur fengu ekki kosningarétt í Sviss fyrr en á níunda áratugnum. Mig minnir að það hafi verið 1985. Spáðu í það!
Sigurður Viktor Úlfarsson, 8.7.2007 kl. 23:43
Leiðrétti mig hér með...
Konur í Sviss fengu kosningarétt 1971 að lokinni þjóðaratkvæðagreiðslu (Já: 66% Nei: 34%). Áður hafði sama atkvæðagreiðsla farið fram 1959 þar sem þeim hafði verið hafnað. Þar eru hins vegar enn 7 kantónur þar sem meirihlutinn er gegn atkvæðarétti kvenna.
1985 fengu þær hins vegar jafnan rétt á við karla viðurkenndan í stjórnarskrá landins. Hreint ótrúleg ártöl í miðri Evrópu.
Sjá: http://history-switzerland.geschichte-schweiz.ch/chronology-womens-right-vote-switzerland.html
Af BBC 1971:
"Even one women's group had argued against change. The Swiss Women Against Voting Rights Association campaigned on the grounds that women's responsibilities lie in the household. "
Magnað!
Sigurður Viktor Úlfarsson, 8.7.2007 kl. 23:58
Guð minn góður. Þetta eru ótrúlegar tölur. Takk fyrir upplýsingarnar Sigurður. Berlind, já, þetta er svona svipað hér og heima.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 9.7.2007 kl. 01:50
það getur verið óttaleg sýndarmennska þegar stjórnmálamenn biðjast afsökunar á gjörðum stjórnmálamanna sem voru fyrst og fremst fulltrúar sinnar kynslóðar, og væntanlega úreltra viðhorfa. Það væri t.d. fráleitt ef Ingibjörg Sólrún bæðist afsökunar á ýmsum ákvörðunum Viðreisnarstjórnarinnar eða biskupinn bæðist afsökunar á "misgjörðum" kirkjunnar fyrr á öldum. Það eina sem stjórnmálamenn eða aðrir leiðtogar geta gert er að breyta lögum og afnema misréttið.
Benedikt Halldórsson, 9.7.2007 kl. 02:36
Ég er alveg sammála. En hér er það sem ég er í raun að segja. Eitt af því sem verið er að biðjast afsökunar á er að kanadísk stjórnvöld neituðu, fyrir nokkrum tugum ára, hópi kínverja um landvistarleyfi. Það var vegna þess að Kínverjarnir komu ekki eftir réttum leiðum og kanadísk yfirvöld voru því bara að fylgja eigin lögum. Kínverjarnir fóru því til baka, lentu í einhverjum vandræðum á bakaleiðinni og einhverjir þeirra dóu. Nú eru kanadísk yfirvöld sem sagt að tala um að biðjast afsökunar á þessu þrátt fyrir að þau hafi á sínum tíma ekki gert neitt rangt. Mér finnst, og ritara greinarinnar, að ef kanadískir stjórnmálamenn eru að biðjast afsökunar á hvernig þeir hafa komið fram við ákveðna minnihlutahópa þá ættu þeir að hugsa sér nær og biðja konur og indjána afsökunar. Ég er ekki endilega segja að neinn ætti að vera að biðja afsökunar. Bara að það er fáránlegt að biðja Kínverja afsökunar en ekki konur og indjána sem hafa verið beitt miklu meira ranglæti en Kínverjar, hér í Kanada.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 9.7.2007 kl. 03:59
Takk fyrir þetta. Mjög áhugavert.
Katrín Anna Guðmundsdóttir, 9.7.2007 kl. 15:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.