Ætlar einhver út í þorp?
10.7.2007 | 07:28
Þegar ég las pistilinn hennar Berglindar um strætó sem ekki kom datt mér í hug svolítið skemmtileg saga frá Akureyri. Þegar Michael Jón Clark tónlistarmaður á Akureyri flutti fyrst til landsins leigði hann herbergi hjá afa og ömmu í Þverholtinu (í Glerárþorpi). Átti hann ekki bíl og tók því strætó töluvert. Hins vegar kom það iðulega fyrir að vagninn kom ekki á tilsettum tíma. Og ekki það að hann væri bara seinn á ferð, heldur kom hann bara alls ekki. Mike varð ýmist að bíða eftir næsta strætó eða labba þangað sem hann ætlaði. Hann vissi aldrei hverju þetta sætti en ræddi þetta einhvern tímann við móður mína, sem mörgum mörgum árum seinna sagði mér frá þessu.
Mörgum árum eftir það var ég að spjalla við þáverandi kennara minn í háskólanum, Guðvarð Má, en hann gekk í menntaskólann á Akureyri, og var einmitt þar um það leyti sem Mike beið eftir strætó úti í þorpi. Ég man ekki hvernig talið barst að strætisvögnum Akureyrar en ég sagði Varða frá því hvernig Mike greyið hafði trekk í trekk þurft að bíða eftir strætó sem aldrei kom. Varði sagði hins vegar að þetta kæmi honum nú ekki á óvart. Hann sagðist iðulega hafa upplifað það að sitja í strætó á Glerárgötunni þegar bílstjórinn kallaði: "Er einhver á leið norður í þorp?" Ef enginn var á leið í þorpið þá sleppti vagnstjórinn því bara að fara þangað. Það skipti sem sagt ekki miklu máli þótt þar biði fólk sem treysti á vagninn.
Þannig var það því að um tuttugu árum eftir að Mike upplifði leyndardóma horfnu strætisvagnanna fékk ég skýringuna á því hvernig á þessu stóð.
Ég notaði aldrei mikið strætisvagn á Akureyri. Fyrstu sextán árin gekk ég allt og það var ekki fyrr en ég fór í menntaskóla að ég þurfti á strætó að halda. Þá var staðan reyndar orðin þannig að strætó var kominn með aðalstöðvar sínar út í Glerárþorp, hið svokallaða 'nýja hverfi' og skólaferðin á morgnana byrjaði því hófst á því að keyrt var niður í gamla þorp (holtin) og hyltingarnir sóttir. Síðan lá leiðin aftur út í nýja hverfi, þaðan yfir á brekku og svo loks niður að MA. Ef veður var vont og færð slæm þá þótti það hins vegar ekki taka sig að skutlast niður í gamla þorp eftir okkur krökkunum þar, enda aldrei mörg, svo það kom þó nokkrum sinnum fyrir að við lentum í því sama og Mike hér um árið. Við biðum og biðum og loks varð einhver að hlaupa heim og sækja heimavinnandi foreldri sem gæti hrúgað krökkunum inn í bíl og keyrt okkur í skólann. Í þessi skipti komum við alltaf of seint í skólann og fengum enga samúð frá kennurum þótt við værum svoddan annars flokks nemendur að strætó nennti ekki að sækja okkur.
Ég vona að strætókerfið á Akureyri sé orðið betra og að ekki lengur sé komið ekki eins illa fram við holtakrakkana og þá var.
Athugasemdir
Ja, frá og með áramótum er orðið ókeypis (ég veit að ekkert er ókeypis) í strætó hjá ykkur Akureyringum og traffíkin jókst þá til muna. Ég hef ekki heyrt af kvörtunum suður í höfuðborgina og les ég þó öll íslensk blöð alla daga.
Og mikil er ábyrgð Varða ... að segja alltaf bara nei við þorpsferðunum.
Berglind Steinsdóttir, 10.7.2007 kl. 22:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.