Leti
10.8.2006 | 07:10
Daginn allir. Já, ég er búin að vera löt að skrifaég viðurkenni það fúslega. Og ég ætla heldur ekki að skrifa mikið núna. Ég er búin að vera heima í tvo daga eftir að ég kom úr útilegu að Peter Hope vatni þar sem ég varð hræddari en ég hef nokkurn tímann orðið. Eða alla vega man ég ekki eftir því að hafa orðið eins hrædd. Viljið þið vita af hverju? Jæja, þá segi ég ykkur það bara ekkert. Í staðinn get ég sagt ykkur að í dag kláraði ég grein fyrir tímarit. Ekkert merkilegt reyndar. Þetta er tímarit CLA, Kanadísku málvísindasamtakanna, og þeir ætla að birta alla fyrirlestrana sem haldnir voru á þinginu í vor. Ég eyddi einum tveimur dögum í að hressa upp á fyrirlesturinn, laga ýmislegt, prófarkalesa, breyta uppsetningunni þannig að hún passi tímaritinu o.s.frv. Eftir að það var búið eyddi ég þó nokkrum tíma í að skoða verð á flugi til Spánar, verð á herbergjum, bílaleigubíl o.s.frv. Ég er ekki enn búin að taka ákvörðun um hvort ég læt duga að fara til Barcelona á Sinn und Bedeutung ráðstefnuna eða hvort ég tek mér auka daga og fer í frí, annað hvort á Spáni eða á Ítalíu. Það er eiginlega hálfgerð synd að eyða öllum þessum peningum í að fljúga til Spánar og stoppa svo bara í fjóra daga. En ég hef enn tíma til að ákveða mig.
Í kvöld talaði ég svo við Martin í síma. Við höfum lítið talað saman síðan ég fór til baka því fyrst var hann í útilegu og ekki í sambandi og svo fór ég í útilegu þar sem var ekkert símasamband. En við náðum að bæta úr þessu í kvöld og ná helstu fréttum frá báðum endum landsins.
Ó ég gleymdi að segja að í gær fór ég í MRI (er það ekki kallað segulómtæki á íslensku?). Ég fór í svoleiðis fyrr í sumar og þá virtust þeir hafa fundið þrengingu í mænugöngum svo þeir vildu taka fleiri myndir og skoða þetta betur. Ég þarf að bíða í tvær vikur áður en ég fæ að vita hvað kom úr þessu. En það er svo sannarlega ekki fyrir fólk með innilokunarkennd að fara í svona. Martin er með innilokunarkennd og þegar ég var að lýsa þessu fyrir honum varð hann að skipta um umræðuefni. Bara á því að heyra lýsingarnar. Sem betur fer hef ég aldrei haft innilokunarkennd þannig að þetta var ekkert mál fyrir mig. Ég sofnaði meira að segja næstum því. Ég held ég hafi dottað.
En nú er ég alltof þreytt til að skrifa meira enda komið fram yfir miðnætti. Svo ég ætla að drífa mig í rúmið. Ég skal segja ykkur frá útilegunni þegar ég nenni.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.