900 stöðvar á sjónvarpinu
10.7.2007 | 05:47
Núna í vor skipti ég úr kapli yfir í stafrænt sjónvarp og fyrstu þrjá mánuðina hef ég aðgang að öllum sjónvarpsrásum fyrirtækisins. Það eru sirka 300 sjónvarpsrásir og annað eins af útvarpi. Stundum er ekki horfandi á neitt á þessum 300 rásum. Þegar þessir þrír mánuðir eru úti get ég sett saman pakka sem hentar mér. Þá mun ég greiða fyrir grunnrásirnar 30, eða hvað þær eru nú margar og svo get ég annað hvort bætt við mismunandi pökkum (bíórásir eru einn pakki, lífsstíll er annar, afþreying sá þriðji, menning og menntun er einn pakki, o.s.frv.) eða greitt fyrir einstaka auka rás (en takmarkaðra val þar). Þetta er ólíkt betra en kapallinn var. Ég borgaði bara fyrir grunnkapal því ef maður vildi bæta við þá varð maður fyrst að kaupa aukapakka 1, svo aukapakka 2 og að lokum aukapakka 3. Ef maður vildi einhverja rás sem var í aukapakka 3 þá varð maður að kaupa alla hina. Og alltaf var það svo að mest spennandi rásirnar voru ofarlega og kannski bara tvær þrjár í hinum pökkunum sem maður vildi. Ég saknaði þess mikið eftir að ég flutti hingað á sjöundu og þurfti að fara að borga fyrir sjónvarpið (á 12. götu fékk ég aðgang að sjónvarpi þeirra fyrir ofan og þar af leiðandi allan pakkann ókeypis) að hafa ekki lengur Bravo þar sem hægt var að horfa á Law & Order alla daga og ýmislegt annað gott.
Ég er farin að hugsa um það hvort ég ætla mér að láta grunninn nægja þegar þessu þriggja mánaða tilboði lýkur eða hvort ég vil bæta einhverju við. Hver aukapakki kostar 6 dollara á mánuði (um 360 krónur) og hver aukastöð kostar 2. Ég hugsa að ég bæti við 'popular choices' þar sem ég fengi A&E, Bravo, Showcase, TLC, CourtTV og women's network. En það væri líka gagnlegt að hafa pakkann sem kallast 'time choice'. Þá sér maður sömu rásir og eru í grunnpakkanum en ég sé þessar rásir frá mismunandi tímabeltum. Oft á veturna, t.d. finnst mér of seint að fara að horfa á sjónvarp klukkan tíu. En í staðinn gæti ég bara horft á sjónvarpið frá Halifax og séð þáttinn klukkan sex í staðinn. Þetta getur líka verið gagnlegt á bestu sjónvarpskvöldunum, eins og t.d. þriðjudögum, þegar allar sjónvarpsstöðvarnar keppast við að setja vinsælustu þættina klukkan níu (í vetur voru þrír þættir klukkan níu á þriðjudegi sem ég vildi horfa á). Með mismunandi tímabeltum gæti ég hreinlega horft á þættina á mismuandi tímum (það er ekki hægt að taka upp eina rás og horfa á aðra á þessum stafrænu stöðvum). Gallinn er að þetta eykur sjónvapsáhorf óþarflega mikið.
Svo væri gaman að bæta við Fox Sports og BBC Canada, en ég sé til með það. Ég hef ekki horft eins mikið á þessar stöðvar undanfarið eins og ég hefði búist við. Ég hef orðið fyrir pínulitlum vonbrigðum með BBC og ég horfi líklega minna á Fox Sport af því það er sumar og sumaríþróttirnar eru ekki eins spennandi og vetraríþróttirnar. Mér finnst reyndar gaman að fara á hafnarboltaleiki en það er ekki skemmtilegt að horfa á þá í sjónvarpi. Þær íþróttir sem ég horfi mest á í sjónvarpi eru líklega enski fótboltinn og hokkí og hvort tveggja er í sumarfríi. Það er hægt að kaupa NHL stöðina aukaleg þar sem allir hokkíleikir eru sýndir, en vanalega sýnir CBC Vancouver alla Canucks leikina beint og ég er ekki svo mikill aðdáandi að ég þurfi að fylgjast mikið með öðrum liðum, svo ég hugsa að ég spari mér þann pening. En ég hef enn tíma til að raða þessu öllu saman.
Eitt af því sem er frábært við útvarpsstöðvarnar er að utan við þessar venjulegu stöðvar er hægt að velja þá tónlist sem maður vill hlusta á. Ég hluta lítið á tónlist í í útvarpi því það er alltaf verið að spila dansmúsík og leiðindi sem ég nenni ekki að hlusta á. Þarna getur maður valið næstum hvaða tónlistartegund sem er og hlustað á það. Í kvöld hef ég t.d. haft 'rock alternative' á sjónvarpinu og það hefur ekki enn komið leiðinlegt lag. Súper. Ég veit það er til fjöldinn allur af útvarpsstöðvum sem einbeitir sér að ákveðinni tegund tónlistar en maður þarf að muna hver er hvar. Þarna á sjónvarpinu þarf ég ekkert að muna hvaða stöð er hvar. Ég fer bara inn, finn tegundina af tónlist sem ég vil hlusta á og stilli á það. Og á meðan hvert lag er spilað má fá upplýsingar um heiti lagsins, flytjendur, plötu, útgáfuár, o.s.frv. Kannski ég fari að hlusta meira á útvarp.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Sjónvarp, Tónlist | Facebook
Athugasemdir
Mikið skelfing er ég fegin að hafa bara 70 rásir. Það tekur hlutfallslega styttri tíma að komast að því að það sé bara best að hafa slökkt hvort sem er. Það er svo skrítið að því fleiri rásir sem maður hefur virðist alltaf vera minna að horfa á.
Brynjar Hólm Bjarnason, 10.7.2007 kl. 07:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.